Samkeppnishæfni - 

11. júní 2007

Loftslagsbreytingar og orkumál á fundi 8 helstu iðnríkja heims í Þýskalandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Loftslagsbreytingar og orkumál á fundi 8 helstu iðnríkja heims í Þýskalandi

Í stefnuyfirlýsingu leiðtogafundarins í Heiligendamm er lögð veruleg áhersla á loftslagsbreytingar, orkunýtingu og orkuöryggi sem viðfangsefni og tækifæri til hagvaxtar. Leiðtogarnir eru sammála um að þörf sé á ákveðnum og samhæfðum aðgerðum til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í heiminum og til að auka orkuöryggi. Það sé sameiginleg ábyrgð allra að takast á við loftslagsbreytingar, að styðja við hagvöxt og forðast efnahagslegar kollsteypur.

Í stefnuyfirlýsingu leiðtogafundarins í Heiligendamm er lögð veruleg áhersla á loftslagsbreytingar, orkunýtingu og orkuöryggi sem viðfangsefni og tækifæri til hagvaxtar. Leiðtogarnir eru sammála um að þörf sé á ákveðnum og samhæfðum aðgerðum til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í heiminum og til að auka orkuöryggi. Það sé sameiginleg ábyrgð allra að takast á við loftslagsbreytingar, að styðja við hagvöxt og forðast efnahagslegar kollsteypur.

Mikil tækifæri felast í því að bregðast við loftslagsbreytingum með nýsköpun og tækniþróun og með því að draga úr fátækt. Til að hægja á og stöðva síðan aukningu útstreymis og draga svo verulega úr því er nauðsynlegt að fjárfestingar, tæknivæðing og sjálfbær þróun byggi á sterku hagkerfi. Margar aðferðir eru til að stefna í þessa átt þ.m.t. markaðslausnir, skattalegir hvatar og hertar reglur. Leiðtogarnir skuldbundu  sig á fundinum til að hafa forystu í baráttu við loftslagsbreytingar og að þróa áfram alþjóðlegt stýrikerfi til að takast á við þær. Verður horft sérstaklega til þessa við undirbúning ríkjafundar Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna síðar á þessu ári. Viðfangsefnið er til langs tíma og krefst alþjóðlegrar þátttöku. Margs konar aðstæður ríkja leiða til þess að lausnirnar geta verið mismunandi.

Bent er á að orkunotkun fari stöðugt vaxandi og sé grunnforsenda hagvaxtar og þróunar í heiminum. Geta til að framleiða hreina og örugga orku á viðráðanlegu verði til að viðhalda hagvexti er samofin vilja til að vernda umhverfið. G8 ríkin leggja mikla áherslu á orkunýtingu og samvinnu á því sviði. Gagnsæi og stöðugleiki orkumarkaða eru nauðsynlegar forsendur til að hvetja til fjárfestinga og til að fjölbreyttar orkulindir verði nýttar.

Loftslagsbreytingar
Það þarf að takast á við loftslagsbreytingar sem fyrst og byggja við það á vísindalegri þekkingu. Leiðtogarnir segja að þegar markmið verða sett verði sjónum beint að ESB, Japan og Kanada en þessi ríki miða m.a. við helmings samdrátt í alþjóðlegu útstreymi fyrir árið 2050. Stórum ríkjum í örri þróun verði boðið að taka þátt í þeim aðgerðum. Þar sem loftslagsbreytingar eigi sér stað um allan heim verði viðbrögðin að vera alþjóðleg.
Leiðtogarnir telja mikilvægt er að tengja saman rammaáætlanir sem taka á loftslagsbreytingum, orkuöryggi, hagvexti og sjálfbærri þróun.


Viðurkennt er að viðbrögð þróaðra ríkja séu ekki nægilega markviss og nauðsynlegt sé að önnur ríki leggi einnig fram sinn skerf.  Öll ríki eru hvött til að leggja sitt af mörkum á ríkjaráðstefnu Loftslagssamnings S.þ. í Indónesíu síðar á þessu ári með það að markmiði að ná heildstæðu samkomulagi sem taki gildi eftir 2012 og nái til ríkja þar sem útstreymi er mest. Stærstu hagkerfi heims verði að koma sér saman um sitt framlag fyrir lok ársins 2008 svo hægt sé að taka mið af því í heildarsamkomulagi Loftslagssamningsins 2009. Rætt hefur verið við fulltrúa Brasilíu, Indlands, Kína, Mexíkó og Suður Afríku og verður fundum haldið áfram. Í yfirlýsingu fundar leiðtoganna  er fagnað boði Bandaríkjanna um að halda fund ríkja þar sem útstreymi er mest. Fjalla ætti þar um áætlanir og markmið einstakra ríkja, svæða og á heimsvísu.

Tækni og markaður
Tækni er lykill að því að ná tökum á loftslagsbreytingum og auka orkuöryggi. Sem fyrst verður að þróa og taka í notkun aðferðir sem nota minna kolefni, hreinni orku og eru loftslagsvænni á öllum sviðum orkukerfisins.  Byggja má á fjölbreyttum hagrænum hvötum eins og viðskiptum með útstreymisheimildir bæði innanlands og milli ríkja, skattalegum hvötum, reglum sem byggja á að ná sem bestum árangri, gjöldum og sköttum og með hvatningu til neytenda segja leiðtogarnir. Mikilvægt sé að skapa viðskiptalífinu umhverfi sem er fyrirsjáanlegt og gildi til langs tíma ennfremur að  styrkja sveigjanleikaákvæði með því að þróa og víkka þau út.

Í stefnuyfirlýsingunni er fjallað um mikilvægi þess að draga úr eyðingu skóga. Ennfremur um aðlögun að loftslagsbreytingum og hve nauðsynlegt er að vernda fjölbreytileika lífríkisins

Orkunýting
Gríðarlegir möguleikar  eru til að spara orku og draga stórlega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Lögð verður mjög mikil áhersla á alþjóðlegt starf á þessu sviði. Það er sameiginlegt hagsmunamál allra ríkja að hvetja til sem bestrar orkunýtingar. Stefnt er að því að draga úr því að hagkerfin verði áfram eins háð orku og nú er, án þess að það bitni á hagvexti og samkeppnishæfni. Aðgerðir munu m.a beinast að hagrænum hvötum, orkunýtingarstöðlum, merkingum um orkunotkun, upplýsingaherferðum, samkomulagi við einstakar iðngreinar, fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun og viðmiðunum um opinber innkaup.


Fjallað er um orkunýtingu í byggingum þar sem möguleikar til orkusparnaðar eru hvað mestir.


Nú eru um 600 milljón vélknúin ökutæki í heiminum og því er spáð að fjöldi þeirra muni tvöfaldast til ársins 2020. Ríkin ætla að beita sér fyrir fjölmörgum aðgerðum til að draga úr orkuþörf og útstreymi koldíoxíðs.  Þar má nefna nýjar vélargerðir, nýja orkugjafa, skipulagsaðgerðir og almenningssamgöngur. Minnst er í yfirlýsingunni á orkugjafa og orkubera eins og lífdísel, vetni, gas, raforku og tvinnvélar og að mikilvægt sé að þróa alþjóðlega lífdíselstaðla og koma í veg fyrir neikvæð áhrif mikillar landnotkunar undir lífdíselræktun. Hvatt er til að upplýsingar um orkunýtni fylgi nýjum bílum.


Jarðefnaeldsneyti verður megin orkugjafi heimsins næstu 25 árin að mati leiðtoganna. Alger nauðsyn sé á að bæta nýtingu  orkunnar með fjárfestingu í orkuverum og flutningskerfum og með því að fjárfesta í rannsóknum og þróa nýja tækni. Orkunotkun eykst jafnt og þétt í ríkjum í örri þróun og víðtækt samstarf við þau er nauðsynlegt til að tryggja að bestu fáanlegri tækni sé beitt.


Hraða verður þróun og nýtingu tækni sem gerir kleift að fanga kolefni í útblæstri og koma fyrir í geymslu.


Útstreymi frá iðnaði mun aukast verulega á næstu 25 árum. Þess vegna verður lögð áhersla á að bæta orkunýtingu í orkufrekum iðnaði, að taka í notkun nýja tækni og að hvetja til þróunar nýrrar tækni við framleiðslu t.d. járns, stáls og sements.
Nýting fjölbreyttari orkulinda er nauðsynleg til að auka orkuöryggi og draga úr útstreymi. Þá verður hætta sem fylgir truflunum á einhæfu orkukerfi minni en ella. Því vilja leiðtogarnir leggja áhersla á nýtingu hreins eldsneytis og endurnýjanlegra orkulinda. Friðsamleg nýting kjarnorku og aukið öryggi við nýtingu hennar skiptir líka máli í þessu samhengi.

Vefur G8 fundarins er hér

Samtök atvinnulífsins