Efnahagsmál - 

08. janúar 2004

Lítil hreyfing á vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lítil hreyfing á vinnumarkaði

Allur þorri fyrirtækja, eða rúm 71%, hyggjast halda óbreyttum fjölda starfsfólks næstu 3-4 mánuði, samkvæmt könnun sem Samtök atvinnulífsins gerðu meðal aðildarfyrirtækja í desember sl. Meðal þeirra sem svöruðu hyggjast tæp 15% fjölga fólki og rúm 14% hyggjast fækka fólki. Þetta er lítið breytt mynd frá því í júní sl., þegar 13% fyrirtækja hugðust fjölga starfsfólki en 10% hugðust fækka því. Breytingin er þó talsverð frá því í desember 2002, þegar 21% fyrirtækja hugðist fækka starfsfólki en 8% hugðust fjölga því.

Allur þorri fyrirtækja, eða rúm 71%, hyggjast halda óbreyttum fjölda starfsfólks næstu 3-4 mánuði, samkvæmt könnun sem Samtök atvinnulífsins gerðu meðal aðildarfyrirtækja í desember sl. Meðal þeirra sem svöruðu hyggjast tæp 15% fjölga fólki og rúm 14% hyggjast fækka fólki. Þetta er lítið breytt mynd frá því í júní sl., þegar 13% fyrirtækja hugðust fjölga starfsfólki en 10% hugðust fækka því. Breytingin er þó talsverð frá því í desember 2002, þegar 21% fyrirtækja hugðist fækka starfsfólki en 8% hugðust fjölga því.

Kemur nokkuð á óvart miðað við hagvaxtarspár
Þetta kemur nokkuð á óvart í ljósi þess að flestir gera ráð fyrir nokkuð örum hagvexti á árinu eða á bilinu 3-3,5%, minnkandi atvinnuleysi og aukinni eftirspurn á vinnumarkaði. Í síðustu haustspá fjármálaráðuneytisins var t.d. gert ráð fyrir að hlutfallslegt atvinnuleysi minnkaði um 0,75% á næsta ári og að mannaflanotkun ykist um 2.000 ársverk. Þá er mikill munur á þessari niðurstöðu og niðurstöðu könnunar Gallups fyrir Seðlabankann í september sl. þar sem vísitala um ráðningaráform fyrirtækja næstu sex mánuði mældist 134, en hún getur hæst orðið 200 og 100 merkir hvorki fjölgun né fækkun. Fjöldi á atvinnuleysisskrá fyrsta virka dag ársins 2004 virðist á hinn bóginn samræmast þessari niðurstöðu þar sem hann var 5.267 sem var 72 fleiri en sama dag í fyrra. Minnkun árstíðaleiðrétts atvinnuleysis virðist því hafa stöðvast.

(smellið á myndina)


Einungis hluti svarenda gaf upp tölur um þann fjölda fólks sem þeir hygðust fjölga eða fækka um og ekki er hægt að draga mjög sterkar ályktanir út frá þeim tölum. Nokkur fyrirtæki boða hópuppsagnir (tíu manns eða fleiri), en önnur fyrirtæki boða verulega fjölgun starfsfólks og er nokkurt jafnvægi þar á milli.


 
Fjölgun hjá fjármálafyrirtækjum og rafverktökum
Ef horft er á einstakar starfsgreinar eftir aðildarfélögum SA eru það einkum fjármálafyrirtæki (SFF) og rafverktakar (SART) sem hyggjast fjölga fólki, en fyrirtæki í ferðaþjónustu (SAF), verslun og þjónustu (SVÞ) sem hyggjast fækka. Nokkur fjölgun starfsfólks virðist jafnframt framundan í útgerð (LÍÚ) og fiskvinnslu (SF), en nokkur fækkun í iðnaði (SI).

(smellið á myndina)


 
Fjármálageirinn sker sig hér augljóslega úr enda sú grein atvinnulífsins sem ber mestan arð um þessar mundir. Að öðru leyti spegla þessar niðurstöður annars vegar erfiða stöðu þeirra atvinnugreina sem hátt gengi krónunnar heldur niðri og hins vegar varfærni verslunar- og þjónustugreinanna sem virðast vantrúaðar á að neyslustig og umsvif fari enn vaxandi, væntanlega í ljósi mikils viðskiptahalla og örrar skuldasöfnunar heimilanna að undanförnu.

Stærri fyrirtækin hyggjast fækka fólki
Sem fyrr eru það stærri fyrirtækin, með yfir 40 starfsmenn, sem öðrum fremur hyggjast fækka starfsfólki, en sú hefur verið raunin í hálfsárslegum könnunum SA á ráðningaráformum fyrirtækja allar götur frá því í desember 2001. Nú hyggjast 26% þeirra fækka starfsfólki á meðan 13% þeirra hyggjast fjölga því. Þetta veldur nokkrum áhyggjum, því reynslan kennir að alla jafna eru það stærri fyrirtækin sem eru leiðandi í aðlögun að sveiflum í efnahagslífinu, en smærri fyrirtækin eru gjarnan undirverktakar hjá þeim stærri og selja þeim vörur og þjónustu.

Ekki var teljandi munur á svörum fyrirtækja eftir því hvort þau væru með starfssvæði á höfuðborgarsvæði eða á landsbyggðinni, utan að fyrirtæki með starfssvæði á landinu öllu boða helst fækkun starfsfólks. Styður það fyrrnefnda niðurstöðu varðandi stærri fyrirtækin.

Um könnunina
Könnunin var gerð í desember 2003. Spurningar voru sendar til 968 fyrirtækja og svör bárust frá 519, eða um 54%.

Samtök atvinnulífsins