Lausnir í kjaraviðræðunum 2015

Í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir á almennum vinnumarkaði hafa Samtök atvinnulífsins lagt fram hugmyndir til að leysa þær hörðu deilur sem nú standa yfir með sameiginlega hagsmuni fyrirtækja og launafólks að leiðarljósi. SA hafa til að mynda lýst vilja til að ræða sérstaka hækkun lægstu launa svo þau dugi betur til lágmarksframfærslu. Til að það sé mögulegt þarf að ná sátt um að sú hækkun verði ekki fyrirmynd að almennum launahækkunum. Svo unnt sé að ná slíkri sátt verður verkalýðshreyfingin að koma sameinuð að samningaborðinu en ekki sundruð líkt og nú.

Norræn fyrirmynd
Samtök atvinnulífsins hafa lagt til að farnar verði nýjar leiðir á vinnumarkaði, dagvinnulaun verði hækkuð sérstaklega umfram almennar samningsbundnar hækkanir en jafnframt verði álagsgreiðslur lækkaðar. Uppstokkun launakerfa gæti orðið farvegur til að koma til móts við kröfur um betri framfærslumöguleika dagvinnulauna og styttri vinnutíma án þess að raska verðstöðugleika líkt og tíðkast í nágrannalöndum Íslands. Þetta væru mjög jákvæðar breytingar fyrir bæði launafólk og atvinnulífið í heild sinni.

Ósamstæðar og óbilgjarnar kröfur
Þrátt fyrir þetta fjölgar kjaradeilum á borði ríkissáttasemjara og lýstu VR/LÍV og Flóabandalagið yfir árangursleysi viðræðna og hafa síðarnefndu félögin hafið undirbúning verkfalla. Við samningaborðið mæta Samtökum atvinnulífsins háar og óbilgjarnar kröfur um tugprósenta hækkanir launa á skömmum tíma sem myndu valda miklu efnahagslegu tjóni ef að þeim yrði gengið. Til dæmis hefur aðalhagfræðingur Seðlabankans bent á að stýrivextir hækki í 10% verði samið um 30% hækkun launa í þriggja ára samningi. Mat SA er að stýrivextirnir gætu orðið enn hærri, 12-14%, og uppsöfnuð verðbólga 27%. Með því að fara þessa leið væri þjóðfélaginu stýrt rakleitt í nýja niðursveiflu með fækkun starfa og almennum samdrætti fyrir utan stórkostlega hækkun verðtryggðra skulda fyrirtækja og heimila.

Á níunda áratugnum voru laun hækkuð að jafnaði um 40% á ári en árangurinn reyndist enginn. Laun voru tuttugufölduð en kaupmáttur jókst á tíu árum innan við 1%. Kröfur verkalýðsfélaga um tugprósenta launahækkanir, óðaverðbólgu og óstöðugleika eru kunnuglegar en áhrif þeirra yrðu nákvæmlega þau sömu og á níunda áratugnum. Á meðan verkalýðsforystan kemur ekki sameinuð til viðræðna er ljóst að það verður ekki hægt að semja. Í dag eru kröfugerðir verkalýðsfélaganna mjög misleitar og engin sameiginleg sýn um hvert skuli stefna.

Þolum ekki aðra kreppu
Íslendingar hafa ekki efni á annarri heimatilbúinni kreppu á örfáum árum og ljóst að samningsaðilar verða að taka höndum saman um að finna farsæla niðurstöðu í þeim kjarasamningum sem verða undirritaðir á árinu. Samtök atvinnulífsins vilja gera kaupmáttarsamninga en ekki verðbólgusamninga.