Vinnumarkaður - 

27. Mars 2014

Launabreytingar í nýjum kjarasamningum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Launabreytingar í nýjum kjarasamningum

Stéttarfélög sem undirrituðu kjarasamninga 20. og 21. febrúar sl. hafa öll, að Drífanda Vestmannaeyjum undanskildu, samþykkt samningana. Laun félagsmanna í þessum félögum hækka frá 1. febrúar 2014 auk þess sem greidd er eingreiðsla fyrir janúarmánuð.

Stéttarfélög sem undirrituðu kjarasamninga 20. og 21. febrúar sl. hafa öll, að Drífanda Vestmannaeyjum undanskildu, samþykkt  samningana. Laun félagsmanna í þessum félögum hækka frá 1. febrúar 2014 auk þess sem greidd er eingreiðsla fyrir janúarmánuð.

Laun hækka samkvæmt samningunum frá og með 1. febrúar sl. Um er að ræða sömu launabreytingu og tók gildi 1. janúar sl. hjá þeim stéttarfélögum sem samþykktu kjarasamningana frá 21. desember 2013. Laun hækka sem hér segir:

  • Almenn launahækkun er 2,8%.

  • Mánaðarlaun fyrir dagvinnu hækka að lágmarki um kr. 8.000. Það þýðir að mánaðarlaun undir kr. 285.714 hækka um kr. 8.000.

  • Kauptaxtar kjarasamninga undir kr. 230.000 fá sérstaka hækkun. Í kjarasamningum SGS og Flóabandalagsins jafngildir viðbótarhækkunin einum launaflokki, þ.e. eins og ef starfsheiti hefði hækkað um einn flokk. Viðbótarhækkunin er á bilinu kr. 1.600 - 2000. Við mat á því hvort viðbótarhækkun eigi við verður að bera taxta starfsmanns saman við nýja kauptaxta í kaupgjaldsskrá SA.

Eingreiðsla vegna janúarmánaðar
Í stað afturvirkni frá 1. janúar sl. var samið við febrúarfélögin um eingreiðslu fyrir janúarmánuð sem kemur nú til greiðslu.  Ef starfsmaður var í starfi í janúar og enn í starfi 1. febrúar þá greiðast kr. 14.600 fyrir fullt starf allan janúarmánuð en annars hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall.


Hækkun orlofs- og desemberuppbóta
Vegna tveggja mánaða lengingar samningstíma, þ.e. til 28. febrúar 2015, var samið við febrúarfélögin um viðbótarhækkun orlofs- og desemberuppbótar og hefur verið gengið frá samningum við flest önnur félög um sömu breytingar. Samtals hækkuðu uppbætur um kr. 30.000 umfram þá 2,8% hækkun sem samið hafði verið um í desember. Hjá verkamönnum og iðnaðarmönnum hækkaði orlofsuppbót aukalega um kr. 10.000 og fer í kr. 39.500 frá 1. maí 2014 og desemberuppbót 2014 hækkar um kr. 20.000 og fer í kr. 73.600. Uppbætur verslunarmanna, sem um árabil hafa verið með öðru sniði, eru nú eins og hjá öðrum hópum. Þannig hækkar orlofsuppbót verslunarmanna um kr. 17.300 og desemberuppbót um kr. 12.700.


Ef uppbætur hafa verið innifaldar í mánaðarlaunum þá getur viðbótin komið sérstaklega til greiðslu í júní og desember samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina eða komið inn sem kr. 2.500 heildarhækkun mánaðarlauna.

Undirritaðir samningar
Nálgast má undirritaða kjarasamninga á kjaramálasíðu SA.

Samtök atvinnulífsins