Lægstu launin hækka mest

Kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði hefur vaxið um 5% frá gerð kjarasamninga. Þá hefur gengið eftir það markmið samninganna að þeir lægst launuðu hafa hækkað umfram aðra. Þetta er ótvíræð niðurstaða úrvinnslu á gögnum Kjararannsóknarnefndar.

Mikil gengislækkun krónunnar á þessu ári og meðfylgjandi verðbólga hefur haft neikvæð áhrif á kaupmátt launa.  Það ber hins vegar að hafa í huga að kaupmáttur launa hefur vaxið mjög mikið undanfarin ár og ekki síst á fyrsta ári yfirstandandi samningstímabils. 

Kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði óx á fyrsta ársfjórðungi þessa árs um 9,5% miðað við sama tímabil árið 2000 samkvæmt mælingum Kjararannsóknarnefndar (KRN).  Eftir því sem liðið hefur á árið hefur dregið úr aukningunni vegna vaxandi verðbólgu en þrátt fyrir það var kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði um 5% hærri á 3. ársfjórðungi þessa árs en  í upphafi samningstímabilsins.

(smellið á myndina)


Lægstu launin hækka mest
Í samningunum vorið 2000 voru lægstu launataxtar hækkaðir sérstaklega.  Markmiðið var að þeir lægst launuðu hækkuðu umfram aðra.  Sérstök úrvinnsla var nýverið gerð á gagnasafni KRN í því skyni að fá úr því skorið hvort þetta hefði gengið eftir.  Gerð var athugun á launahækkunum sömu einstaklinga í febrúar á þessu ári miðað við febrúar 2000. Niðurstöður þessarar athugunar eru ótvíræðar.  Á fyrsta ári samningstímans hækkuðu laun þeirra sem lægst höfðu launin meira en þeirra sem hærri laun höfðu.  Þetta kemur einkar skýrt fram hjá afgreiðslufólki, þar sem kaupmáttur þeirra lægst launuðu hækkaði um 16% á samningstímanum, en um 6% hjá þeim hæst launuðu.

Þeir hópar sem teknir voru til skoðunar voru, auk afgreiðslufólks, verkamenn og iðnaðarmenn.  Innan hvers hóps voru einstaklingarnir flokkaðir eftir því hve há laun þeirra voru.  Miðað var við regluleg laun en það var skilgreint sem mánaðarlaun að viðbættum föstum aukagreiðslum, bónusgreiðslum og vaktaálagi.

Afgreiðslufólk
Sé fyrst litið á afgreiðslufólk þá er launum þeirra skipt upp í 30 þús. kr. bil, þannig að lægsti hópurinn er með 95 þús. kr. á mánuði eða minna, næsti hópur á bilinu 95-125 þús. kr. o.s.frv.  Skýrt kemur fram hvernig kaupmáttur þeirra lægst launuðu jókst mun meira en annars afgreiðslufólks.  Kaupmáttur afgreiðslufólks með lægri en 95 þús. kr. mánaðarlaun hafði aukist um 16% í febrúar á þessu ári miðað við sama mánuð árið 2000 og að teknu tilliti til verðbólgu ársins lætur nærri að kaupmáttaraukning þessa hóps sé 8% frá upphafi samningstímans.  Kaupmáttaraukningin fór minnkandi eftir því sem launin voru hærri en var þó mikil þannig að afgreiðslufólk með lægri mánaðarlaun en 155 þús. kr. hefur nú í árslok búið við jákvæða kaupmáttarþróun.  Kaupmáttur afgreiðslufólks með hærri mánaðarlaun en 155 þús. kr. er nú í árslok annað hvort óbreyttur eða eilítið lægri en í upphafi samningstímans.  Kaupmáttaraukning afgreiðslufólks í heild var 10,7% á umræddu 12 mánaða tímabili þannig að kaupmáttur nú í árslok er töluvert hærri en í upphafi samningstímans.

(smellið á myndina)


Verkafólk
Sé litið á verkafólk kemur í ljós að þeir lægstu í þeim hópi hækkuðu einna mest og hafði kaupmáttur þeirra aukist um 12% í febrúar 2001 frá sama mánuði 2000.  Þrátt fyrir um 8% hækkun verðlags á árinu er kaupmáttur launamanna í þessu launabili nú í árslok töluvert hærri en í upphafi samningstímans, þ.e. ársbyrjun síðasta árs.  Kaupmáttur í launabilinu 95-155 þús. kr er svipaður en síðan er talsverð kaupmáttaraukning í tekjubilinu 155-215 þús. kr. á mánuði.  Þessi mikla hækkun í tekjubilinu 155-215 þús. kr. á mánuði skýrist einkum af því að þar eru um að ræða verkamenn í vaktavinnu, en grunnlaun þeirra eru lægri sem nemur vaktaálaginu.  Kaupmáttarþróunin er hins vegar neikvæð hjá launamönnum með hærri laun en 215 þús. kr. á mánuði.  Rétt er að benda á að launamenn í hærri launabilunum eru hlutfallslega mun færri en í þeim lægri.  Kaupmáttaraukning allra verkamanna í febrúar sl. var 9,5% þannig að nú í árslok er kaupmáttur þeirra hærri en í upphafi samningstímans.

(smellið á myndina)

Iðnaðarmenn
Sé loks litið á iðnaðarmenn kemur enn fram meiri kaupmáttaraukning lægri launa en þeirra hærri.  Kaupmáttur iðnaðarmanna með lægri regluleg mánaðarlaun en 155 þús. kr. hækkaði um 14-15%, kaupmáttur þeirra sem höfðu mánaðarlaun á bilinu 155-215 þús. kr. hækkaði um 10-12% en um 7% hjá þeim sem hærri voru.  Þrátt fyrir verðbólgu ársins þá var kaupmáttaraukning veruleg hjá lægra launuðum iðnaðarmönnum frá upphafi samningstímans.  Kaupmáttur þeirra hæst launuðu er hins vegar svo til óbreyttur nú í árslok, að því gefnu að engar launabreytingar hafi átt sér stað í þessum hópi síðan í febrúar.  Kaupmáttaraukning iðnaðarmanna í heild var 10,6% á umræddu 12 mánaða tímabili þannig að kaupmáttur nú í árslok er töluvert hærri en í upphafi samningstímans.

(smellið á myndina)