Menntamál - 

13. Desember 2012

Lært í vinnunni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lært í vinnunni

"Nemendur sem hætta í framhaldsskóla detta ekki við það niður í eitthvert gap. Þeir fara langflestir í störf þar sem þeir hljóta óformlega menntun og þjálfun. Oft er ekki í boði að mennta sig til þeirra starfa í formlega skólakerfinu. Þessi sýn, sem kom fram á ársfundi Fræðslumiðstöðvarinnar 2012, er mjög umhugsunarverð ekki síst í ljósi mats á raunfærni tæknimanna í rafiðnaði sem þar var líka sagt frá." Þetta segir Guðrún S. Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá SA og varaformaður stjórnar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í nýrri grein á vef SA.

"Nemendur sem hætta í framhaldsskóla detta ekki við það niður í eitthvert gap. Þeir fara langflestir í störf þar sem þeir hljóta óformlega menntun og þjálfun. Oft er ekki í boði að mennta sig til þeirra starfa í formlega skólakerfinu. Þessi sýn, sem kom fram á ársfundi Fræðslumiðstöðvarinnar 2012, er mjög umhugsunarverð  ekki síst í ljósi mats á raunfærni tæknimanna í rafiðnaði sem þar var líka sagt frá." Þetta segir Guðrún S. Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá SA og varaformaður stjórnar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í nýrri grein á vef SA.

Starfsreynsla er mikilvæg

"Starfsmenntun sem nýtur ekki viðurkenningar formlega menntakerfisins mælist ekki í tölfræði sem skiptir á menntunarstig eftir skipulagi sama kerfis. Viðurkenning á námi sem aflað er óformlega er samt oft sjáanleg í launum. Reynsla er það sem stjórnendur líta fyrst til þegar ráðinn er nýr starfsmaður, best er að fá vana lyftaramenn, stjórnendur, háseta, kennara. Þegar við hugsum um menntamál eigum við alltaf að minna okkur á að vinnustaðurinn er námsstaður. Stærstur hluti hvers starfs lærist í vinnunni alveg óháð því hvaða menntunar er krafist til starfans, sagði starfsmannastjóri í finnskum banka, það sama á við um ræstingafólkið, þjónustufulltrúana og bankastjórnina.

Fólk njóti sín

Atvinnulífið styður markmið um að auka menntunarstig hér á landi. En tölur úr formlega kerfinu einu sem vísbending um menntunarstig mega ekki byrgja okkur sýn á það sem öllu skiptir, að efla menntun sem hvetur til framsækni og nýsköpunar, menntun sem veitir fólki tækifæri til að nýta hæfileika sína.

Það er vissulega vísbending sem ber að taka mjög alvarlega ef þriðjungi hvers árgangs býðst ekki formleg menntun í skóla sem þeir telja við sitt hæfi og hætti námi. Það er vísbending um að það þurfi að búa til nýtt nám, breyta því námi sem í boði er. Við verðum að finna leiðir til að draga úr brotthvarfinu. Við megum ekki láta nægja að skoða það í menntasamfélaginu eða binda það við menntastofnanir hversu góðar sem þær eru. Sjónarhornið þarf að vera víðara, m.a. eigum við eigum  að skoða margs konar formlaust og óformlegt nám, setja um það ramma og viðurkenna það í menntakerfinu. Viðurkenning hefur mikið hvatningargildi fyrir einstaklinga, er staðfesting sem atvinnulífið getur notað og sýnir réttari stöðu menntunar í landinu. Einnig er mikilvægt að hægt sé að bæta við sig námi í framhaldinu, einnig þess vegna þarf formlega staðfestingu.

Nám við hæfi
Við eigum mörg verkfæri til þessara verka og það er víða verið að vinna öflugt starf í menntamálum. Við eigum menntakerfi sem getur tekið nauðsynlegum breytingum, ef allir leggjast á eitt. Þær breytingar eiga að hafa að meginmarkmiði að skila fólki í áföngum út úr námi á framhaldsskólastigi og að námið sé þannig uppbyggt að ekki séu í því blindgötur. Vilji til nauðsynlegra breytinga á formlega kerfinu kemur skýrt fram í nýrri skýrslu um að allir stundi nám og vinnu við hæfi. Þar er rætt m.a. um styttingu náms, aukið og breytt framboð starfsnáms og nauðsyn nýsköpunar, verk og tæknimenntar.

Öflugt starf fyrirtækja
Fyrirtæki eru mörg með öflugt menntastarf fyrir sitt fólk. Stór fyrirtæki eru með skóla, ítarlegt nám á viðkomandi sviði sem gefur einingar á framhaldsskólastigi. Önnur fá með tilstyrk starfsmenntasjóða Fræðslustjóra að láni sem skipuleggur kennslu í fyrirtækinu. Þá geta fyrirtæki fengið styrki til að halda námsskeið fyrir sitt fólk, sum fjármagna menntun í fyrirtækinu alfarið sjálf.  

Færnikröfur starfa, þrepaskipt nám

Þeir sem ráða fólk til vinnu vita hvaða færni þeir sækjast eftir. Nytsamlegt væri að setja skipulega niður fyrir okkur færnikröfur starfa. Hvað þurfi að kunna til að geta sinnt tilteknu starfi. Í nýju stórverkefni Fræðslumiðstöðvarinnar sem fengið hefur myndarlegan styrk frá ESB er þetta einn þáttur og þar verður líka sýnt hvar er hægt að afla sér viðbótarmenntunar  ef eitthvað vantar upp á færni til starfs.

Það skiptir miklu að þrepaskipta öllu námi og horfa til þess hver útkoman eigi að vera, óháð því hvar og hvernig  eða á hvað löngum tíma nám fer fram. Það eykur gagnsæi, hvetur til raunfærnimats og gefur betra færi á að brjóta nám til tiltekinna námsloka upp í smærri einingar.

Raunfærnimat er fantafínt verkfæri

Tæplega 1200 manns hafa tekið þátt í svokölluðu raunfærnimati. Þá er metin færni við það sem námskrá framhaldsskóla segir að menn eigi að kunna að loknu formlegu námi í tiltekinni grein. Raunfærnimat hefur einkum boðist í iðngreinum. Hóparnir  sem í það hafa farið stóðust mat á þekkingu í viðkomandi greinum upp á rúmlega 32.000 einingar á framhaldsskólastigi eða um 28 á mann að meðaltali. Verkefni Fræðslumiðstöðvarinnar sem fyrr er nefnt miðar að því að meta raunfærni miðað við kröfur í 40 námskrám framhaldsskóla til viðbótar við það sem búið er að gera. Raunfærnimat hvetur fólk til að ljúka námi, styttir námstímann og sparar það fé sem hefði farið í að kenna fólki það sem það kann fyrir.

Raunfærnimat til starfa

Rúmlega 200 manns hafa tekið þátt í fá raunfærni sína til starfa metna á móti viðmiðum sem sett voru í viðkomandi grein atvinnulífsins. Elsta verkefnið tekur til þjónustufulltrúa í bönkum, það nýjasta tekur til hljóðmanna. Hluti af raunfærnimatsverkefni FA á að undirbúa og meta raunfærni til starfa. Svona mat metur ekki færni til eininga eða inn í nám heldur staðfestir hvers er krafist í tilteknu starfi  og hverjir standast þær kröfur.

Nýlega var raunfærni 50 hljóðmanna í félagi tæknifólks í rafiðnaði metin.  Þarna er dæmi um óformlega menntun sem menn afla sér í vinnu. Félagið telur 1100 manns sem vinna á fjölmiðlum, í leikhúsum, tölvuleikjaiðnaði, tækjaleigum, í hönnunar og sölustörfum ýmiskonar, grafík-vinnslu, auglýsingastofum, hljóðupptökuverum, kvikmyndaiðnaði og í tölvudeildum fyrirtækja. Þau eru útsendingarstjórar, myndatökumenn, ljósamenn, hljóðmenn, sviðsmenn, kerfisstjórar, 3D grafíkerar, hönnuðir, ráðgjafar. Margir félagsmenn höfðu ekki lokið námi á framhaldsskólastigi og voru hljóðmenn stærsti hópurinn. Þeir komu þeir afar vel út úr raunfærnimati. En hvað með framhaldið? Jakob Tryggvason formaður félagsins segir:

" Við höfum enn ekki neina leið til að fá formlega staðfestingu á því að raunfærnimat byggt á færniviðmiðum þróuðum af atvinnulífinu sé í raun á því þrepi sem við teljum að það sé. Þegar sú staðfesting kemur þá er ekki víst að það dugi til að "nemandinn" sé tækur inn í skólakerfið, með niðurstöðu raunfærnimats að fullu metna honum til tekna.

Þó við náum að þróa raunfærnimat fyrir stærstu hópana innan FTR þá er ekki nema hálfur sigur unninn. Mikið af mjög sérhæfðum starfsmönnum sem í raun lenda í botnlanga gagnvart menntakerfinu fyrir það að hella sér út í samsett nám, sjálfsnám, þjálfun hjá erlendum aðilum og fleira.

Hver hópur er of lítill til að það séu líkur á að einhver námsleið eða matsferli verði þróað fyrir þá. Öll þekkingaröflun þyrfti að geta verið hluti af heildstæðri námsframvindu. Samsett, persónubundin námsleið fyrir þá sem velja að sérhæfa sig svona væri óskastaðan"

Lokaorð

Það getur verið erfitt að hugsa menntakerfi landsmanna án þess að setja samasemmerki milli þess og skólakerfisins. Samfélagið vill að  út úr menntakerfinu komi hæft fólk til fjölbreyttra starfa. Góður aðgangur að vel menntuðu fólki ýtir undir þróun vinnumarkaðarins, samkeppnishæfni og að ný og betri störf verði til.  Allir einstaklingar þurfa að eiga þess kost að þróa sig í störfum eða færa sig um set. Stundum felur það í sér að afla sér viðbótarfærni eftir óformlegum leiðum og reynslu, stundum að geta farið í skóla í sama skyni. Báðar leiðirnar eru færar flestum sem hafa lokið framhaldsskóla en það hefur vantað góða tengingu á milli þeirra fyrir þá sem hættu námi og fóru snemma út á vinnumarkaðinn. 

Fólk þarf að eiga kost á formlegri viðurkenningu á óformlegu námi og færni sem aflað er á vinnustað. Slík viðurkenning myndi hefur gildi fyrir einstaklinginn,  greiðir honum leið inn í frekara nám ef hugur stefnir til þess, og ef svo er ekki, eflir sjálfstraust til símenntunar í starfi.  Hér er því ekki verið að tala um afslátt á því að fólk hafi þá færni sem störf sem þeir óska sér krefjast, heldur að metið sé og viðurkennt í menntakerfinu, eins og í fyrirtækjum, það sem fólk hefur lært í vinnunni, með vinnunni. Hér að ofan er vitnað til  hugmynda um að til geti orðið sérhæfðar samsettar persónubundnar  námsleiðir, án þess að fólk læri í skóla og sem ekki er menntunar-botnlangi.  Það verður ekki auðvelt að hleypa slíkum hugmyndum í framkvæmd en það þýðir ekki að það ætti ekki að reyna."

Guðrún S. Eyjólfsdóttir

Samtök atvinnulífsins