Vinnumarkaður - 

23. desember 2004

Launakönnun KRN til Hagstofunnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Launakönnun KRN til Hagstofunnar

Kjararannsóknarnefnd og Hagstofa Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um launakannanir og aðrar vinnumarkaðs-rannsóknir. Markmið samningsins er að auka skilvirkni þannig að þekking og fjármunir sem veitt er til hagskýrslugerðar á sviði vinnumarkaðar nýtist sem best og að tölfræðilegar upplýsingar um laun, launakostnað og vinnutíma nái sem fyrst til allra helstu atvinnugreina og starfsgreina á vinnumarkaðnum. Frá og með 1. janúar 2005 verður launakönnun Kjararannsóknarnefndar framkvæmd af Hagstofu Íslands og hættir nefndin skrifstofurekstri frá þeim tíma.

Kjararannsóknarnefnd og Hagstofa Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um launakannanir og aðrar vinnumarkaðs-rannsóknir. Markmið samningsins er að auka skilvirkni þannig að þekking og fjármunir sem veitt er til hagskýrslugerðar á sviði vinnumarkaðar nýtist sem best og að tölfræðilegar upplýsingar um laun, launakostnað og vinnutíma nái sem fyrst til allra helstu atvinnugreina og starfsgreina á vinnumarkaðnum. Frá og með 1. janúar 2005 verður launakönnun Kjararannsóknarnefndar framkvæmd af Hagstofu Íslands og hættir nefndin skrifstofurekstri frá þeim tíma.

Kjararannsóknarnefnd er samstarfsvettvangur Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um launakannanir á samningssviði samtakanna. Nefndin hefur staðið að gerð launakannana á almennum vinnumarkaði frá árinu 1963. Kjararannsóknarnefnd mun starfa áfram sem verkkaupi og stefnumarkandi samstarfsvettvangur aðila vinnumarkaðarins gagnvart Hagstofu Íslands. Sérstök ráðgjafarnefnd sérfræðinga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins mun starfa með Hagstofunni. Ráðgjafanefndinni er ætlað það hlutverk að fylgjast með framkvæmd samningsins og vera Hagstofunni til ráðgjafar um gerð vinnumarkaðsrannsókna, einkum launakannana.

Í fréttatilkynningu lætur Kjararannsóknarnefnd í ljós þá ósk að aðilar sem standa að kjararannsóknum hjá opinberum aðilum á vinnumarkaði sigli í kjölfarið þannig að ná megi að fullu markmiðum um samræmingu launakannana á íslenskum vinnumarkaði.

Samtök atvinnulífsins