Fréttir - 

27. febrúar 2002

Lissabon-ferlið og stækkun EES

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lissabon-ferlið og stækkun EES

Á fundi sínum í dag samþykkti ráðgjafarnefnd EFTA tvö álit, annars vegar um tengsl EFTA við hið svonefnda Lissabon-ferli ESB og hins vegar um stækkun EES.

Á fundi sínum í dag samþykkti ráðgjafarnefnd EFTA tvö álit, annars vegar um tengsl EFTA við hið svonefnda Lissabon-ferli ESB og hins vegar um stækkun EES.

Lissabon-ferlið
Í áliti nefndarinnar um tengsl EFTA við Lissabon-ferlið er minnt á að megin markmið ferlisins sé að gera ESB að samkeppnishæfasta hagkerfi veraldar fyrir árið 2010, m.a. með áherslu á þekkingarþjóðfélagið. Nefndin er þeirrar skoðunar að þessi markmið eigi að gilda fyrir allt Evrópska efnahagssvæðið og telur nauðsynlegt að EFTA EES ríkin geri sitt ítrasta til að svo verði. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að ríkin taki þátt í þeirri samanburðarvinnu (e. benchmarking) sem tengist markmiðum ESB eins og kostur er og þeirri von lýst að EFTA EES ríkin fái að vera með í samanburðarskýrslum ESB. Þá vill nefndin að EFTA EES ríkin setji sér skýrari markmið í þessu skyni og óskar aukins samráðs við nefndina af hálfu ríkisstjórnanna.

Stækkun EES
Í áliti nefndarinnar um stækkun EES er fjallað um fyrirhugaða stækkun ESB og áhrif hennar á EFTA EES ríkin. Nefndin kallar eftir aðlögun EES samningsins að sumum þeirra breytinga sem orðið hafa á Rómarsáttmála ESB frá gerð EES samningsins, og telur áríðandi að EFTA EES ríkin myndi sér sameiginlega stefnu í því skyni. Þá leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að tryggja sem bestan aðgang fyrir sjávarafurðir til ESB. Loks leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að kynna EES samninginn fyrir væntanlegum aðildarríkjum ESB.

Sjá álit nefndarinnar um tengsl EFTA við Lissabon-ferlið.

 

Sjá álit nefndarinnar um stækkun EES.

Samtök atvinnulífsins