Vinnumarkaður - 

27. Nóvember 2009

Launabreytingar 1. nóvember 2009 og 1. júní 2010

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Launabreytingar 1. nóvember 2009 og 1. júní 2010

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði halda gildi sínu til nóvemberloka 2010. Það þýðir að umsamdar launabreytingar koma til framkvæmda frá 1. nóvember 2009 og 1. júní 2010. Í nóvember er annars vegar um að ræða 3,5% launaþróunartryggingu og hins vegar sérstaka hækkun lágmarkstaxta kjarasamninga. Þann 1. júní 2010 hækka laun um 2,5% en þá kemur einnig til sérstök hækkun lágmarkstaxta.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði halda gildi sínu til nóvemberloka 2010. Það þýðir að umsamdar launabreytingar koma til framkvæmda frá 1. nóvember 2009 og 1. júní 2010. Í nóvember er annars vegar um að ræða 3,5% launaþróunartryggingu og hins vegar sérstaka hækkun lágmarkstaxta kjarasamninga. Þann 1. júní 2010 hækka laun um 2,5% en þá kemur einnig til sérstök hækkun lágmarkstaxta.

Samkvæmt samkomulagi SA og ASÍ um framlengingu kjarasamninga þann 25. júní 2009 tók helmingur umsaminnar hækkunar lágmarkstaxta gildi 1. júlí 2009 en eftirstöðvar koma til framkvæmda 1. nóvember 2009. Launaþróunartryggingu var frestað til 1. nóvember.

Launabreytingar 1. nóvember 2009 er sem hér segir:

  • Lágmarkskauptaxtar verkafólks og afgreiðslufólks hækka um kr. 6.750

  • Lágmarkskauptaxtar iðnaðarmanna og skrifstofufólks hækka um kr. 8.750

  • Nýir lágmarkskauptaxtar eru í kaupgjaldsskrá SA nr. 12

  • Grunnhækkun launa er 3,5%. Frá þeirri hækkun dragast hækkanir starfsmanns frá og með 1. janúar 2009 til og með 1. nóvember 2009, þ.m.t. vegna hækkunar kauptaxta.

  • Laun í ákvæðisvinnu við ræstingar og einingaverð í ákvæðisvinnu iðnaðarmanna taka sérstakri hækkun.

Framangreindar hækkanir gilda aðallega um samninga landssambanda og -félaga ASÍ. Þær ná að sjálfsögðu ekki til samninga sem eru lausir, t.d. í flugi, blaðamanna, lyfjafræðinga og sjálfstæðra skóla. Ýmsir samningar kveða á um annað fyrirkomulag, s.s. samningar bankamanna, orkufyrirtækja og stóriðju.

Launabreytingar 1. júní 2010 eru sem hér segir:

  • Lágmarkskauptaxtar verkafólks og afgreiðslufólks hækka um kr. 6.500

  • Lágmarkskauptaxtar iðnaðarmanna og skrifstofufólks hækka um kr. 10.500

  • Almenn hækkun launa er 2,5%

  • Laun í ákvæðisvinnu við ræstingar taka sérstakri hækkun.

  • Aðrar reiknitölur í ákvæðisvinnu hækka um 2,5%, einnig í fiskvinnslu.

SA hafa þegar fengið margar fyrirspurnir um þessar launabreytingar en fyrirtækin hafa mörg hver ekki bolmagn til launahækkana. Ekkert fyrirtæki getur vikið sér undan hækkun lágmarkskauptaxta en telji fyrirtæki sér ekki fært að hækka laun 1. nóvember verður það annað hvort að leita eftir samkomulagi við starfsmenn um hvaða kjör skulu gilda frá og með 1. nóvember eða segja ráðningarkjörum upp með samningsbundnum uppsagnarfresti. Lögmenn SA hafa aðstoðað aðildarfyrirtækin við úrlausn þessara erfiðu mála.

Á vinnumarkaðsvef SA eru nánari upplýsingar um framkvæmd launabreytinga og breytingar á ráðningarsamningum.

Samtök atvinnulífsins