Efnahagsmál - 

02. október 2003

Launin aldrei hærra hlutfall verðmætasköpunarinnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Launin aldrei hærra hlutfall verðmætasköpunarinnar

Á síðasta ári námu launagreiðslur og tengd gjöld um 460 milljörðum króna samkvæmt Hagstofu Íslands. Á þessu ári gæti þessi tala orðið ríflega 480 milljarðar króna. Vergur rekstrarafgangur, þ.e. hlutur fyrirtækja og sjálfstætt starfandi einstaklinga, nam rúmum 200 milljörðum á síðasta ári og verður líklega um 210 á þessu ári. Um helmingi vergs rekstrarafgangs er varið til afskrifta, þ.e. framlaga til endurnýjunar fastafjármuna, en hinn helmingurinn er vaxtagreiðslur af lánsfé, hagnaður, laun sjálfstætt starfandi og tekjuskattur fyrirtækja. Laun og tengd gjöld, vergur rekstrarafgangur og óbeinir skattar og gjöld mynda saman verga landsframleiðslu, sem jafngildir verðmætasköpun þjóðarinnar ár hvert.

Á síðasta ári námu launagreiðslur og tengd gjöld um 460 milljörðum króna samkvæmt Hagstofu Íslands. Á þessu ári gæti þessi tala orðið ríflega 480 milljarðar króna.  Vergur rekstrarafgangur, þ.e. hlutur fyrirtækja og sjálfstætt starfandi einstaklinga, nam rúmum 200 milljörðum á síðasta ári og verður líklega um 210 á þessu ári. Um helmingi vergs rekstrarafgangs er varið til afskrifta, þ.e. framlaga til endurnýjunar fastafjármuna, en hinn helmingurinn er vaxtagreiðslur af lánsfé, hagnaður, laun sjálfstætt starfandi og tekjuskattur fyrirtækja. Laun og tengd gjöld, vergur rekstrarafgangur og óbeinir skattar og gjöld mynda saman verga landsframleiðslu, sem jafngildir verðmætasköpun þjóðarinnar ár hvert.

Hlutur launa í sögulegu hámarki
Frá árinu 1999 hefur skiptahluturinn milli launa og vergs hagnaðar verið um 70 til launanna og 30 til fyrirtækjanna. Svo hátt launahlutfall er einsdæmi frá upphafi þessara mælinga, með undantekningu frá árinu 1987, og hátt yfir sögulegum meðaltölum. Sé horft til tímabilsins frá 1990 þá er meðaltal launahlutfallsins 63% og meðaltalið frá 1973, þegar þessar mælingar hófust, er 64%. Eftir því sem næst verður komist er meðaltal launahlutfallsins í OECD-ríkjunum um 60%.

(Smellið á myndina)

Minni framlegð í atvinnulífinu
Launa- og gengisþróun undanfarinna ára hafa valdið þessari stórfelldu hækkun á hlut launa í verðmætasköpuninni. Launahlutfallið náði sögulegu hámarki árið 2000 þegar það komst upp í 70%, lækkun gengis krónunnar á árinu 2001 færði það niður í 68%, en með styrkingu krónunnar og áframhaldandi miklum launahækkunum stefnir hlutfallið enn á ný í 70% á þessu ári. Þessi hækkun launahlutfallsins hefur haft það í för með sér að framlegðin í atvinnulífinu hefur minnkað að sama skapi og þar af leiðandi er minna varið til endurnýjunar framleiðslutækja og til arðgjafar af fjármagni en áður.

Samtök atvinnulífsins