20. mars 2024

Launajafnrétti ekki náð þrátt fyrir góðan árangur

Jafnréttismál

Jafnréttismál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Launajafnrétti ekki náð þrátt fyrir góðan árangur

Árlegur Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna (CSW68) stendur yfir dagana 11.-22. mars 2024. Á fundinum í ár er lögð megináhersla á að hraða því að jafnrétti kynjanna náist sem og valdeflingu kvenna og stúlkna með því að taka á fátækt, efla stofnanir og fjárfestingar með kynjasjónarmið að leiðarljósi.

Fjölmargar leiðir í átt til árangurs

Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði SA, var fulltrúi Samtaka atvinnulífsins á fundinum og tók meðal annars sæti í pallborði, skipuðu sérfræðingum, á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar: „ The Nordic Blueprint: Overcoming Barriers and Paving the Way for a Gender-Equal Economy.“

Þar voru aðgerðir Norðurlandanna í þágu jafnréttis á vinnumarkaði ræddar til að mynda fæðingarorlofskerfi, dagvistun barna, brúun umönnunarbilsins, virði starfa, endurmat á virði kvennastarfa, kjarasamningar o.fl.

Í máli sínu lagði Maj-Britt áherslu á að þrátt fyrir góðan árangur í að jafna launamun kynjanna á undanförnum árum væri launajafnrétti ekki náð á íslenskum vinnumarkaði. „Aukið jafnrétti og aukin atvinnuþátttaka, ekki síst kvenna, stuðlar að auknum hagvexti og bættum lífskjörum,“ sagði Maj-Britt. Þá tók hún fram að ein helsta orsök þess að launajafnrétti hafi ekki verið náð væri kynskiptur vinnumarkaður.

Í framhaldinu ræddi hún um aðgerðir til að bregðast við þeirri stöðu og fór meðal annars yfir tilraunaverkefni á opinberum vinnumarkaði varðandi endurmat á virði kvennastarfa. „Mikilvægt er að laun fyrir störf í þeim stéttum, þar sem konur eru í meirihluta, séu metin í samræmi við virði þeirra starfa,“ sagði Maj-Britt.

Einnig nefndi hún kjarasamninga sem mögulegt verkfæri til að ná fram auknu launajafnrétti og nefndi hæfnigreiningu starfa í því samhengi.

„Í nýlega undirrituðum kjarasamningi verkafólks við SA voru kjör ræstingarfólks, sem eru að mestu unnin af konum, hækkuð sérstaklega vegna sérstakra vinnuaðstæðna hópsins. Fjölmargar aðrar leiðir eru vænlegar til árangurs, til dæmis brúun umönnunarbilsins, öruggt sálfélagslegt vinnuumhverfi og breytingar á skipulagi vinnumarkaðarins. Með því á ég við að stuðlað sé að auknum hlut dagvinnulauna í heildarlaunum sem hefur áhrif á mun heildarlauna karla og kvenna.“

Viðbrögð við fundinum voru mikil og gríðarlegur áhugi var á þeim verkfærum og lausnum sem Maj-Britt fór yfir.

Koma saman og hugsa í lausnum

Kvennanefndarfundur SÞ stendur að jafnaði yfir í tvær vikur og er vettvangur fyrir aðildarríki, stofnanir, félagasamtök og grasrótarhreyfingar til að koma saman, hugsa í lausnum, deila reynslu og aðferðum við að auka jafnrétti og styrkja stöðu kvenna og stúlkna í heiminum. Fundurinn er sá fjölsóttasti sinnar tegundar og kemur fólk hvaðanæva úr heiminum á hann, en hann er haldinn í höfuðstöðvum SÞ í New York.

Hér má horfa á upptöku af pallborðinu.

Samtök atvinnulífsins