Lækkun ríkisútgjalda nauðsynleg

Samtök atvinnulífsins kynntu í morgun rit um nauðsynlegar umbætur í fjármálum hins opinbera. Þar er fjallað um markmið og leiðir við fjárlagagerð ríkisins fyrir árið 2011 og hvernig unnt er að ná því að ríkissjóður verði rekinn án halla árið 2013 og fari síðan að greiða niður skuldir.

Ríkissjóður tók á sig miklar skuldir vegna hruns bankanna og hár vaxtareikningur kemur til gjalda ár eftir ár. Ennfremur bætist hallarekstur áranna 2009, 2010, 2011 við vaxtareikninginn og áfram þar til rekstur ríkissjóðs kemst í jafnvægi. Ekki verður hjá því komist að horfast í augu við þetta því annars hækkar reikningurinn og sífellt stærri hluti skattteknanna fer til að greiða vexti.

Þess vegna hafa skattahækkanir og lækkun útgjalda verið nauðsynlegar. Í riti SA er dregið fram að skattar hafi hækkað um nálægt 70 milljarða króna frá miðju ári 2009 en útgjöld ekki verið lækkuð að sama skapi. Við fjárlagagerðina fyrir árið 2011 hlýtur áherslan því fyrst og fremst að vera lögð á lækkun útgjalda. Við áætlanagerð fyrir árin 2012 og 2013 þarf enn frekar að taka á ríkisfjármálunum en umfang aðgerða ræðst mjög af því hvernig tekst til við að efla atvinnulíf og auka tekjur landsmanna.

Agaleysi við fjármálastjórn hefur löngum verið vandamál hjá ríkinu. Þetta sýna tölur um framúrkeyrslu stofnana og hversu stór hluti ríkisútgjalda hefur verið ákveðinn með fjáraukalögum. Fyrsta skrefið til þess að bæta fjármálastjórnina er að auka agann við fjárlagagerðina og eftirfylgni með því að áætlunum sé fylgt. Þetta hefur verið að lagast að sögn fjármálaráðherra og almennt hefur virðing fyrir fjárlögum aukist meðal stofnana ríkisins. Ennfremur þarf að taka upp skipulega fjárlagagerð til a.m.k. fjögurra ára þannig að ákvarðanir um útgjöld og tekjur séu settar í stærra samhengi en fjárlög næsta árs.

OECD hefur áætlað að lækka megi kostnað í heilbrigðiskerfinu um 30%-40%. Þessu megi ná með því að sinna þörfum fólks á ódýrari viðkomustöðum en nú er gert, efla heilsugæslu og tengja hana við sérfræðiþjónustu markvissar en nú er gert. Skilgreina þarf og afmarka hlutverk Landspítalans betur. Þá þarf að auka svigrúm fyrir einkaaðila til að veita heilbrigðisþjónustu og ná fram virkari samkeppni á þessu sviði. Ríkið ætti að kaupa alla heilbrigðisþjónustu í gegnum sjúkratryggingar.

Svipað ástand er uppi í menntakerfinu að mati OECD. Þar er eytt allt of miklum fjármunum með of litlum árangri. Stúdentar eru útskrifaðir einu til tveimur árum síðar en í nágrannalöndunum. Ná má meiru út úr grunnskólanum og framhaldsskólanum. Skipuleggja þarf nám í framhaldsskóla til stúdentsprófs sem þriggja ára nám. Allir háskólar ættu að verða sjálfseignarstofnanir og samræma ætti innritunargjöld og skólagjöld milli þeirra.

Í félagslega tryggingakerfinu þarf að horfast í augu við að lífeyrisbyrði fer sífellt vaxandi vegna lengri meðalævi. Samtök atvinnulífsins vilja hefja umræðu um að hækka viðmiðunaraldur vegna lífeyristöku úr 67 í 68 ár. Ennfremur telja SA skynsamlegt að viðmiðunaraldur vegna lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna, sem er 65 ár, verði samræmdur því sem gildir um almenna lífeyrissjóði og almannatryggingar. Fyrirsjáanlegar breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar, þar sem fólk á vinnualdri verður aðeins tvöfalt fleira en fólk á lífeyrisaldri, sýna að allar breytingar á skattlagningu lífeyrissparnaðar, sem fela í sér að iðgjöld verði skattlögð en útgreiðslur skattfrjálsar, eru fráleitar.

Margt virðist benda til þess að ýmislegt gangi betur í efnahagslífinu heldur en svartsýnar spár t.d. Seðlabanka og Hagstofu gefa til kynna. Þannig má allt eins reikna með því að einhver hagvöxtur verði í ár, sérstaklega ef ferðaþjónustan nær sér vel á strik eftir eldgosið. Það þarf heldur ekki mikið að koma til svo að verulegur hagvöxtur, jafnvel á bilinu 4%-5%, verði á næsta ári en framgangur stórra fjárfestingarverkefna í atvinnulífinu og samgöngum skipta þar miklu.

Því þarf að nýta meðbyrinn skynsamlega og ná markmiðum um 32 milljarða útgjaldalækkun sem fjármálaráðherra hefur kynnt vegna fjárlagagerðar fyrir 2011. Náist það og takist að hrinda framkvæmdum af stað, skapa ný störf, minnka atvinnuleysi og auka tekjur almennings verður verkefnið mun léttara í ríkisfjármálunum árin 2012 og 2013 og Íslendingar komnir á fleygiferð upp úr kreppunni og inn í nýtt uppgangstímabil á traustum grunni. 

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA í júní 2010