Efnahagsmál - 

08. febrúar 2008

Loftslagsmál munu hafa áhrif á öll fyrirtæki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Loftslagsmál munu hafa áhrif á öll fyrirtæki

Íslensk fyrirtæki munu á næstu árum og áratugum þurfa að bregðast við loftslagsbreytingum með því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda með einum eða öðrum hætti. Þetta kom fram á fjölsóttum morgunverðarfundi SA um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum. Sá árangur sem Íslendingar hafa náð í notkun endurnýjanlegra orkugjafa mun hins vegar gera það að verkum að það verður vandasamt að draga verulega úr útstreymi á Íslandi og það mun taka langan tíma. Árangur Íslands í loftslagsmálum nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og er mikilvægt að svo verði áfram en í kjölfar loftslagslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Balí í desember á síðasta ári er nú unnið að undirbúningi nýs alþjóðlegs samkomulags á sviði loftslagsmála sem verður til umræðu á loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn 2009 og er ætlað að taka gildi árið 2013. Mikilvægt er að stjórnvöld gæti hagsmuna Íslands og að atvinnulífið verði virkur þátttakandi í þeirri vinnu.

Íslensk fyrirtæki munu á næstu árum og áratugum þurfa að bregðast við loftslagsbreytingum með því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda með einum eða öðrum hætti. Þetta kom fram á fjölsóttum morgunverðarfundi SA um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum. Sá árangur sem Íslendingar hafa náð í notkun endurnýjanlegra orkugjafa mun hins vegar gera það að verkum að það verður vandasamt að draga verulega úr útstreymi á Íslandi og það mun taka langan tíma. Árangur Íslands í loftslagsmálum nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og er mikilvægt að svo verði áfram en í kjölfar loftslagslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Balí í desember á síðasta ári er nú unnið að undirbúningi nýs alþjóðlegs samkomulags á sviði loftslagsmála sem verður til umræðu á loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn 2009 og er ætlað að taka gildi árið 2013. Mikilvægt er að stjórnvöld gæti hagsmuna Íslands og að atvinnulífið verði virkur þátttakandi í þeirri vinnu.

Áhrif Balí-vegvísisins á íslensk fyrirtæki
Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá SA, ræddi á fundinum um áhrif hins svokallaða Balí-vegvísis á íslensk fyrirtæki ásamt því að draga upp greinargóða mynd af því hvert stefnir í loftslagsmálunum á alþjóðavettvangi og á Íslandi. Pétur sat fyrir hönd SA loftslagsráðstefnu SÞ á Balí en í máli hans kom fram að það væri viðurkennt af atvinnulífinu að hlýnun jarðar væri óumdeilanleg, að sú hlýnun stafaði að öllum líkindum af starfsemi manna en unnt væri að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda með margvíslegum hætti. Pétur sagði ljóst að allar atvinnugreinar ættu eftir að finna fyrir auknum kröfum á sviðið loftslagsmála, t.d. kröfum um betri orkunýtingu tækja. Samgöngur yrðu fyrir áhrifum af þessum völdum og kolefnisskattar yrðu teknir upp í einhverri mynd. Breytingar á flestum sviðum yrðu hins vegar hægar.  

Pétur Reimarsson

Pétur vék í erindi sínu að áliðnaðinum á Íslandi en álframleiðsla er langstærsti útstreymisgeirinn hér á landi. Áliðnaður og járnblendi munu falla undir útstreymistilskipun ESB árið 2013 en hér á landi hafa álfyrirtæki náð gríðarlega góðum árangri við að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Til að mynda hefur Alcan í Straumsvík náð að draga saman útstreymi flúorkolefna úr rúmlega 420 þúsund tonnum (CO2 ígilda) árið 1990 í tæp 7 þúsund tonn árið 2007.

Ísland haldi yfirráðum yfir eigin auðlindum
Pétur undirstrikaði að atvinnulífið væri hluti af lausn loftslagsvandans og það væri viðhorf atvinnulífsins að best væri að nýta markaðslausnir við lausn hans. Kvótakerfi og stöðugt regluumhverfi til langs tíma ásamt svokallaðri geiranálgun væri heppileg leið til þess. Ljóst sé að viðurkenning alþjóðsamfélagsins á árangri Íslands í loftslagsmálum geti ekki einungis náð til áranna 2008 til 2012. Árangurinn hljóti að endurspeglast áfram í því samkomulagi sem taka á gildi árið 2013 eftir að gildistíma Kyoto-bókunarinnar lýkur. Það hljóti að vera vilji Íslendinga að hafa fullt forráð yfir eigin orkulindum og Ísland geti ekki nú frekar en 1997 samþykkt án viðurkenningar á árangri sínum það samkomulag sem taka mun við af Kyoto. Ísland hafi náð raunverulegum og mikilvægum árangri til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Ef því sé ekki haldið á lofti muni það takmarka þróun efnahagslífs og atvinnulífs í bráð og lengd.  

Fundur SA var vel sóttur

SA hafa hvatt stjórnvöld til þess að standa vörð um hagsmuni íslensks atvinnulífs og að ekki verði lagðar hömlur á nýtingu orkulindanna með alþjóðlegum samningum og að íslenska ákvæðið dugi til þeirrar starfsemi sem þegar eru áætlanir um og að unnt sé að halda áfram uppbyggingu hér á landi á þeim tíma sem nýju samkomulagi er ætlað að vara og samræmist markmiðum sem sett eru í efnahagsmálum og umhverfismálum að öðru leyti.

Árangur Íslands viðurkenndur
Jón Ingimarsson, verkfræðingur, flutti á fundinum einkar áhugavert erindi um leiðina til Kyoto en hann rakti aðdragandann að Kyoto-samkomulaginu og hvernig unnið var að því að fá viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á árangri Íslendinga í loftslagsmálum. Jón tók þátt í alþjóðlegum samningaviðræðum á sviði loftslagsmála fyrir hönd Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á árunum 1992-2000. 

Í samningaviðræðunum var vakin athygli á því að Ísland ætti miklar endurnýjanlegar orkulindir sem hefðu aðeins að litlum hluta verið beislaðar og áhersla væri lögð á að nýta þær frekar. Það væri óhjákvæmilegt að útstreymi við iðnferla myndi auka útstreymi á Íslandi en líta ætti á slíkt útstreymi frá hnattrænu sjónarhorni.  Í því sambandi var bent á að útstreymi við álframleiðslu sem nýtir endurnýjanlega orku er einungis 10% af útstreymi sem yrði ef kol væru notuð við raforkuvinnsluna.  

Jón Ingimarsson

Á þessi sjónarmið Íslendinga var hlustað og fékkst það viðurkennt í svokölluðu "íslensku ákvæði" að aðstæður hér væru öðru vísi en annars staðar í heiminum enda er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hvergi hærra en hér á landi.  Íslenska ákvæðið er 1,6 milljón tonn af CO2 á  ári. Í erindi sínu nefndi Jón að ef kaupa hefði þurft þennan kvóta á markaði hefði það kostað um 15 milljarða króna á skuldbindingartímabilinu.  Ætla megi að verulegur hluti raforkunnar sem hefði verið nýttur til framleiðslunnar í öðrum löndum hefði verið framleiddur með jarðefnaeldsneyti (kolum eða jarðgasi) og því gæti þessi 1,6 m tonna kvóti á ári minnkað útstreymi í heiminum á bilinu 5 - 14 milljónir tonna af CO2 á ári. 

Í lokaorðum sínum sagði Jón að vinna á grundvelli Bali vegvísisins þurfi að miða að því að Ísland geti haldið áfram að vera aðili að bókunum og ákvörðunum á grundvelli loftslagssamningsins. Ef Ísland getur hins vegar ekki samþykkt niðurstöðuna  þurfi þjóðin að vera búin að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri og fá skilning annarra ríkja á því hvað kemur í veg fyrir það.  Þá séu góðar líkur á að lausn finnist.

Fundarstjóri var Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, og stýrði hann fjörlegum umræðum.

Sjá nánar efnismiklar glærur frummælenda:

Pétur Reimarsson

Jón Ingimarsson

Samtök atvinnulífsins