Vinnumarkaður - 

11. mars 2019

Látið reyna á lögmæti hluta aðgerða Eflingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Látið reyna á lögmæti hluta aðgerða Eflingar

Efling - stéttarfélag hefur kynnt tillögur að vinnustöðvunum á hótelum og hjá hópbifreiðafyrirtækjum sem hefjast skulu 18. mars nk. Samtök atvinnulífsins gera athugasemdir við tilhögun fyrirhugaðra verkfalla og munu bera lögmæti þeirra undir Félagsdóm.

Efling - stéttarfélag hefur kynnt tillögur að vinnustöðvunum á hótelum og hjá hópbifreiðafyrirtækjum sem hefjast skulu 18. mars nk. Samtök atvinnulífsins gera athugasemdir við tilhögun fyrirhugaðra verkfalla og munu bera lögmæti þeirra undir Félagsdóm.

Samtök atvinnulífsins efast um lögmæti svokallaðra örverkfalla og vinnutruflana sem Efling hefur skipulagt. Þar sem markmiðið er að fólk mæti til vinnu en sinni ekki tilteknum starfsskyldum. Dæmi um það er vinnustöðvun sem felur í sér að starfsmaður á hóteli þrífi ekki tiltekin svæði eða hópbifreiðastjóri skoði ekki farmiða farþega. Ekki verður skilið á milli aksturs og þess að hleypa farþegum inn í hópbifreið. 

SA telja jafnframt óheimilt að boða verkföll sem hafa í för með sér að félagsmaður gerist brotlegur við lög, t.d. umferðarlög. Dæmi um það er að bifreiðastjóri stöðvi bifreið kl. 16.00 eða dæli ekki eldsneyti á bifreið, sem getur haft í för með sér að bifreið stöðvist og leiði hugsanlega til ábyrgðar bifreiðastjóra. Sama á við ef bifreiðastjóri leggur ekki bifreið í stæði og stöðvar þannig umferð.

Einnig er lagt til af hálfu Eflingar að starfsmenn hliðri til reglubundnum störfum sínum eftir því sem þörf krefur til að þeim sé unnt að dreifa kynningarefni frá Eflingu. Það er ekki hlutverk stéttarfélaga að fela verkfallsmönnum verkefni á vinnudegi og önnur falli niður á sama tíma.

Samtök atvinnulífsins munu höfða mál fyrir Félagsdómi til að fá úr því skorið hvort boðuð verkföll séu lögleg. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Halldór Benjamín Þorbergsson, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að fyr­ir­hugaðar aðgerðir Eflingar gangi í raun gegn eðli verk­falla.

„Með þessu er Efl­ing að marka skörp og ill­verj­andi skil í þróun verk­falls­rétt­ar og beit­ing­ar hans. Það virðist vera sér­stakt keppikefli Efl­ing­ar að láta reyna á mörk lög­legra verk­falla og eðli­legt því að leita úr­sk­urðar Fé­lags­dóms."

Samtök atvinnulífsins