Efnahagsmál - 

12. apríl 2006

Launahækkanir olía á verðbólgubálið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Launahækkanir olía á verðbólgubálið

Gengi krónunnar hefur lækkað ört undanfarið og hraðar en búist var við. Innflutningsfyrirtæki bregðast mörg hver strax við hækkun innflutningsverðs með hækkuðu vöruverði og markaðurinn tekur við verðhækkunum vegna mikils eftirspurnarþrýstings. Nýjasta verðbólgumæling Hagstofunnar staðfestir það, segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við fréttavefinn Mbl.is.

Gengi krónunnar hefur lækkað ört undanfarið og hraðar en búist var við. Innflutningsfyrirtæki bregðast mörg hver strax við hækkun innflutningsverðs með hækkuðu vöruverði og markaðurinn tekur við verðhækkunum vegna mikils eftirspurnarþrýstings. Nýjasta verðbólgumæling Hagstofunnar staðfestir það, segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við fréttavefinn Mbl.is.

"Væntingar um mikla verðbólgu eru hættulegar efnahagslífinu vegna þess að þær eru sjálfar til þess fallnar að stuðla að verðhækkunum og vaxandi verðbólgu. Það er almennt mjög erfitt að vinda ofan af slíkum væntingum og það á sérstaklega við um núverandi aðstæður í efnahagslífinu þar sem innstreymi fjármagns vegna stóriðjuframkvæmda er enn mikið og framkvæmdamet eru slegin í íbúðafjárfestingum," að sögn Hannesar.

"Það sem helst getur unnið gegn miklum verðbólguvæntingum er að um hægist á fasteignamarkaði, að það dragi úr lánveitingum til íbúðamarkaðarins og að hart verði stigið á bremsurnar í opinberum fjármálum, bæði ríkis og sveitarfélaga. Mikil framkvæmdaáform opinberra aðila á næsta ári verður því að endurskoða. Þá er það alveg ljóst að launahækkanir, hvort sem þær koma í kjölfar kjarasamninga, persónubundinna samninga eða ólöglegra verkfallsaðgerða á borð við setuverkföll virka sem olía á verðbólgubálið. Það er útilokað að ná verðbólgunni niður á svipað stig og í löndunum í kringum okkur, nema það hægi á launabreytingum á næstu misserum og að þær komist niður á svipað stig og í viðskiptalöndum okkar," segir Hannes.

Samtök atvinnulífsins