Lítið dregið úr áræðni og stórhug margra fyrirtækja

Í áramótaviðtali Morgunblaðsins við Finn Geirsson, formann SA, segir hann m.a. ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir ýmis vonbrigði og áföll á liðnu ári hafi lítið dregið úr áræðni og stórhug margra fyrirtækja. Hann segir brýnt að búa svo um hnúta að gengi krónunnar haldist sem stöðugast.

Áramótaviðtal Morgunblaðsins við Finn Geirsson, formann Samtaka atvinnulífsins (Morgunblaðið, 30. desember 2001):


"Það sem stendur upp úr um þessar mundir er niðurstaða úr viðræðum SA, ASÍ og stjórnvalda sem felur í sér að mati á forsendum kjarasamninga er frestað og þess freistað þar með að endurheimta stöðugt rekstrarumhverfi og tryggja kaupmátt," segir Finnur Geirsson formaður Samtaka atvinnulífsins. "Því er ekki að neita að þróun gengis og þar með verðlags á árinu hefur valdið vonbrigðum og ekki verið í samræmi við væntingar okkar sem stóðu að kjarasamningunum á sínum tíma. Þessari þróun hafa fylgt afar háir vextir sem hafa verið fyrirtækjum þungbærir. Hins vegar má ekki gleyma því að veigamikill þáttur samninganna hefur tekist, þ.e. að bæta hag þeirra lægst launuðu hlutfallslega mest.

     Þá er ekki laust við að atburðirnir 11. september síðastliðinn hafi sett mark sitt á árið og breytt heimssýninni með afgerandi hætti. Þeir hafa á vissan hátt haft lamandi áhrif á efnahagsstarfsemina í heiminum, meðal annars haft merkjanleg áhrif á hag innlendrar ferðamannaþjónustu."

Hvaða vísbendingar gefa atburðir þessa árs um framtíðina?

"Ég á von á því að menn dragi þann lærdóm af síðasta ári að þeir sýni ítrustu varkárni. Þegar á móti blæs, eins og nú gerir hjá mörgum fyrirtækjum, eru oft fyrstu viðbrögð að reyna eins og kostur er að halda í horfinu og sjá síðan hverju fram vindur. Hins vegar er ánægjulegt að sjá, að þrátt fyrir ýmis vonbrigði og áföll á liðnu ári hefur lítið dregið úr áræðni og stórhug margra fyrirtækja. Þetta birtist t.d. í útrás þeirra íslensku fyrirtækja sem hafa verið að hasla sér völl á erlendum vettvangi og eru með því vonandi að vísa veginn fyrir fleiri íslensk fyrirtæki í framtíðinni. Ég er sannfærður um að þar erum við að uppskera árangur af þeim skipulagsbreytingum í frjálsræðisátt í efnahagsumhverfinu sem átt hafa sér stað á síðasta áratug og þeim stöðugleika sem fylgdi. Ákvörðun ríkisstjórnar um verulega bætt skattalegt umhverfi fyrirtækja hjálpar áreiðanlega til í þessu sambandi og því er ég bjartsýnn á að á næsta ári takist okkur að vinna okkur út úr þeim vanda sem við höfum verið í."

Hafa Samtök atvinnulífsins reiknað út hvernig þessar skattabreytingar eigi eftir að koma út fyrir fyrirtækin?

"Skattabreytingin er aðgerð sem er hugsuð til lengri tíma og ef við reiknum með að hagur fyrirtækja fari batnandi og skili hagnaði þá mun þessi skattabreyting fara að virka og skila jákvæðri niðurstöðu. Hún felur jafnframt í sér hvatningu til fyrirtækja um að skila auknum arði. Það má heldur ekki gleyma því að tekjuskattslækkunin stuðlar að því að íslensk fyrirtæki, sem hafa jafnvel hugsað sér að flytja starfsemi sína til útlanda, horfa síður til þess. Einnig er verið að ýta undir áhuga erlendra fyrirtækja á því að fjárfesta hér.

     Áhrif þessara breytinga hafa verið metin þannig að á árinu 2003 verði skattar fyrirtækja um tveimur milljörðum króna lægri en ella hefði verið, en skattalækkun einstaklinga er ríflega fimm milljarðar.

     Ef forsenda samkomulags ASÍ og SA um þróun verðlags fram til maí nk. gengur eftir mun hækkun tryggingagjalds ganga að hluta til til baka, þ.e. hækka um 0,5 prósentustig í stað 0,77. Þessi lækkun samsvarar um 900 milljónum króna og verður ráðstafað til hækkunar launa 1. janúar 2003, en samkvæmt samkomulaginu hækka laun um 0,4% meira en ella hefði orðið, ef forsendur halda."

Kemur hækkun tryggingagjaldsins ekki illa við mannmörg fyrirtæki?

"Hækkun tryggingagjalds er vissulega íþyngjandi, en ég met það svo að heildaráhrif þessara breytinga séu jákvæð. Í því fyrirtæki sem ég vinn hjá jafngildir tryggingagjaldshækkunin liðlega árslaunum eins starfsmanns í verksmiðju."

Telur þú að krónan sé framtíðargjaldmiðill okkar?

"Við höfum nýverið tekið upp nýja peningamálastefnu og fyrirsjáanlegt er að hún muni ríkja hér næstu árin. Við þær kringumstæður er brýnt að búa svo um hnúta að gengi krónunnar haldist sem stöðugast, sem er í raun forsenda fyrir þátttöku Íslendinga í alþjóðavæðingu viðskiptalífsins. Mér finnst hins vegar líklegt, þegar litið er til lengri tíma, að við munum taka upp gjaldmiðil sem tilheyrir stærra myntsvæði. Sennilegt er að það verði evran og þá sérstaklega ef fer sem horfir, að mikilvæg viðskiptalönd okkar sem nú standa utan Myntbandalags Evrópu, þ.e. Bretland, Svíþjóð og Danmörk, gerist þar aðilar. Áhyggjur manna af því að taka upp annan gjaldmiðil eru að því leyti skiljanlegar, að gengisaðlögun að ójafnvægi í þjóðarbúskapnum væri ekki lengur fær leið. Á hinn bóginn hef ég trú á því, að ef menn búa við gengi sem sveiflast ekki til og frá í takt við aðstæður hverju sinni þá munu þeir laga sig að slíku fyrirkomulagi. Þjóðarbúskapurinn er einnig óðum að taka á sig alþjóðlega mynd. Sú þróun mun trúlega verða enn hraðari ef við tökum upp annan og stærri gjaldmiðil. Svo má ekki gleyma að Ísland tilheyrir sameiginlegum vinnumarkaði EES, en góður hreyfanleiki vinnuafls er til þess fallinn að mynda mótvægi við mismunandi efnahagsþróun innan svæðisins. Ávinningurinn að öðru leyti er ótvíræður í formi lægri vaxta og lægri viðskiptakostnaðar og meira aðhalds vegna auðveldari samanburðar á verði milli landa. Einnig má ætla að Ísland verði fyrir vikið eftirsóknarverðari fjárfestingarkostur en ella."