29. september 2025

Lítið skref í rétta átt

Sigríður Margrét Oddsdóttir og Ragnar Árnason

1 MIN

Lítið skref í rétta átt

Ísland raðast í efstu sæti fjölmargra virtra mælikvarða sem leitast við að leggja mat á mikilvæga þætti sem snúa að lífsgæðum. Ísland er í efsta sæti þegar kemur að jafnrétti kynjanna, Ísland er á meðal 3% efstu ríkja á heimsvísu yfir landsframleiðslu á mann og jöfnuður mælist óvíða meiri.

Ein af meginástæðum þess að staðan er góð á Íslandi er sterkur vinnumarkaður, hér er atvinnuþátttaka með því hæsta sem þekkist, atvinnuþátttaka kvenna er jafnvel meiri en atvinnuþátttaka karla á hinum Norðurlöndunum, atvinnuleysi er lágt í alþjóðlegum samanburði og við búum við eitt besta lífeyriskerfið. Íslenskur vinnumarkaður er meðal annars sterkur vegna þess að hann er sveigjanlegur.

Þrátt fyrir sterkan vinnumarkað getum við gert betur, fyrirtæki á almennum vinnumarkaði eru í harðri samkeppni við hið opinbera um starfsfólk. Það er alvarlegt hversu algengt er orðið að við heyrum forsvarsmenn fyrirtækja segja að þeir eigi erfitt með að keppa við ríkisstofnanir þegar kemur að kjörum og meira en helmingur félagsmanna okkar staðfestir það í könnunum.

Opinberir starfsmenn njóta ríkulegra réttinda umfram almenna vinnumarkaðinn. Opinberir starfsmenn vinna að jafnaði styttri vinnuviku, fá lengra orlof, hafa ríkari veikindarétt og mun ríkari uppsagnarvernd en starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Þessi sérréttindi hafa verið metin til um 10-19% launahækkunar.

Ríkuleg réttindi á opinbera markaðinum skapa auk þess þrýsting í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði.

Sérréttindi opinberra starfsmanna draga úr skilvirkni í opinberum rekstri með ýmsum hætti, sérstök uppsagnarvernd er jafnframt til þess fallin að skapa óheilbrigt starfsumhverfi fyrir starfsfólk og stjórnendur á opinberum vinnumarkaði. Um þessar mundir leitast hið opinbera við að ná hallalausum rekstri og það fer mun betur á því að horfa inn á við, hagræða og auka skilvirkni en leitast við að afla meiri tekna, meðal annars frá atvinnulífinu sem hið opinbera keppir hart við um starfsfólk. Ísland er háskattaríki í alþjóðlegum samanburði, hið opinbera glímir ekki við tekjuvanda heldur útgjaldavanda.

Ríkuleg réttindi á opinbera markaðinum skapa auk þess þrýsting í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði. Það er því bæði skynsamlegt og mikilvægt að breyta lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og stjórnsýslulögum, til að samræma betur heildarlaunakostnað og auka sveigjanleika í ríkisrekstri.

Að auki þarf að tryggja að hið opinbera fylgi merki almenna markaðarins og semji ekki um ríkari launahækkanir og réttindi. Á tímabilum hefur hið opinbera leitt launaþróun í landinu. Samtök atvinnulífsins telja að hlutverk ríkissáttasemjara ætti að vera að tryggja að launastefnu stefnumarkandi kjarasamninga sé fylgt. Við viljum valdefla þá aðila vinnumarkaðarins sem semja um merkið, ef við semjum um stöðugleika, þá eiga aðrir að fylgja.

Áform um breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru lítið skref í rétta átt en það þarf að taka enn stærri skref. Þannig stuðlum við að aukinni samkeppnishæfni og verðmætasköpun á Íslandi. Munum að sterkur vinnumarkaður í dag er ekki ávísun á sterkan vinnumarkað í framtíðinni, það er á ábyrgð okkar kynslóðar að búa svo um hnútana að næstu kynslóðir njóti líka einna bestu lífsgæða í heiminum.

Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 27. september.

Sigríður Margrét Oddsdóttir og Ragnar Árnason

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og forstöðumaður á vinnumarkaðssviði Samtaka atvinnulífsins