Menntamál - 

30. Nóvember 2017

Leyndarmál norrænu háskólanna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Leyndarmál norrænu háskólanna

Íslenskir háskólar fá umtalsvert minna fjármagn á hvern nemanda frá hinu opinbera en háskólar á öðrum Norðurlöndum. Háskólarektorar og stúdentahreyfingar hafa lagt kapp á að þessu misræmi verði eytt með auknum fjárframlögum. Aukin og bætt menntun, m.a. í háskólum, er eitt besta tól hins opinbera til að viðhalda góðum lífskjörum og bæta þau til langs tíma. Menntakerfið getur veitt öllum jöfn tækifæri, óháð efnahag. Því er mikilvægt að háskólar séu vel fjármagnaðir og í stakk búnir að veita Íslendingum góða menntun sem stenst alþjóðlegan samanburð.

Íslenskir háskólar fá umtalsvert minna fjármagn á hvern nemanda frá hinu opinbera en háskólar á öðrum Norðurlöndum. Háskólarektorar og stúdentahreyfingar hafa lagt kapp á að þessu misræmi verði eytt með auknum fjárframlögum. Aukin og bætt menntun, m.a. í háskólum, er eitt besta tól hins opinbera til að viðhalda góðum lífskjörum og bæta þau til langs tíma. Menntakerfið getur veitt öllum jöfn tækifæri, óháð efnahag. Því er mikilvægt að háskólar séu vel fjármagnaðir og í stakk búnir að veita Íslendingum góða menntun sem stenst alþjóðlegan samanburð.

Ísland er sér á báti
Fjárframlög til háskóla hafa verið aukin hér á landi, fyrir utan niðurskurð árin eftir hrun. Nemendum hefur einnig fjölgað hratt. Vandinn er fólginn í því fjármagn til háskólanna ræðst fyrst og fremst af fjölda nemenda en fjármagn á hvern nemanda hefur ekki aukist. Fyrir vikið heldur norræni samanburðurinn um fjárframlög á hvern nemanda áfram að vera óhagstæður.

Hvers vegna tekst Íslendingum ekki að gera það, sem norrænir frændur okkar virðast fara svo létt með? Svarið er einfalt: Ísland er einstakt á Norðurlöndum og eitt örfárra Evrópulanda, sem stýrir ekki aðgangi að námi að háskólastigi. Þessu þarf að breyta ef íslenskt háskólanám á  að standast norrænan samanburð.

Frábær árangur hagfræðideildar HÍ
Til er gott dæmi hérlendis um hvernig aðgangsstýring getur virkað. Hagfræðideild HÍ glímdi árið 2011 við mjög mikið brottfall hjá nemendum sem hófu nám á fyrsta ári. Árin á undan höfðu yfirleitt um 70 - 100 nemendur innritast og það var algengt að um 15% af þeim sem innrituðust hæfu nám á næsta ári að ári liðnu. Það er slæm nýting á tíma nemenda og fjármagni háskólans að svo margir flosni upp úr námi. Hagfræðideildin brá því á það ráð árið 2012 að taka upp svokölluð A-próf, sem voru hlutlæg og almenn inntökupróf.

Áhrifa af upptöku aðgangsprófa hjá hagfræðideild HÍ gætti þegar í stað og nýnemum fækkaði úr 70-100 í um 30-45 á ári. Við fyrstu sýn mætti ætla að ákvörðun sem leiddi til þess að innrituðum nemendum fækkaði svo mikið hafi verið afleit, en við nánari skoðun kom í ljós að svo var ekki. Um árangur af prófunum sagði Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs HÍ í grein í Hjálmum, tímariti hagfræðinema í febrúar 2016: „…brottfall hefur minnkað mikið eftir innleiðingu aðgangsprófsins 2012 og ástundun og árangur batnað. Virkum nemendum hefur fjölgað úr innan við 40% í að jafnaði yfir 60%.“

Rangir hvatar eyðilögðu góðan árangur
Niðurstaðan var sú að þrátt fyrir að innrituðum nemendum hefði fækkað mikið fækkaði þeim ekki sem útskrifuðust. Með því batnaði nýting á tíma nemenda á sama tíma og dregið var úr sóun innan háskólakerfisins, auk þess sem starfsaðstæður kennara bötnuðu. Af niðurstöðum hagfræðideildar má því draga þann lærdóm að inntökupróf yrðu ekki til að fækka þeim sem útskrifast með háskólamenntun hér á landi.

Þrátt fyrir þennan góða árangur var tekin ákvörðun um að hætta við aðgangsstýringu í hagfræðideildina. Ástæðan var sú að fjármögnunarlíkan hins opinbera leiddi til þess að Háskólinn fékk minna fjármagn vegna færri innritaðra nemenda. Það má því segja að háskólarnir séu fastir í vítahring þar sem fjármögnunarlíkan hins opinbera vinnur gegn markmiðinu um hækkun fjárframlaga á hvern nemanda.

Nýr ráðherra þarf að taka af skarið
Markmið íslenskra háskóla um fjármögnun á hvern nemanda til jafns við norræna háskóla mun aldrei nást með því einu að auka fjárframlög. Jafnframt verður að koma til aðgangsstýring  í háskólanám að norrænni fyrirmynd, sem byggir á hlutlægum og málefnalegum grundvelli og takmarkar ekki jafnrétti til náms. Um þetta vitnar árangur hagfræðideildar HÍ. Það er þess vegna brýnt að fjármögnunarlíkan háskólanna verði endurskoðað hið fyrsta.

Spjótin beinast að næsta mennta- og menningarmálaráðherra sem þarf að sýna pólitíska forystu og losa háskólana úr vítahring fjármögnunarlíkansins. Með því getur ráðherrann allt í senn; komið til móts við háskólana um aukið fjármagn á hvern nemanda, bætt nýtingu á fé háskólanna og dregið úr kerfislægum vanda sem leiðir til sóunar á tíma nemenda. Markmiðið er að að bæta nýtingu fjármuna, tíma nemenda og kennara og draga úr sóun og aðstoða nemendur við að finna sér nám við hæfi.

Samtök atvinnulífsins