Litlar veikindafjarvistir á Íslandi?

Veikindafjarvistir virðast vera talsvert minni hér á landi en á öðrum Norðurlöndum, en hérlend gögn eru reyndar mjög takmörkuð. Erlendis eru þær meiri hjá hinu opinbera en í einkageiranum og vísbendingar eru um það sama hér á landi. Ætla má að beinn kostnaður vegna veikindafjarvista sé um 20-25 milljarðar króna á ári.

Veikindafjarvistir íslensks verkafólks og iðnaðarmanna hafa um langt árabil mælst á bilinu 3,0-3,5%, samkvæmt gögnum Kjararannsóknarnefndar (KRN). Nýverið birtist ítarleg rannsókn á veikindafjarvistum á vegum dönsku samtaka atvinnulífsins (DA). Þar er að finna fjölþjóðlegan samanburð á fjarvistum þar sem fram kemur að almennt eru þær mestar í Noregi, eða 7% að meðaltali, og tvöfalt meiri þar í landi en í Bretlandi, þar sem þær eru liðlega 3%. Í Danmörku eru þær 4% og í Svíþjóð 5%.

(smellið á myndina)

Slíkur samanburður er reyndar vandasamur þar sem í sumum löndunum er allur vinnumarkaðurinn meðtalinn en annars staðar almennur vinnumarkaður einvörðungu. Þá hefur það áhrif hver réttindi manna eru og hvenær t.d. þeir sem þjást af langvinnum sjúkdómum hætta að teljast forfallaðir vegna veikinda og færast í raðir öryrkja.

Minnstar á Íslandi?
Tölur KRN um veikindafjarvistir er helst hægt að bera saman við norrænar tölur um fjarvistir meðal verkafólks. Í Danmörku eru fjarvistir verkafólks 5,2%, 7,5% í Svíþjóð og 9,0% í Noregi. Við fyrstu sýn virðast veikindafjarvistir því vera talsvert minni á Íslandi en í nágrannalöndunum. Erfitt er þó að fullyrða að svo sé þar sem niðurstöður fyrir Ísland byggja á afar litlu úrtaki og fyrir takmarkaðan hóp. Þá byggja þær einvörðungu á þeim fjarvistum sem greiddar eru af vinnuveitendum en engar upplýsingar liggja fyrir um þau veikindaforföll sem eiga sér stað eftir að greiðsluskyldu vinnuveitenda lýkur. Þá taka í flestum tilvikum við greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, en í þá renna milljarðar króna á ári frá atvinnulífinu. Um ráðstöfun þeirra fjármuna er fátt vitað.

Meiri fjarvistir hjá hinu opinbera
Í fyrrnefndri rannsókn frá Danmörku kemur m.a. fram að veikindafjarvistir eru meiri hjá opinberum starfsmönnum en í einkageiranum, og munar þar allt að 45%. Ekki liggja fyrir upplýsingar hérlendis um fjarvistir opinberra starfsmanna hjá ríki eða sveitarfélögum, þótt von muni vera á slíkri skráningu og úrvinnslu hjá bæði ríki og Reykjavíkurborg. Landspítalinn birtir hins vegar fjarvistir vegna veikinda starfsmanna sinna á heimasíðu sinni. Þar kemur í ljós að á fyrstu fjórum mánuðum ársins voru fjarvistirnar 5,4% og höfðu minnkað úr 6% frá sama tíma árið áður. Samkvæmt þessu lætur nærri að um 600 stöðugildi séu í veikindaleyfi árlega hjá spítalanum og fái greiddar 900 milljónir króna í veikindalaun.

Beinn kostnaður 20-25 milljarðar
Í dönsku rannsókninni kemur ennfremur fram að þegar einungis er litið til launagreiðslna í veikindum þá námu þær 3,5 milljörðum evra á árinu 2000 eða um 300 milljörðum íslenskra króna. Þar sem danski vinnumarkaðurinn er u.þ.b. tólf sinnum stærri en sá íslenski þá næmu launagreiðslurnar 20-25 milljörðum króna á Íslandi ef aðstæður væru eins að öðru leyti. Er þá einungis horft til beins kostnaðar, en við hann bætist t.d. kostnaður vegna þjálfunar, minni framleiðni á vinnustað og aukinn stjórnunarkostnaður.

Hægt að draga úr fjarvistum
Í úrvinnslu gagna KRN fyrir árið 2001 kemur m.a. fram að talsverður munur er á veikindafjarvistum eftir greinum og fyrirtækjum. Þannig eru þær 4% í byggingastarfsemi en 1,3% í heildverslun, og ólík fyrirtæki eru með veikindafjarvistir á bilinu 1,5-6%. Einnig mælast yfirmenn með 1,8% veikindafjarvistir en aðrir með 3,2%. Þá eru veikindafjarvistir meiri hjá hinu opinbera en hjá einkageiranum í nágrannalöndunum og þær tölur sem til eru frá Landspítalanum benda til að það sama kunni að vera uppi á teningnum hérlendis. Allt eru þetta vísbendingar um að hægt sé að draga úr veikindafjarvistum á vinnumarkaði, því þótt þær kunni að vera minni hérlendis en á öðrum Norðurlöndum (þar sem þær eru með hæsta móti) er engu að síður gríðarlegur samfélagslegur kostnaður í þeim fólginn.

Ítarefni: helstu niðurstöður úrvinnslu á gögnum KRN (pdf-skjal)

Ítarefni: helstu niðurstöður ítarlegrar skýrslu DA (pdf-skjal)

Þar kemur m.a. fram að

  • veikindafjarvistir eru meiri hjá opinberum starfsmönnum en í einkageiranum

  • meirihluta skammtímafjarvista má rekja til lítils hluta launamanna

  • skammtímafjarvistir er hlutfallslega meiri meðal yngra launafólks

  • einungis 12% launafólks rekja ástæðu síðustu veikindafjarvistar til aðstæðna á vinnustað, en í opinberri umræðu er þeim gjarnan varpað fram sem skýringu.