Efnahagsmál - 

06. Febrúar 2011

Loðnubrestur af mannavöldum yfirvofandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Loðnubrestur af mannavöldum yfirvofandi

Komi til verkfalls starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum verða landsmenn að kljást við alvarlegar afleiðingar loðnubrests af mannavöldum. Þjóðfélagið mun verða af miklum verðmætum, fyrirtæki verða fyrir umtalsverðu tjóni og starfsmenn þeirra tapa launagreiðslum. Þetta var meðal þess sem kom fram á opnum fundi SA um atvinnumálin í Vestmannaeyjum á föstudaginn þar sem Vilmundur Jósefsson, formaður SA, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdasjóri SA kynntu atvinnuleiðina - sýn Samtaka atvinnulífsins á leiðina út úr kreppunni.

Komi til verkfalls starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum verða landsmenn að kljást við alvarlegar afleiðingar loðnubrests af mannavöldum. Þjóðfélagið mun verða af miklum verðmætum, fyrirtæki verða fyrir umtalsverðu tjóni og starfsmenn þeirra tapa launagreiðslum. Þetta var meðal þess sem kom fram á opnum fundi SA um atvinnumálin í Vestmannaeyjum á föstudaginn þar sem Vilmundur Jósefsson, formaður SA, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdasjóri SA kynntu atvinnuleiðina - sýn Samtaka atvinnulífsins á leiðina út úr kreppunni.

SA hafa hafnað kröfum Afls og Drífanda um 30% hækkun launa starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum. Tuga prósenta launahækkun í einstökum kjarasamningum myndi óhjákvæmilega flæða yfir allan vinnumarkaðinn og leiða af sér verðbólguöldu, enn lægra gengi krónunnar, hærri vexti, meira atvinnuleysi, skattahækkanir og enn lakari lífskjör. Á fundi SA í Vestmannaeyjum kom fram mikil samstaða meðal atvinnurekenda um að standa gegn því að þessi verðbólguleið verði farin.

Framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins kom einnig til umræðu á fundinum en í máli Vilmundar Jósefssonar, formanns SA, kom fram að eindregin samstaða væri innan SA um að fara svokallaða samningaleið í sjávarútvegi - nú sé sögulegt tækifæri til að ná sátt um málefni greinarinnar sem verði að nýta.

Varðandi stöðuna á vinnumarkaðnum almennt kom fram í máli Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA að samtökin hafi miklar áhyggjur af því hversu atvinnuleysi er mikið (um 14.000 manns) en lítil opinber umræða eigi sér stað um þennan mikla vanda sem bendi til þess að fólk sé orðið dofið fyrir ástandinu. Mikið atvinnuleysi megi ekki verða viðvarandi ástand og því þurfi að fara svokallaða atvinnuleið út úr kreppunni sem byggi á atvinnusköpun, fjárfestingu í atvinnulífinu og auknum útflutningi á vöru og þjónustu.

Nánari upplýsingar um ATVINNULEIÐINA má nálgst hér að neðan.

Tengt efni:

Atvinnuleiðin - ályktun stjórnar SA

Yfirlýsing SA um samningaleið í sjávarútvegi

Upplýsingavefur um atvinnuleiðina

Umfjöllun fréttastofu RÚV föstudaginn 4. febrúar

Samtök atvinnulífsins