Loforðakvóti ríkisstjórnarinnar búinn

Unnt er að segja kjarasamningunum frá 5. maí sl. upp 1. febrúar 2012 og aftur 1. febrúar 2013 hafi forsendur þeirra ekki staðist að mati samningsaðila. Helstu forsendur vegna 1. febrúar 2012 snúa að þróun kaupmáttar, verðlags og gengis, auk þess að ríkisstjórnin hafi staðið við gefin fyrirheit í tengslum við samningana.

Forsendan um kaupmáttarþróun er skýr í samningnum. Skoða á hvort kaupmáttur samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands hafi aukist á tímabilinu desember 2010 - desember 2011. Yfirgnæfandi líkur eru til þess að þessi forsenda kjarasamninganna standist. Launavísitalan var 6,8% hærri í júlí og vísitala neysluverðs 3,8% hærri í ágúst en í desember sl. Ekki eru eftir nema fjórar mánaðarlegar mælingar á verðbólgu og afar ólíklegt að verðlag hækki 3% umfram laun á þessum tíma.

Forsendan um verðbólgu á samningstímanum er að verðlag haldist stöðugt. Tölulegt markmið um 2,5% verðbólgu gildir aðeins vegna mats á samningsforsendum í janúar 2013 og verður þá litið til hækkunar vísitölu neysluverðs milli desember 2011 og desember 2012. Við mat á verðlagi í janúar næstkomandi verður að hafa í huga að við undirritun samninganna í byrjun maí sl. var þegar komin fram 2,0% hækkun á verðlagi frá því í desember 2010 m.a. vegna óhagstæðrar gengisþróunar og hækkunar orkuverðs. Ennfremur var vitað að kjarasamningarnir hefðu verðlagsáhrif strax frá sumarbyrjun. Ekkert hefur komið á óvart í þróun verðlags frá því kjarasamningarnir voru gerðir. Reikna má með því að vísitala neysluverðs hækki um 5%-6% á viðmiðunartímabilinu desember 2010-desember 2011.

Í samningunum var gengið út frá því að gengi krónunnar styrktist markvert á árinu 2011 og að gengisvísitalan verði komin niður fyrir 190 í árslok 2012. Ekki hefur enn orðið af því enda hafa gjaldeyrishöftin í för með sér að krónan hlýtur að verða veik komi ekki eitthvað sérstakt til. Það sérstaka sem koma átti til var að kraftur færðist í fjárfestingar eins og fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Erlendar fjárfestingar hefðu í för með sér innstreymi af gjaldeyri til þess að greiða fyrir innlendan kostnað og gætu lagt grunn að styrkingu gengis krónunnar.

Ríkisstjórnin gaf ýmis fyrirheit í yfirlýsingu sinni í tengslum við kjarasamningana. Sum hafa gengið eftir en önnur ekki. Átak til að koma atvinnulausum til náms í framhaldsskólum og háskólum og ýmis atriði varðandi tekjuskatt fyrirtækja gengu eftir þótt endanleg afgreiðsla Alþingis væri ekki í fullu samræmi við það sem lagt var upp með. Þá hafa önnur mál verið í ásættanlegum farvegi, s.s. verkefni vegna ferðaþjónustu utan háannatíma, nýsköpunar og starfsendurhæfingar.

Ein veigamestu málin, fjárfestingar í samgöngum og sjávarútvegsmálin. hafa ekki gengið eftir. Enginn vilji var hjá innanríkisráðherra til að leggja í framkvæmdir við Suðurlands- og Vesturlandsveg og ríkisstjórnin var staðföst í að halda áfram ófriði gagnvart sjávarútveginum þrátt fyrir loforð um annað. Ýmis mikilvæg mál sem rætt er um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hafa ekki heldur gengið eftir, s.s. aðkoma aðila vinnumarkarins að efnahagsáætlun og mótun nýrrar peningastefnu. Vinna að samræmingu lífeyrisréttinda hefur legið niðri og ekki er hafin vinna við sérstakt tilraunaverkefni um þjónustu við atvinnuleitendur í því skyni að stuðla m.a. að virkari vinnumiðlun.

Þá er grafalvarlegt að fjárfestingar í orkuframkvæmdum og tengdri framleiðslu eru ekki að hefjast í þeim mæli sem vonast var til. Rammaáætlun sem lögð hefur verið fram um orkunýtingu á næstu árum setur afar þröngar skorður við uppbyggingu iðnaðar og virkjana á næstu árum og bendir til að ríkisstjórnin sjái mikil vandamál við fjárfestingar og atvinnusköpun á þessu sviði.

Samtök atvinnulífsins hafa verið óþreytandi að benda á nauðsyn þess að auka fjárfestingar í atvinnulífinu, fyrst og fremst í útflutningsgreinum, og efla atvinnu og hagvöxt í bráð og lengd. Horfur eru á að hagvöxtur þessa árs verði hægur. Spár fyrir árið 2012 benda til þess að væntingar aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninganna um 4%-5% hagvöxt verði óraunhæfari með hverri vikunni sem líður. Ef hagvöxtur af þeirri stærðargráðu ætti að nást á næsta ári þyrfti kröftug uppsveifla að hefjast nú á haustmánuðunum sem héldist á nýju ári. Það gerist ekki.

Því stefnir í enn eitt hjakkárið þar sem tækifærin til að komast upp úr kreppunni eru látin ónotuð. Ekkert bendir til þess að ríkisstjórnin breyti um kúrs og setji fjárfestingar og aukna atvinnu í fyrirrúm þannig að breyting til batnaðar verði á síðari hluta næsta árs sem skili öflugum hagvexti á árinu 2013. Þessi hjakkstefna virðist reyna verulega á innviði ríkisstjórnarinnar. Ásetningur einstakra ráðherra, um að leita hagnýtra lausna á viðfangsefnum og samstöðu til að komast út úr kreppunni, endar sífellt oftar í viðleitni til að vinna hugmyndafræðilega sigra, ekki síst á atvinnulífinu, með skelfilegum afleiðingum.

Ríkisstjórnin sýnir hvorki forystu né vilja til að skapa samstöðu og koma landinu út úr kreppunni. Hún er að láta tækifærin til að koma atvinnulífinu á alvöru skrið og vera komin upp úr kreppunni árið 2015 renna sér úr greipum. Þvert á móti er stórhætta á að kreppuástandið vari út allan þennan áratug. Að sjálfsögðu gagnrýna forystumenn ríkisstjórnarinnar alla þá sem þeim virðast ekki sjá ljósið en skilja ekki að þeim, sem vanist hafa myrkrinu, verður minnsta skíma að skínandi leiftri.

Þetta skapar óþarfa óvissu um það verkefni sem bíður aðila vinnumarkaðarins í janúar 2012 vegna mögulegrar uppsagnar kjarasamninga 1. febrúar. Stöðugleiki á vinnumarkaði er mikið hagsmunamál fyrir atvinnulífið og samfélagið allt og er ein lykilforsenda þess að trú skapist á framtíðina og að fjárfestingar aukist. Það er því keppikefli fyrir atvinnulífið að kjarasamningarnir haldi en það gerist ekki á grundvelli nýrra loforða frá ríkisstjórninni. Loforðakvóti hennar er búinn. Ríkisstjórnin hefur enn svigrúm til að skapa skilyrði fyrir auknar fjárfestingar, meiri atvinnu og bætt lífskjör.


Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA: Af vettvangi í september 2011