Vinnumarkaður - 

08. mars 2010

Líst illa á nýja lagasetningu um kynjakvóta

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Líst illa á nýja lagasetningu um kynjakvóta

Á Íslandi hefur verið lögð áhersla á að tryggja rétt minnihluta í stjórnum fyrirtækja. Ný lög um kynjakvóta innan stjórna geta haft truflandi áhrif á þau markmið. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Á Íslandi hefur verið lögð áhersla á að tryggja rétt minnihluta í stjórnum fyrirtækja. Ný lög um kynjakvóta innan stjórna geta haft truflandi áhrif á þau markmið. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Rætt var við Vilhjálm í hádegisfréttum Bylgjunnar á laugardaginn en í síðustu viku samþykkti Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um hlutafélög og lög um einkahlutafélög. Samkvæmt því verður fyrirtækjum skylt að gæta að kynjahlutföllum í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga og kynjakvótar eru settir á hlutafélög og einkahlutafélög að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Bylgjuna að fyrirtæki hafi verið hvött til að jafna hlutföll kynjanna eins og kostur væri á. Hann segir lagasetningu sem er ætlað að tryggja þetta atriði þó ekki heppilega lausn og geti haft þó nokkur vandræði í för með sér. Hann segir að hér á landi hafi verið gengið hart fram í tryggja rétt minnihluta í stjórn fyrirtækja en lög um kynjakvóta gætu haft áhrif á þau markmið. Vilhjálmur segir svipuð vandamál koma upp ef persónukjör væri til Alþingis og reynt yrði að tryggja jafnt hlutfall kynja þar. "Þetta eru bara þekkt vandamál sem upp koma og er ekkert svarað í þessum lögum."

Samkvæmt nýsamþykktum lögum skulu í stjórn hlutafélags  eiga sæti fæst þrír menn. Í stjórnum opinberra hlutafélaga og hlutafélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Sama gildir um kynjahlutföll meðal varamanna í slíkum félögum en hlutföllin í stjórn og varastjórn skulu þó í heild vera sem jöfnust. Í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár skal sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn. Í hlutafélögum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, skal jafnframt sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna meðal starfsmanna og stjórnenda félagsins.

Í stjórn einkahlutafélags skulu eiga sæti fæst þrír menn nema hluthafar séu fjórir eða færri, þá nægir að stjórnina skipi einn eða tveir menn. Ef stjórn félags er skipuð einum manni skal valinn a.m.k. einn varamaður. Þegar stjórnarmenn eru tveir eða þrír í félagi þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skal hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%. Sama gildir um kynjahlutföll meðal varamanna í slíkum félögum en hlutföllin í stjórn og varastjórn skulu þó í heild vera sem jöfnust. Í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár skal sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn. Í einkahlutafélögum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, skal jafnframt sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna meðal starfsmanna og stjórnenda félagsins.

Sjá nánar:

Hádegisfréttir Bylgjunnar 6. mars

Umfjöllun um átak atvinnulífsins til að auka fjölbreytni í forystu

Ný lög um kynjakvóta á stjórnir fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins