Vinnumarkaður - 

05. mars 2009

Laun lækkuð í sænskum iðnaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Laun lækkuð í sænskum iðnaði

Eftirspurn eftir sænskum iðnaðarvörum hefur dregist verulega saman. Til að koma í veg fyrir uppsagnir fólks hafa því samtök atvinnurekenda í Svíþjóð og verkalýðsfélög samið um allt að 20% tímabundna lækkun launa. Markmiðið er að standa vörð um störfin og gefa fyrirtækjunum sóknarfæri þegar ástandið batnar.

Eftirspurn eftir sænskum iðnaðarvörum hefur dregist verulega saman. Til að koma í veg fyrir uppsagnir fólks hafa því samtök atvinnurekenda í Svíþjóð og verkalýðsfélög samið um allt að 20% tímabundna lækkun launa. Markmiðið er að standa vörð um störfin og gefa fyrirtækjunum sóknarfæri þegar ástandið batnar.

Á vef sænsku samtaka atvinnulífsins (SN) eru fregnir af tveimur samningum við verkalýðsfélög um tímabundnar launalækkanir. Um er að ræða samkomulag milli samtaka atvinnurekenda og félags málmiðnaðarmanna (IF Metall) og samning fyrirtækisins Uddeholm Tooling í Hagfors og staðbundinna verkalýðsfélaga. Í samningi IF Metall og vinnuveitenda felst heimild heildarsamtakanna til staðbundinna félaga og einstakra fyrirtækja til þess að semja um allt að 20% launalækkun.

Samningur stjórnenda fyrirtækisins Uddeholm Tooling í Hagfors og fjögurra verkalýðsfélaga felur í sér að laun lækka um 10% hjá öllum starfsmönnum, þ.m.t. æðstu stjórnendum, en í stað þess verður engum sagt upp. Eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins hefur minnkað um 35% á undanförnum mánuðum og þessi leið er talin betur til þess fallin að mæta tekjufallinu en uppsagnir með greiðslu launa á uppsagnarfresti. Að auki telur fyrirtækið ekki vænlegt að missa hæfa starfsmenn sem þörf verður á þegar uppsveifla hefst á ný. Samningurinn er tímabundinn og gildir í fjóra mánuði. Ef ástandið batnar á þeim tíma fara launin í sitt fyrra horf en ef það versnar mun fyrirtækið geta gripið til uppsagna.

Sjá nánar á vef SN

Samtök atvinnulífsins