Efnahagsmál - 

02. desember 2020

Launavísitalan er ekki vísitala meðallauna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Launavísitalan er ekki vísitala meðallauna

Miklar hækkanir launavísitölunnar undanfarna 12 mánuði hafa verið í deiglunni. Ýmsum skýringum hefur verið varpað fram, m.a. að mældar launahækkanir séu tilkomnar vegna fækkunar starfa og aukins atvinnuleysis innan ákveðinna atvinnugreina.

Miklar hækkanir launavísitölunnar undanfarna 12 mánuði hafa verið í deiglunni. Ýmsum skýringum hefur verið varpað fram, m.a. að mældar launahækkanir séu tilkomnar vegna fækkunar starfa og aukins atvinnuleysis innan ákveðinna atvinnugreina.

SA birtu ítarlega samantekt á áhrifaþáttum hækkunar launavísitölunnar á vef sínum þar sem tilgreindar eru tvær meginskýringar. Annars vegar hækkar launavísitalan iðulega í september og október af árstíðabundnum ástæðum en að þessu sinni kom endurnýjun nokkurra kjarasamninga einnig inn í vísitöluna og innihéldu þeir afturvirkar launahækkanir. Hækkun vísitölunnar í október kom því í sjálfu sér ekki á óvart.

Þá hafa margir furðað sig á miklum launahækkunum á sama tíma og atvinnuleysi er í sögulegum hæðum og birtu SA annan pistil þar sem tæpt var á atriðum þessu tengdu.

Þrátt fyrir skýringar SA og fleiri birtast greinar sem byggja á þeim misskilningi að launavísitala Hagstofunnar reikni breytingar meðallauna. Staðreyndin er hins vegar sú að launavísitalan er byggð á svokölluðum pöruðum hækkunum einstaklinga, og meðaltal þeirra hlutfallshækkana eru vegnar saman með föstu vægi þeirra atvinnugreina þar sem einstaklingarnir starfa. Skýring hækkunar launavísitölunnar er því alls ekki sú að láglaunastörfum hafi fækkað.

Vísitala heildarlauna, sem Hagstofan reiknar einnig, er aftur á móti áætlun á grundvelli staðgreiðsluskyldra launa og áætlana um greiddar vinnustundir út frá launarannsókn stofnunarinnar. Hún er því mjög frábrugðin launavísitölunni sem byggir á launabreytingum reglulegra launa einstaklinga milli samliggjandi mánaða.

Samanburður á hækkun launavísitölunnar og vísitölu heildarlauna á almennum vinnumarkaði á 2. ársfjórðungi 2020 (nýjustu tölur) frá sama fjórðungi síðasta árs sýnir að vísitölurnar hækkuðu álíka mikið. Launavísitalan hækkaði um 6,5% og vísitala heildarlauna um 6,7%. Svipað var uppi á teningnum á 1. ársfjórðungi en þá hækkaði launavísitala almenns markaðar um 5,6% og vísitala heildarlauna um 5,2%. Þótt skýringar geti verði fjölmargar á mismunandi hækkunum þessara vísitalna þá gefa þær ekki til kynna að breytt samsetning launamanna hafi haft mikil áhrif á vísitölu heildarlauna.

Samtök atvinnulífsins