Vinnumarkaður - 

26. September 2018

Lífeyrissjóðir og launastefna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lífeyrissjóðir og launastefna

Bolli Héðinsson ritar pistil í Fréttablaðið þann 18.9. 2018 um kjaramál þar sem hann sakar Samtök atvinnulífsins um að bera ábyrgð á úlfúð í samfélaginu. Það byggir hann á því að fulltrúar SA skipi helming stjórnarsæta almennu lífeyrissjóðanna og gætu því stöðvað „höfrungahlaup gengdarlausra yfirborgana í fyrirtækjum sem lífeyrissjóðirnir eiga, sem eru flest stærri fyrirtækja á Íslandi“. Þá sakar hann SA um að hafa „ekki nýtt samtakamátt sinn til að standa gegn ofurlaunum“. Ásakanir Bolla Héðinssonar eru tilefnislausar og málflutningur hans byggir á vanþekkingu á skyldum og ábyrgð stjórnarmanna í lífeyrissjóðum og hlutafélögum.

Bolli Héðinsson ritar pistil í Fréttablaðið þann 18.9. 2018 um kjaramál þar sem hann sakar Samtök atvinnulífsins um að bera ábyrgð á úlfúð í samfélaginu. Það byggir hann á því að fulltrúar SA skipi helming stjórnarsæta almennu lífeyrissjóðanna og gætu því stöðvað „höfrungahlaup gengdarlausra yfirborgana í fyrirtækjum sem lífeyrissjóðirnir eiga, sem eru flest stærri fyrirtækja á Íslandi“. Þá sakar hann SA um að hafa „ekki nýtt samtakamátt sinn til að standa gegn ofurlaunum“. Ásakanir Bolla Héðinssonar eru tilefnislausar og málflutningur hans byggir á vanþekkingu á skyldum og ábyrgð stjórnarmanna í lífeyrissjóðum og hlutafélögum.

Laun og launaþróun stjórnenda sem annarra starfsstétta er mæld reglulega af Hagstofu Íslands. Niðurstaða launarannsókna Hagstofunnar er sú að laun stjórnenda hafi hækkað minna en annarra starfsstétta og svo hefur verið um langt árabil. Frá árslokum 2014 hefur launavísitala stjórnenda hækkað um 26% en annarra starfsstétta um 31-38%, mest hjá þeim lægst launuðu. Starfsstéttin stjórnendur er allstór hópur og hefur 16% vægi í vísitölunni.

Afstaða SA til kaupaukakerfa og afkomutengdra bónusa til æðstu stjórnenda er skýr. Þau skulu vera hófleg og í samræmi við íslenskan launaveruleika.

Fyrir nokkrum dögum birti Hagstofan tölur um árslaun eftir störfum. Þar kemur fram að regluleg heildarlaun forstjóra og aðalframkvæmdastjóra fyrirtækja hækkuðu um 23% milli áranna 2014 og 2017. Til samanburðar hækkuðu regluleg heildarlaun almennt um 25% en mest hækkuðu laun þjónustu-, sölu og afgreiðslufólks og iðnaðarmanna, um 29%. Óreglulegar greiðslur, sem endurspegla að mestu afkomutengd kaupaukakerfi forstjóra og aðalframkvæmdastjóra fyrirtækja á almennum markaði hækkuðu heildarlaun þeirra um 4,5% til viðbótar á þessu tímabili.

Þessar tölur sýna svart á hvítu að engin innistæða er fyrir staðhæfingum Bolla um að laun æðstu stjórnenda fyrirtækja á almennum markaði hafi hækkað meira en annarra og valdi „höfrungahlaupi yfirborgana“.

Megin gagnrýni Bolla felst í því að SA hafi ekki sagt stjórnarmönnum sem þau tilnefna í stjórnir lífeyrissjóða fyrir verkum og skipað þeim að hafa ákveðna afstöðu til kaupaukakerfa stjórnenda fyrirtækja sem að hluta eru í eigu lífeyrissjóða.

Bolli er ekki sá fyrsti sem fellur í þessa gryfju.

Um stjórnarmenn lífeyrissjóða og annarra fjármálafyrirtækja, gilda mörg lög (lög um lífeyrissjóði, lög um fjármálafyrirtæki, hlutafélagalög) og fyrirmæli frá Fjármálaeftirlitinu. Aðalatriðið í þessu samhengi er að stjórnarmenn lífeyrissjóða skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum og leggja hlutlægt mat á málefni lífeyrissjóðsins. Í samþykktum sjóðanna er skýrt tekið fram að stjórnarmenn skuli haga störfum sínum í einu og öllu með hagsmuni sjóðsins að leiðarljósi. Í þessu  felst að þeim er ekki heimilt að taka við tilskipunum frá tilnefningaraðilum þótt þeir starfi í umboði þeirra. Í tilnefningarbréfi SA til fulltrúa sem samtökin skipa í stjórnir lífeyrissjóða kemur m.a. fram að þeim beri að gæta hagsmuna lífeyrissjóðsins í hvívetna og í reglum SA um tilnefningar í stjórnir lífeyrissjóða segir m.a. að stjórnarmenn skuli í störfum sínum byggja á almennum sjónarmiðum og markaðri stefnu SA í lífeyrismálum.

SA hafa því ekki afskipti af því hvernig einstakir stjórnarmenn lífeyrissjóða beita sér í umræðum á stjórnarfundum sjóðanna um kaupaukakerfi fyrirtækja sem skráð eru á markaði. Á hinn bóginn ber þeim að byggja á almennum sjónarmiðum SA í lífeyrismálum og þar undir flokkast afstaða til starfskjarastefnu skráðra fyrirtækja.

Afstaða SA til kaupaukakerfa og afkomutengdra bónusa til æðstu stjórnenda er skýr. Þau skulu vera hófleg og í samræmi við íslenskan launaveruleika. Formaður SA tjáði þessa stefnu með afar skýrum hætti á ársfundi SA þann 16. apríl sl. Þar sagði hann: „En við í atvinnulífinu þurfum einnig að horfa í eigin barm. Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að fyrirtæki ... starfi í góðri sátt við umhverfi sitt og samfélag. Launakjör æðstu stjórnenda séu hófleg, innan skynsamlegra marka og ofbjóði ekki réttlætiskennd almennings. Sérstaklega er mikilvægt að fyrirtæki sem eru skráð á almennan hlutabréfamarkað móti starfskjarastefnu fyrir stjórnendur sína og setji launum og aukagreiðslum skynsamleg mörk sem samræmast íslenskum veruleika. Við vitum öll að umræða um mjög há laun stjórnenda hefur áhrif.“

Stjórnir lífeyrissjóðanna tilnefna fulltrúa í stjórnir hlutafélaga hafi þau til þess nægilegan atkvæðastyrk. Þeir skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum og ekki taka við fyrirmælum þeirra sem tilnefna þá, ekki frekar en þeir stjórnarmenn sem SA og verkalýðshreyfingin skipa í stjórnir lífeyrissjóða. Skylda þeirra er fyrst og fremst að standa vörð um hagsmuni fyrirtækisins sem þeim er falið að stjórna.

Á árum áður höfðu lífeyrissjóðirnir lítil afskipti af stjórnum hlutafélaga þar sem þeir áttu eignarhluti. Með vaxandi eignarhlut hafa sjóðirnir skilgreint sig sem virka fjárfesta og mótað hluthafastefnu gagnvart fyrirtækjum þar sem þeir eiga hlut, þ.m.t. stefnu um kaupaukakerfi æðstu stjórnenda, og beitt sér á hluthafafundum. Má þar t.d. nefna hluthafastefnur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Gildis-lífeyrissjóðs sem birtar eru á heimasíðum sjóðanna. Í stefnu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er lögð áhersla á að ef starfskjör stjórnenda eru árangurstengd í formi kaupauka skuli byggt á viðmiðum til lengri tíma, svo skammtímasjónarmið hafi ekki áhrif. Í hluthafastefnu Gildis-lífeyrissjóðs segir m.a. að við ákvörðun launa forstjóra telji sjóðurinn rétt að líta til innri þátta félags og launadreifingar innan þess. Sjóðurinn leggi áherslu á að ávallt liggi fyrir greinargóðar upplýsingar og rök fyrir starfskjörum stjórnenda og starfsmanna, m.a. árangurstengdum launagreiðslum s.s. kaupaukum, sem og kaupréttum og öðrum réttindum sem tengjast hlutabréfum félaga. Á heimasíðu Gildis er einnig að finna yfirlit yfir atkvæðagreiðslur og tillögur sjóðsins á aðalfundum skráðra hlutafélaga þar sem fram kemur að hann hafi í tveimur tilvikum greitt atkvæði gegn tillögum um starfskjarastefnu og lagt fram bókanir máli sínu til stuðnings. Þetta eru einmitt tilvikin sem mest hafa verið gagnrýnd á opinberum vettvangi.

Lengi vel höfðu lífeyrissjóðir almennt lítil afskipti af stjórnun þeirra fyrirtækja þar sem þeir áttu hlut  og létu öðrum eigendum eftir að annast stefnumótun félaganna. Fyrir liðlega fimm árum hófu sjóðirnir hins vegar virka þátttöku í stjórnum fyrirtækjanna, stefnumótun þeirra og launastefnu. Sjóðirnir telja mikilvægt að fyrirtækin sýni ábyrgð í rekstri og að þau starfi í sátt við umhverfi sitt og samfélagið. Í því felst meðal annars að kaup og kjör séu í takti við það sem gengur og gerist á vinnumarkaðnum og í samræmi við íslenskan veruleika.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. september 2018.

 

Samtök atvinnulífsins