Fréttir - 

20. júní 2002

Lækkun landbúnaðarstyrkja myndi auka velferð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lækkun landbúnaðarstyrkja myndi auka velferð

Samkvæmt skýrslu sem væntanleg er frá rannsóknar-stofnun danska landbúnaðarráðuneytisins í matvæla-hagfræði (Fødevareøkonomisk Institut) myndi helmings lækkun landbúnaðarstyrkja ESB auka velferð innan sambandsins um 12 til 13 hundruð milljarða íslenskra króna á ári. Landbúnaðurinn yrði minni en hagkvæmari atvinnugrein innan ESB, en hluti þess fjármagns og starfsfólks sem nú er bundið innan hans myndi nýtast betur annars staðar.

Samkvæmt skýrslu sem væntanleg er frá rannsóknar-stofnun danska landbúnaðarráðuneytisins í matvæla-hagfræði (Fødevareøkonomisk Institut) myndi helmings lækkun landbúnaðarstyrkja ESB auka velferð innan sambandsins um 12 til 13 hundruð milljarða íslenskra króna á ári. Landbúnaðurinn yrði minni en hagkvæmari atvinnugrein innan ESB, en hluti þess fjármagns og starfsfólks sem nú er bundið innan hans myndi nýtast betur annars staðar.

Lægra matvælaverð

Niðurstöður þessara breytinga, sem skýrsluhöfundar telja að hægt yrði að hrinda í framkvæmd fyrir árið 2013, yrðu samkvæmt skýrslunni m.a. lægra matvælaverð, aukinn aðgangur þróunarlanda að Evrópumarkaði, lokun búa sem ekki geta borið sig án styrkja og flutningur fjármagns og starfsfólks til annarra arðsamari greina. Hvað Danmörku varðar segja skýrsluhöfundar að fækka myndi í greininni en tekjur þeirra sem þar yrðu áfram myndu aukast, sem og þjóðarframleiðslan.

Fastur styrkur á hektara
Skýrsluhöfundar segja ekki raunhæft að miða við algert afnám landbúnaðarstyrkja innan ESB, sem þeir segja að myndi leiða til kollsteypu í greininni víða í ESB. Þess í stað segja þeir rétt að einfalda kerfið, afnema flesta beina styrki og lækka tolla um 30%. Einungis beri að greiða beinan styrk á hvern hektara lands, til þess að koma í veg fyrir að jarðir verði verðlausar við breytingarnar. Þannig væri hægt að skera niður nær allt skrifræði í kringum styrkveitingarnar, því styrkirnir yrðu greiddir án tillits til þess hvað ræktað væri á viðkomandi jörð.

Sjá nánar á netmiðli Jyllands-Posten.

Samtök atvinnulífsins