Laun stjórnenda hækkað minna en heildarlaun á vinnumarkaði frá 2006

Í nýrri samantekt Frjálsrar verslunar yfir tekjur stjórnenda á íslenskum vinnumarkaði kemur fram að laun þeirra hafi hækkað verulega á milli ára. Frjáls verslun segir laun æðstu stjórnenda 200 stærstu fyrirtækja landsins hafa hækkað um 13%. Þessar tölur eru nokkuð í takt við tölur Hagstofu Íslands yfir þróun launakjara stjórnenda á undanförnum árum. Þar má sjá að heildarlaun stjórnenda hækkuðu á milli áranna 2012 og 2013 sem nemur 14% að jafnaði. Í samantekt Frjálsrar verslunar kemur ennfremur fram að tekjur millistjórnenda hafi hækkað enn meira hlutfallslega.

Þegar litið er á launaþróun síðustu átta ára má sjá að heildarlaun stjórnenda hafa þróast með nokkuð svipuðum hætti og heildarlaun á almennum vinnumarkaði. Þannig hafa heildarlaun á almennum vinnumarkaði hækkað um 45,2% frá árinu 2006 en laun stjórnenda um 43,6%. Í kjölfar efnahagskreppunnar haustið 2008 lækkuðu stjórnendur umtalsvert í launum og vera kann að sú lækkun hafi verið að ganga til baka síðastliðið ár til samræmis við þróunina á vinnumarkaði í heild.

Þrátt fyrir þetta valda launahækkanir stjórnenda milli ára áhyggjum. Ljóst er að umtalsvert launaskrið hefur orðið og hækkanir sem þessar ríma afar illa við áherslur Samtaka atvinnulífsins um aukinn verðlagsstöðugleika og kaupmátt.  Stjórnendur íslenskra fyrirtækja verða að sýna gott fordæmi og undanskilja ekki sjálfa sig í þeim breytingum sem verið er að reyna að innleiða á íslenskum vinnumarkaði, þar sem launaþróun stuðlar að auknum kaupmætti á grundvelli stöðugs verðlags.