Vinnumarkaður - 

02. Janúar 2013

Lágmarkslaun hafa rúmlega tvöfaldast frá 2004

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lágmarkslaun hafa rúmlega tvöfaldast frá 2004

Í ársbyrjun 2004 voru umsamin lágmarkslaun 93.000 kr. á almennum vinnumarkaði (lágmarkstekjutrygging á mánuði fyrir fullt starf). Í kjarasamningum sem gerðir hafa verið síðan hafa lágmarkslaunin hækkað sérstaklega á hverju ári umfram almennar launahækkanir. Á árinu 2012 voru þau komin í 193.000 kr. og höfðu þannig rúmlega tvöfaldast á þessum átta árum.

Í ársbyrjun 2004 voru umsamin lágmarkslaun 93.000 kr. á almennum vinnumarkaði (lágmarkstekjutrygging á mánuði fyrir fullt starf). Í kjarasamningum sem gerðir hafa verið síðan hafa lágmarkslaunin hækkað sérstaklega á hverju ári umfram almennar launahækkanir. Á árinu 2012 voru þau komin í 193.000 kr. og höfðu þannig rúmlega tvöfaldast á þessum átta árum.

Frá ársbyrjun 2004 til ársloka 2012 hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 79% og kaupmáttur launa jókst um 2,4%. Lágmarkslaunin hækkuðu mun meira, eða um rúm 107%, og kaupmáttur þeirra jókst um tæplega 19%. Lágmarkslaunin eru þannig mun hærra hlutfall af greiddum launum en þau voru fyrir fáum árum.

Samkvæmt gildandi kjarasamningum eiga lágmarkslaunin að hækka í 204.000 kr. þann 1. febrúar eða um 5,7%. Kaupmáttur lágmarkslauna mun aukast um 2,0% á árinu sé miðað við síðustu verðbólguspá Seðlabankans þar sem spáð er 3,4% verðbólgu frá upphafi til loka ársins 2013. Kaupmáttur lágmarkslauna mun einnig aukast miðað við verðbólguspár annarra spáaðila sem gera ráð fyrir heldur meiri verðbólgu en Seðlabankinn.

Miðgildi reglulegra launa 1) á almennum vinnumarkaði var 337 þúsund kr. árið 2011 samkvæmt launakönnun Hagstofunnar. Lágmarkstekjutryggingin var 182 þúsund kr. það ár og þannig 54% af miðgildi reglulegra launa. Þetta hlutfall virðist nokkuð hátt í alþjóðlegum samanburði.

Efnahags- og þróunarstofnunin, OECD, birtir í ýmsum skýrslum og gagnagrunni sínum upplýsingar um hlutfall lágmarkslauna og miðgildis launa í þeim ríkjum þar sem lágmarkslaun eru lögbundin. Gögnin ná þannig ekki til þeirra ríkja þar sem vinnumarkaðurinn ákvarðar lágmarkskjörin, m.a. Norðurlandanna, þ.m.t. Íslands, og Þýskalands.

Niðurstaða OECD fyrir árið 2011 sést í meðfylgjandi súluriti. Samanburðurinn sýnir að hlutfallið er mjög hátt í Tyrklandi, 71%, en einnig telst það vera mjög hátt í Frakklandi, Nýja-Sjálandi, Slóveníu, Lettlandi og Portúgal þar sem það er um eða rétt undir 60%. Meðaltalshlutfallið í ríkjunum í súluritinu er 49% og hefur það verið nokkuð stöðugt undanfarin ár. Lægst er hlutfallið í Tékklandi, 35%, en þar fyrir ofan koma Bandaríkin og Japan með 38%.

Hlutfall lágmarkslauna af miðgildi launa á Íslandi er hærra en að meðaltali í OECD-ríkjanna með lögfest lágmarkslaun en dæmi er um nokkur lönd þar sem hlutfallið er allmiklu hærra.

Smelltu á myndina til að stækka!

________________________

 1) Regluleg laun eru greidd mánaðarlaun fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Í þessum launum eru hvers konar álags-, bónus- og kostnaðargreiðslur, svo sem föst yfirvinna, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili.  Í reglulegum launum eru ekki greiðslur vegna yfirvinnu.

Samtök atvinnulífsins