Vinnumarkaður - 

04. júlí 2002

Lengra skólaár ekki erfitt fyrir atvinnulífið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lengra skólaár ekki erfitt fyrir atvinnulífið

Í könnun Samtaka atvinnulífsins sem gerð var í júní voru fyrirtæki spurð um áhrif lengingar skólaársins á starfsmannahald þeirra. Spurningin var svohljóðandi: "Myndi lenging skólaársins um t.d. einn mánuð hafa veruleg áhrif á starfsmannahald fyrirtækisins?" Fjórðungur fyrirtækja játti því en þrír fjórðu sögðu svo ekki vera.

Í könnun Samtaka atvinnulífsins sem gerð var í júní voru fyrirtæki spurð um áhrif lengingar skólaársins á starfsmannahald þeirra. Spurningin var svohljóðandi: "Myndi lenging skólaársins um t.d. einn mánuð hafa veruleg áhrif á starfsmannahald fyrirtækisins?" Fjórðungur fyrirtækja játti því en þrír fjórðu sögðu svo ekki vera.


 


Helst vandi í ferðaþjónustunni
Ef horft er til einstakra greina kemur ekki á óvart að það er einkum innan ferðaþjónustunnar (SAF) sem lenging skólaársins myndi hafa áhrif, en um 56% fyrirtækja í ferðaþjónustu svöruðu spurningunni játandi. Samkvæmt fyrri athugunum SA væri lenging skólaársins í maí og júní þó miklum mun viðráðanlegri fyrir ferðaþjónustuna en lenging þess í ágúst.


(smellið á myndina)

Þá svarar tæpur þriðjungur fjármálafyrirtækja (SFF) því játandi að lenging skólaársins myndi hafa veruleg áhrif á starfsmannahald sitt, sem og rúmur fjórðungur fyrirtækja í verslun og þjónustu (SVÞ). Í öðrum greinum yrðu áhrifin minni, minnst meðal rafverktaka (SART), þar sem 9% fyrirtækja svara spurningunni játandi.

Frekar áhrif á landsbyggðinni
Loks virðist sem lenging skólaársins myndi frekar hafa áhrif á fyrirtæki á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Rúm 30% fyrirtækja með starfssvæði á landsbyggðinni svöruðu spurningunni játandi, en tæp 22% fyrirtækja með starfssvæði á höfuðborgarsvæðinu. Af fyrirtækjum með starfssvæði á landinu öllu svöruðu tæp 23% spurningunni játandi.

Rúmlega þrettán hundruð aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins fengu spurningar í netpósti. Svör bárust frá tæpum sex hundruð, eða rúmum 44%.

Samtök atvinnulífsins