Samkeppnishæfni - 

05. Desember 2001

Lægri framleiðni opinberra starfsmanna?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lægri framleiðni opinberra starfsmanna?

Framleiðni á vinnumarkaði (þ.e. afköst á hverja vinnustund) er minni hér á landi en víðast hvar annars staðar, líkt og sjá má á súluritinu hér að neðan. Framleiðni er mjög mikilvæg, því að á henni eru kjörin byggð. Ekki er hægt að bæta þau til langframa nema framleiðni aukist. Rétt er að geta þess að á bak við tölurnar er mismikið fjármagn og mismiklar náttúruauðlindir og getur það átt þátt í þeim mun sem er á löndunum.

Framleiðni á vinnumarkaði (þ.e. afköst á hverja vinnustund) er minni hér á landi en víðast hvar annars staðar, líkt og sjá má á súluritinu hér að neðan.  Framleiðni er mjög mikilvæg, því að á henni eru kjörin byggð.  Ekki er hægt að bæta þau til langframa nema framleiðni aukist.  Rétt er að geta þess að á bak við tölurnar er mismikið fjármagn og mismiklar náttúruauðlindir og getur það átt þátt í þeim mun sem er á löndunum.

Framleiðni í opinberum rekstri
Því er oft haldið fram að framleiðni sé minni hjá hinu opinbera en í einkageiranum.  Þá er einkum vísað til þess að opinber rekstur lúti öðrum lögmálum en einkarekstur.  Hvorki sé hagnaðarvon fyrir hendi né óttinn við gjaldþrot og ýmis önnur sjónarmið uppi en ríkjandi eru í rekstri fyrirtækja á markaði.  Þess vegna m.a. hafa ríki og sveitarfélög viljað losa sig út úr rekstri sem ekki telst vera á þeirra könnu. Engar tölur liggja hins vegar fyrir um framleiðni í opinberum rekstri á Íslandi.  Ástæðan er sú að opinber þjónusta er yfirleitt ekki seld á markaði. Danska fjármálaráðuneytið hefur hins vegar fetað sig áfram við að mæla framleiðni í opinberum rekstri.  Það styðst við mælingar þar sem það er hægt, til dæmis um fjölda útlána af bókasöfnum og fjölda nemenda í skólum. Nýlega var skýrt frá því að samkvæmt slíkum mælikvörðum hefði framleiðni opinberra starfsmanna í Danmörku minnkað um 10% á árunum 1990 til 1999 (sjá frétt á vef SA ). 

Hraðari kaupmáttaraukning
Frá árinu 1996 hafa laun opinberra starfsmanna og bankamanna hér á landi vaxið um 5-10% meira en laun á almennum vinnumarkaði, samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar og könnun Kjararannsóknarnefndar. Spurningin er hvort þessar hækkanir byggist á svigrúmi sem aukin framleiðni hafi skapað eða hvort í þeim felist bein ávísun á skattahækkanir á almenning.  Á árunum 1996 til 2000 fjölgaði starfsfólki í opinberri stjórnsýslu, í fræðslustarfsemi og í heilbrigðis- og félagsþjónustu um u.þ.b. 2,5%, skv. vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar.  Fengur væri að upplýsingum um hvernig framleiðni opinberra starfsmanna breyttist á þessum árum.

Samtök atvinnulífsins