Efnahagsmál - 

04. september 2003

Lifi samkeppnin (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lifi samkeppnin (1)

Loksins, loksins er að myndast almennur skilningur á þeirri brýnu nauðsyn sem er á endurskoðun samkeppnislaga. Þar hafa því miður valdið mestu þeir hnökrar sem upp hafa komið í samskiptum samkeppnisyfirvalda við lögreglu.

Loksins, loksins er að myndast almennur skilningur á þeirri brýnu nauðsyn sem er á endurskoðun samkeppnislaga. Þar hafa því miður valdið mestu þeir hnökrar sem upp hafa komið í samskiptum samkeppnisyfirvalda við lögreglu.

Ákæruvald og lögregla hafa samkvæmt því sem fram hefur komið, haft svipaða afstöðu til Samkeppnisstofnunar og t.d. embættis Skattrannsóknarstjóra, þótt ekki hafi verið við skýr ákvæði að styðjast í samkeppnislögum, því miður. Samkeppnisstofnun annist frumrannsókn, en vísi alvarlegustu brotum til lögreglu.

Nú liggur fyrir að treysti Samkeppnisstofnun sér ekki til að leggja mat á það hvort mál eigi erindi við lögreglu, verður lögreglan að gera það sjálf. Og þá dugir ekki að skoða skýrslu frá Samkeppnisstofnun, heldur verður lögreglan að rannsaka allt málið sjálfstætt frá grunni og skoða öll gögn uppá nýtt sem Samkeppnisstofnun hefur áður skoðað. Þetta hlýtur að leiða til endurskoðunar á lögum, því útilokað er að sætta sig við þá sóun á almannafé sem það hefði í för með sér að þessi tvíverknaður festist í sessi.

Það er fagnaðarefni að í þá endurskoðun verði ráðist en mikilvægt er að þá verði vandað betur til verka en síðast þegar atrenna var gerð að endurskoðun laganna.

Nauðsynleg umræða
Samtök atvinnulífsins hafa fyrir sitt leyti  lagt mikla vinnu í skýrslugerð og tillögur um hvernig bæta megi samkeppnislögin og gera þau skilvirkari. Rauður þráður í öllum þeim málflutningi er að tilgangur samkeppniseftirlits sé að vinna gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu og öðru ólögmætu atferli, en ekki að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og hamla gegn hagræðingu. SA hafa einnig gert athugasemdir við stjórnsýsluþátt samkeppnislaganna og við framkvæmd rannsóknaraðgerða Samkeppnisstofnunar. Hafa öll skrif samtakanna um samkeppnismál, ýmis viðtöl o.fl. nú verið gerð aðgengileg á einum stað á heimasíðu samtakanna.

Að sjálfsögðu verður Samkeppnisstofnun að hafa tæki til að sinna hlutverki sínu og húsleitir og fleiri rannsóknaraðgerðir geta verið nauðsynlegar. Það er hins vegar nauðsynlegt á þessu sviði ekki síður en öðrum að halda til haga sjónarmiðum um réttaröryggi og mannréttindi. Það á ekki að vísa slíkum umræðum á bug sem einhverju "leiðindakvabbi." Nýlega dæmdi Mannréttindadómstóll Evrópu íslenska ríkið til greiðslu skaðabóta til annars tveggja manna sem dæmdir voru af Hæstarétti fyrir aðild að manndrápi, vegna þess sem dómstóllinn taldi vera ágalla á málsmeðferð. Engum dettur í hug að halda því fram að þessi dómur Mannréttindadómstólsins veiki Hæstarétt eða íslenskt réttarfar, þvert á móti. Vinur er sá er til vamms segir. Er athyglisvert að skoða niðurstöðu danskrar réttaröryggisnefndar, sem sagt er frá í þessu fréttabréfi, með hliðsjón af þeim umræðum sem fram hafa farið um rannsóknaraðgerðir Samkeppnisstofnunar.

Ekki með öllu illt...
Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, segir máltækið. Á það ágætlega við um þá þjóðfélagsumræðu sem rannsóknir Samkeppnisstofnunar hafa hrint af stað. Má fullyrða að meðvitund fólks hafi mjög aukist um mikilvægi þess að ferskir vindar samkeppninnar fái að leika um sem allra flest svið samfélagsins. Að sumu leyti hefur þjóðfélagið sjálft, skipulag þess og fornir viðskiptahættir verið á sakamannabekknum í umræðunni.

Engum blöðum er um það að fletta að samkeppni hefur stóraukist í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum. Það gerist ekki fyrir atbeina neinnar einnar opinberrar stofnunar, heldur í kjölfar þess frelsis og opnunar sem leikið hefur um efnahagslífið. Í stað þess að tvær viðskiptablokkir hafi lang mest umsvif á hendi eru "klasarnir" nú margir sem hafa afl til að láta til sín taka í samkeppni sem krefst mikils fjármagns, og þeir geta breytt landslaginu eins og dæmin sanna. Þetta nýja baksvið segir meira um raunverulegt samkeppnisástand í þjóðfélaginu heldur en fjöldi fyrirtækja á hverjum tíma eða yfirborðskenndar upplýsingar um stjórnunar- og fjölskyldutengsl.

Margir sem ævinlega hafa talið nægjanlegt að eitt fyrirtæki í landinu, helst í eigu ríkisins, annist þjónustu á tilteknu sviði, tala nú um hættur af fákeppni. Batnandi mönnum er best að lifa. Taprekstur opinberra einokunarfyrirtækja er auðvitað engin trygging fyrir hagsmunum neytenda. Óhagkvæmni þeirra getur étið upp tekjur af of háum gjöldum. Hvað ef olíufélög kæmu með þá skýringu á hækkun bensínverðs að sala hefði dregist saman, líkt og opinbert einokunarfyrirtæki í orkugeiranum?

Bætum lífskjörin
Það eru mikil tækifæri til að bæta lífskjörin á Íslandi með því að ljúka upp fyrir samkeppni á sviðum þar sem hún er nú lítil eða engin. Má þar t.d. nefna landbúnaðarkerfið og heilbrigðiskerfið, og fleira sem fjallað er um í nýlegri skýrslu SA sem ber heitið Bætum lífskjörin!  Lifi samkeppnin.

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins