Langir samningar bera ávöxt
Á föstudaginn var, 28. febrúar, innsiglaði launanefnd heildarsamtakanna á vinnumarkaðnum að lengsta samningstímabil í samskiptasögu aðila vinnumarkaðarins er orðið staðreynd. Samningstíminn sem er tæp fjögur ár var háður þeim fyrirvara að verðbólga sem fór vaxandi við samningsgerðina vorið 2000 næðist niður á samningstímanum og yrði svipuð og meðal viðskiptaþjóða okkar. Þessi forsenda samninganna, sem jafnframt var markmið þeirra, skyldi athuguð af nefnd samningsaðila í febrúar ár hvert. Niðurstaðan nú lætur ekki mikið yfir sér en er eigi að síður mikilvæg þar sem hún staðfestir að markmiðin náðust. Þar er ólíku saman að jafna við umræðuna í kringum strikið rauða fyrir ári síðan.
Áhætta vinnuveitenda
Niðurstaðan nú er ekki síst mikilvæg í því ljósi að vinnuveitendur
tóku mikla áhættu með gerð þessara samninga. Áhættan fólst í því að
kostnaður samninganna féll að stærri hluta á fyrri hluta
tímabilsins en ávinningurinn fólst í hinum langa samningstíma og
byggði þar af leiðandi á því að forsendur stæðust. Ef þær
hefðu ekki staðist, og samningum hefði verið sagt upp í
fyrravor, þá hefðu vinnuveitendur staðið uppi með mikinn
kostnað en lítinn ávinning.
Ávinningur almennings
Enginn þarf að velkjast í vafa um að íslenskur almenningur hefur
notið ríkulega þess ávinnings sem samningsgerð þessi hefur leitt af
sér, sbr. umfjöllun um kaupmáttarþróun í þessu fréttabréfi. Þar er
ekki einungis um að ræða einhvern meðaltalsávinning, sem farið hafi
fram hjá þeim lakast settu, heldur hafa kjör þeirra sem minnst bera
úr býtum á vinnumarkaðnum batnað hlutfallslega mest. Það er
staðreynd sem ekki verður mótmælt að kaupmáttur lágmarkskauptaxta
hefur hækkað um 58% frá því í janúar 1995, líkt og fjallað
var um á
vef SA í janúar sl. Þá hefur kaupmáttur lægstu mánaðarlauna
hækkað um 65%. Þótt kaupmáttur atvinnuleysisbóta og bóta
almannatrygginga hafi ekki aukist eins mikið og lægstu launataxta
þá er kaupmáttaraukning þessara bóta einnig umtalsverð og nemur
tugum prósenta á þessu tímabili.
Blikur á lofti
Við samningsgerð á almennum vinnumarkaði undanfarinn áratug hafa
leiðarljósin verið stöðugleiki í efnahagslífi og styrk
samkeppnisstaða atvinnulífs. Menn hafa verið sammála um að bætt
kjör byggðust á því að skapa atvinnulífinu góð
vaxtarskilyrði. Nú eru ýmsar blikur á lofti.
Óhagstæð gengisþróun
Gengisþróun krónunnar hefur verið atvinnulífinu sérlega óhagfelld
undanfarna mánuði. Þá þróun má að mestu rekja til væntinga um áhrif
fyrirhugaðra 180 milljarða króna fjárfestinga á Austurlandi næstu
fimm árin. Gengishækkunin er svo mikil að hún elur af sér nýtt
ójafnvægi. Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað lýst stuðningi við
þær framkvæmdir. Samtökin hafa hins vegar, ásamt öðrum
hagsmunasamtökum, tekið þátt í umræðu um þessa nýju stöðu og reynt
að varpa ljósi á aðstæður í atvinnulífi við þessi skilyrði, sem eru
aðrar og verri en menn höfðu fyrirfram gert sér í hugarlund.
Talsmönnum atvinnulífsins hefur verið legið á hálsi fyrir að átta
sig ekki á nýju umhverfi við stjórn efnahagsmála og að
hafa gert kröfur til Seðlabanka Íslands sem hann rísi ekki
undir.
Ófullkomnar væntingar
Því fer að sjálfsögðu fjarri að talsmenn atvinnulífsins beri ekki
sama skynbragð og aðrir sem um þessi mál fjalla á það að gengi
krónunnar er ekki lengur ákveðið af Seðlabankanum heldur ákvarðast
á markaði. Hvað það er sem ákvarðar gengi gjaldmiðla liggur hins
vegar ekki eins skýrt fyrir en ljóst er að þar skipta væntingar um
það sem framundan er næstu misseri og ár mjög miklu. Það eru
einmitt ákveðnir þættir í þessari mynd sem menn hafa verið að
ræða. Það hefur t.d. verið ójafnvægi milli þess sem talist getur
skýrt og óskýrt í þeirri framtíðarmynd sem fjallað er um. Annars
vegar er svo til fullkomin vissa um að framkvæmdirnar muni eiga sér
stað, að þær muni valda þenslu í efnahagslífinu og að Seðlabankinn
muni sporna gegn henni með háum vöxtum, og hins vegar er afar óljós
mynd um raunverulega stærðargráður og tímasetningar fjárfestinganna
og eftirspurnaráhrif þeirra innanlands. Menn hafa gefið sér
að ákveðin hlutföll þessara fjárfestinga muni leiða til
eftirspurnaraukningar innanlands, en í ljósi þess að erlendir
aðalverktakar munu bæði stjórna byggingu virkjunar og álvers þá er
hinn innlendi þáttur mjög óljós og einmitt mjög háður því hvort
þensla verði mikil eða ekki á framkvæmdatímanum.
Ábyrgð stjórnvalda
Í þeirri mynd sem dregin hefur verið upp hafa menn gefið sér að
hagstjórn opinberra aðila muni bregðast og meginþungi
efnahagsstjórnar lenda á Seðlabankanum. Um þessa framtíðarsýn er
engin sátt í atvinnulífinu. Hún felur í sér að fjölda fyrirtækja í
alþjóðlegri samkeppni verði fórnað á altari hárra vaxta og hágengis
á framkvæmdatímanum. Menn hljóta að gera ráð fyrir því að sú
ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar rísi undir því
mikilvægasta verkefni sínu að jafna uppsveifluna með skynsamlegri
stjórn ríkisfjármála. Samdráttur í ríkisrekstrinum á
framkvæmdatímanum er mun sársaukaminni aðgerð en hávaxta- og
hágengisstefna með tilheyrandi ruðningsáhrifum. Í ljósi
umfangs sveitarfélaganna gerir atvinnulífið sömu kröfur til
þeirra og til ríkisvaldsins um aðhald að útgjöldum, bæði til
rekstrar og fjárfestinga, á framkvæmdatímanum.
Hannes G. Sigurðsson