Menntamál - 

04. febrúar 2020

Lærum af letingjunum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lærum af letingjunum

„Það er skynsamlegast að láta lötustu mennina vinna erfiðustu verkin,“ sagði afi við mig einhverju sinni þegar við vorum að keyra út póstinn í sveitinni. Þegar ég leitaði eftir frekari skýringu á þessu benti hann á að þeir væru líklegastir til að þróa einföldustu leiðina til að létta sér lífið.

„Það er skynsamlegast að láta lötustu mennina vinna erfiðustu verkin,“ sagði afi við mig einhverju sinni þegar við vorum að keyra út póstinn í sveitinni. Þegar ég leitaði eftir frekari skýringu á þessu benti hann á að þeir væru líklegastir til að þróa einföldustu leiðina til að létta sér lífið.

Getur verið að dugnaður og áhersla á vinnusemi og afköst leiði til þess að við komum ekki auga á tækifæri til að þróa hluti og betrumbæta?  Kann að vera að góð staða standi í vegi fyrir því að við verðum framúrskarandi, af því að hlutirnir eru nógu góðir eins og er? Getur verið að óleyst vandamál séu helsti hvati sköpunar?

Á Menntadegi atvinnulífsins sem verður haldinn í Hörpu miðvikudaginn 5. febrúar er áhersla lögð á sköpun í íslensku samfélagi með sérstaka áherslu á atvinnulíf og menntakerfi.

Skapandi hugsun eða skapandi nálgun er súrefni þróunar og framfara. Við megum ekki afgreiða sköpun sem einkamál t.d. þróunardeilda í fyrirtækjum og þeirra sem kenna handverk og listir í skólum. Sköpun er undirstöðufærni til framtíðar. Færni sem sker úr um hvernig við tökumst á við stærstu áskoranir og felast meðal annars í tækniþróun og aukinni umhverfisvitund, sjálfbærni og ábyrgri afstöðu til auðlinda. Það góða er að sköpun er færni en ekki meðfæddur eiginleiki örfárra útvaldra. Færni sem þarf að þjálfa og styðja með öllum mögulegum ráðum bæði í skólum og á vinnustöðum. Það er ákvörðun að gera sköpun markvisst hærra undir höfði..

Sköpunin er ekki aðeins nauðsynleg afurðanna vegna, enda sjáum við ávinning hennar víða. Afurðir sköpunar geta verið aðrar en nýjar vörur, nýtt ljós, listaverk eða umbúðir. Þær geta birst í nýjum starfsháttum og vinnuferli eða algjörlega nýrri hugsun um skólana okkar. Það er samfélaginu nauðsynlegt að við tileinkum okkur sköpun í daglegu lífi. Það er gert til að samfélagið þróist fram á við og jafnan sé leitað betri lausna en þær sem fyrir eru. Það er það sem þarf.

Á Menntadegi atvinnulífsins sem verður haldinn í Hörpu miðvikudaginn 5. febrúar er áhersla lögð á sköpun í íslensku samfélagi með sérstaka áherslu á atvinnulíf og menntakerfi. Almenn hvatning, miðlun og upplýsing um mikilvægi sköpunar, umhverfið sem hún þrífst best í, leikreglur og viðhorf. Eitthvað fyrir alla, enda þurfum við öll á brýningu að halda þegar að þessu mikilvæga viðfangsefni kemur.

Sköpun er okkar verðmætasta verkfæri til að mæta framtíðinni. Hún er líka mikilvæg til að leysa vandamál eða létta okkur lífið í daglegum störfum. Ólíkt því sem Mikki refur hélt fram í ævintýrinu góða, þá er afi minn ekki rugludallur.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. febrúar 2020.

Tengt efni:

Menntadagur atvinnulífsins 2020 - tryggðu þér sæti!

Samtök atvinnulífsins