Efnahagsmál - 

26. September 2005

Leyfa á frjálsa för fólks nú þegar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Leyfa á frjálsa för fólks nú þegar

Þegar tíu ný ríki gerðust aðilar að ESB og EES 1. maí 2004 tóku flest fyrri aðildarríki upp tímabundnar takmarkanir á frjálsri för fólks frá flestum nýju aðildarríkjanna. Hér á Íslandi hafa gilt mun strangari reglur en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, sem setti engar takmarkanir. Ný skýrsla norrænu ráðherranefndarinnar sýnir að nýir EES-borgarar hafa komið til allra Norðurlandanna vegna atvinnu, langmest til Noregs, og alls staðar haft jákvæð áhrif á vinnumarkað og efnahagslíf. Strangar reglur hafa m.a. aukið eftirspurn eftir þjónustusamningum við fyrirtæki í nýju aðildarríkjunum.

Þegar tíu ný ríki gerðust aðilar að ESB og EES 1. maí 2004 tóku flest fyrri aðildarríki upp tímabundnar takmarkanir á frjálsri för fólks frá flestum nýju aðildarríkjanna. Hér á Íslandi hafa gilt mun strangari reglur en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, sem setti engar takmarkanir. Ný skýrsla norrænu ráðherranefndarinnar sýnir að nýir EES-borgarar hafa komið til allra Norðurlandanna vegna atvinnu, langmest til Noregs, og alls staðar haft jákvæð áhrif á vinnumarkað og efnahagslíf. Strangar reglur hafa m.a. aukið eftirspurn eftir þjónustusamningum við fyrirtæki í nýju aðildarríkjunum.


Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar sem unnin var af norsku FAFO stofnuninni, hefur reynslan hins vegar verið sú að þau ríki sem ekki komu á fót neinum slíkum takmörkunum hafa alls ekki fengið hlutfallslega fleira erlent starfsfólk frá hinum aðildarríkjum en reyndin hefur orðið í ríkjum sem komu á fót slíkum takmörkunum. Frá maí til desember 2004 voru þannig gefin út 4.000 slík atvinnuleyfi (til meira en þriggja mánaða) í Svíþjóð, en á sama tíma voru þau 20.500 í Noregi, 2.200 í Finnlandi og Danmörku og 600 á Íslandi. Þá kemur fram í skýrslunni að þótt um aukningu sé að ræða í öllum löndunum hafi ekkert þeirra fundið fyrir neikvæðum áhrifum hvað varðar jafnvægi á vinnumarkaði.


Ari Edwald segir í samtali við Morgunblaðið að það komi vel fram í skýrslunni að engin grundvallarbreyting eða holskefla hafi orðið með innkomu nýrra ríkja á evrópska vinnumarkaðinn, ekki frekar en fyrri reynsla af stækkuðum vinnumarkaði sýni. "Við erum með harðari reglur og takmarkaðri aðgang en norrænu ríkin að Finnlandi undanskildu, þó aðstæður á okkar vinnumarkaði séu þær að við höfum mesta þörf fyrir starfsfólk." Ari segist í viðtalinu telja að starfsmannaleigur geti átt rétt á sér og gegnt þýðingarmiklu hlutverki. "En ég held það sé augljóst að sú framkvæmd að ráða fólk til sín og hafa á launaskrá hjá sér liggi íslenskum fyrirtækjum miklu nær en að skipta við starfsmannaleigur. Ég tel það hafa verið neyðarbrauð sem of miklar takmarkanir hafi stuðlað að."

Skýrsla FAFO stofnunarinnar.


Samantekt skýrslunnar í íslenskri þýðingu.

Samtök atvinnulífsins