Launamunur kynjanna og ábyrgð á heimilunum

Þannig er yfirskrift eftirfarandi greinar Gústafs Adolfs Skúlasonar, forstöðumanns stefnumótunar- og samskiptasviðs SA, sem birt er í Morgunblaðinu í dag:

Í leiðara Morgunblaðsins fimmtudaginn 11. október sl. var vísað til fundar Jafnréttisráðs og því haldið fram að það bil sem mældist á launum kynjanna að teknu tilliti til vinnutíma, starfsaldurs o.fl. yrði ekki skýrt "með neinu öðru en því að vinnuveitendur meti störf og hæfileika kvenna minna en karla." Vandséð er hví svo ætti að vera. Í sama leiðara segir þó einnig að ef verkaskipting og ábyrgð á heimilunum verði jafnari hafi mikilvægri undirrót launamunarins verið eytt. Þarna er komið að kjarna málsins.

Mismunandi val kynjanna á menntun og störfum, vinnutími og starfsreynsla eru allt þættir sem hafa áhrif á launamun og hægt er að taka tillit til með vísindalegum hætti í rannsóknum á launamun kynjanna. Sem dæmi má nefna nýlega og ítarlega rannsókn sem samtök atvinnulífsins í Danmörku gerðu, í samstarfi við dönsku hagstofuna, þar sem allt að 80% af mældum launamun kynjanna voru skýrð með slíkum hlutlægum, mælanlegum þáttum. Rannsóknin náði til 400 þúsund manns á almennum vinnumarkaði í Danmörku og fjallað var um hana á fréttavef SA (sa.is) þann 4. október sl. Hérlendis hefur aldrei verið gerð jafn ítarleg rannsókn á hugsanlegum skýringum á mældum launamuni kynjanna, en hér á landi búa engir yfir jafn viðamiklum tölfræðilegum gögnum og þeim sem lágu til grundvallar þessari dönsku rannsókn. Þrátt fyrir gríðarlegt umfang og um margt athyglisverðar niðurstöður rannsóknarinnar var engu að síður einhver launamunur eftir óútskýrður. Þar eru á ferðinni áhrif persónubundinna og félagslegra þátta sem ekki verða lagðir til grundvallar í tölfræðilegum rannsóknum.

Það er ennþá félagslegur veruleiki að ábyrgðin á heimilunum hvílir víða í ríkari mæli á konum en körlum. Það eru aðstæður sem atvinnurekendur geta með engu móti borið ábyrgð á þrátt fyrir þá auknu áherslu sem lögð er á að gera starfsmönnum kleift að samræma starfsskyldur og fjölskylduábyrgð. Ef tveir starfsmenn eru jafn hæfir en annar býr við meiri sveigjanleika en hinn heima fyrir, og hefur þar með meiri möguleika til þess að leggja sig fram í þágu fyrirtækisins, má ætla að sá hinn sami sé fyrirtækinu verðmætari starfskraftur. Á meðan ábyrgð á heimilunum hvílir í meira mæli á konum en körlum má þess vegna ætla að karlarnir hafi betri tækifæri til að bera meira úr býtum. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist varðandi jafnrétti karla og kvenna er þetta enn félagslegur veruleiki sem atvinnurekendur geta lítil sem engin áhrif haft á.

Jafnari ábyrgð á heimilunum
Nýju lögin um fæðingar- og foreldraorlof munu vafalaust leggja grunn að því að karlar axli aukinn hluta fjölskylduábyrgðarinnar. Yngri menn hafa aukinn áhuga á því að verja meiri tíma með fjölskyldum sínum og axla aukna fjölskylduábyrgð. Fleira þarf þó að koma til. Nægjanlegt framboð á dagvistunarrými er t.d. forsenda fyrir atvinnuþátttöku flestra foreldra yngri barna. Það er því mikilvægur hlekkur í samhæfingu atvinnu- og fjölskyldulífs.

Það er mat SA að jafnari ábyrgð kynjanna á heimilunum muni jafna heildartekjur þeirra á vinnumarkaði. Sú afstaða samtakanna hefur ítrekað komið fram í ræðu og riti. Slík samfélagsþróun getur þó vart talist á ábyrgð einstakra atvinnurekenda. Þeir hafa engan hag af því að mismuna fólki eftir kyni eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum. Hagur fyrirtækjanna er einfaldlega sá að hafa sem best starfsfólk og umbuna því á grundvelli þeirra verðmæta sem það skilar fyrirtækjunum. Laun á almennum vinnumarkaði eru að mestu leyti ákvörðuð með frjálsum hætti á markaði. Sú verðmyndun sem þar á sér stað grundvallast á verðmæti vinnuframlags starfsfólksins, en ekki einhverjum öðrum annarlegum sjónarmiðum eins og oft er gefið í skyn í umræðu um launamun kynjanna.