Landsmenn borga reikninginn

Ef tekið er mið af nýjustu þjóðhagsspá Seðlabankans þá verður landsframleiðsla Íslands 105 milljörðum króna lægri við árslok 2013 en hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerði ráð fyrir í nóvember árið 2008, samkvæmt útreikningum Samtaka atvinnulífsins (SA).

"Landsmenn eru að borga reikninginn fyrir þessa ríkisstjórn, sem nýtir ekki þau tækifæri sem eru til staðar," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við Morgunblaðið. Vilhjálmur bendir á að sú upphæð sem þjóðarbúið verður af, sökum minni hagvaxtar en spáð hafði verið, nemi á þriðja hundrað milljarða króna á árunum 2011- 2013.

Í umfjöllun Morgunblaðsins 23. nóvember segir m.a:

Í fyrstu hagspá AGS um horfur í íslensku efnahagslífi eftir hrun bankakerfisins haustið

2008 spáði sjóðurinn að umtalsverður hagvöxtur gæti hafist árið 2011 - og myndi mælast 13,8% á árunum 2011-2013. Hagspá Seðlabankans fyrr í þessum mánuði gerir hins vegar aðeins ráð fyrir 7,9% hagvexti á sama tímabili.

Hugmyndafræðileg andstaða

Vilhjálmur segir skort á fjárfestingum í hagkerfinu helstu ástæðu þess að hagvaxtarhorfur séu umtalsvert verri um þessar mundir en vonir höfðu staðið til fyrir þremur árum.

"Ríkisstjórnin virðist vera að gera sitt besta til að koma í veg fyrir að hægt sé að ráðast í fjárfestingar og framkvæmdir í atvinnulífinu. Hugmyndafræðileg andstaða innan ríkisstjórnarflokkanna gagnvart uppbyggingu í stóriðju og sú óvissa sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir eru meginorsakir þess að efnahagsbati Íslands er jafn hægfara og raun ber vitni," að sögn Vilhjálms.