Efnahagsmál - 

13. Oktober 2011

Kyrrstaða á almennum vinnumarkaði og slakar horfur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kyrrstaða á almennum vinnumarkaði og slakar horfur

Rúmur helmingur (55%) aðildarfyrirtækja SA áætla að ekki verði breytingar á starfsmannafjölda fyrirtækja þeirra á þessu ári. Tæpur fjórðungur (24%) áætla að starfsmönnum fyrirtækjanna fækki og rúmur fimmtungur (21%) að þeim fjölgi. Þegar þessar niðurstöður eru vegnar saman eftir stærð fyrirtækja fæst að heildarfjöldi starfa á almennum vinnumarkaði verði óbreyttur milli áranna 2010 og 2011. Starfsmönnum fjölgar í ferðaþjónustu og sjávarútvegi en fækkar í fjármálaþjónustu, verslun og þjónustu og iðnaði.

Rúmur helmingur (55%) aðildarfyrirtækja SA áætla að ekki verði breytingar á starfsmannafjölda fyrirtækja þeirra á þessu ári. Tæpur fjórðungur (24%) áætla að starfsmönnum fyrirtækjanna fækki og rúmur fimmtungur (21%) að þeim fjölgi. Þegar þessar niðurstöður eru vegnar saman eftir stærð fyrirtækja fæst að heildarfjöldi starfa á almennum vinnumarkaði verði óbreyttur milli áranna 2010 og 2011. Starfsmönnum fjölgar í ferðaþjónustu og sjávarútvegi en fækkar í fjármálaþjónustu, verslun og þjónustu og iðnaði.

Á næstu sex mánuðum hyggjast sex af hverjum tíu (63%) aðildarfyrirtækjum SA ekki gera breytingar á starfsmannafjölda, 18% áforma fjölgun starfsmanna en 19% fækkun.  Þegar niðurstöðurnar eru vegnar með starfsmannafjölda atvinnugreinanna þá koma fram heldur meiri áform um fækkun starfsmanna þar sem fyrirtæki með 21% starfsmannafjöldans hyggjast fækka en þau með 17% starfsmannafjöldans hyggjast fjölga.

Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á stöðu og horfum í atvinnumálum meðal aðildarfyrirtækja SA.

Niðurstöður yfirfærðar á atvinnulífið í heild

Fyrirtækin í könnuninni endurspegla sjávarútveg, iðnað, byggingastarfsemi, veitur, verslun og samgöngur, hótel og veitingahús, fjármála- og tryggingafyrirtæki. Áætlað er að í þessum atvinnugreinum starfi rúmlega 83.000 manns um þessar mundir.

Í framangreindum atvinnugreinum fækkaði störfum um 3.000 á árinu 2010 í kjölfar fækkunar um 7.500 milli áranna 2008 og 2009 samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Störfum í þessum helstu atvinnugreinum á almennum markaði fækkaði því um 10.500 milli áranna 2008 og 2010.

Þótt horfur séu á að fjöldi starfa verði nokkurn veginn óbreyttur á þessu ári er þróunin ólík eftir atvinnugreinum. Starfsmönnum fjölgar í ferðaþjónustu og sjávarútvegi en fækkar í fjármálaþjónustu, verslun og þjónustu og iðnaði. Samkvæmt könnuninni stefnir í 7% fjölgun starfa í ferðaþjónustu og 3% fjölgun í sjávarútvegi. Fækkun starfa er um 2% í fjármálaþjónustu og 1% í iðnaði, verslun og þjónustu.

Á næstu sex mánuðum áforma heldur fleiri fyrirtæki að fækka starfsfólki en fjölga því. Þegar niðurstöðurnar eru vegnar með starfsmannafjölda atvinnugreinanna koma í ljós heldur meiri áform um fækkun starfsmanna þar sem fyrirtæki með 21% starfsmannafjöldans hyggjast fækka en fyrirtæki með 17% starfsmannafjöldans hyggjast fjölga. Fjölgun starfa er áformuð í ferðaþjónustu, verslun og þjónustu og orkuframleiðslu en fækkun starfa í sjávarútvegi og iðnaði.

----------

Um könnunina

Könnunin var rafræn og gerð meðal aðildarfyrirtækja SA dagana 6. til 11. október 2011 en framkvæmd hennar var í höndum Outcome hugbúnaðar ehf. Markmiðið með könnuninni var að fá skýrari mynd af stöðu og horfum framundan í íslensku atvinnulífi.

Könnunin var tölvupóstkönnun og var send til 1.684 fyrirtækja en fjöldi svarenda var 482 og var  svarhlutfall því 29%. 30.000 starfsmenn starfa hjá þeim fyrirtækjum sem þátt tóku í könnuninni.

Tengt efni:

Rætt við Vilmund Jósefsson, formann SA, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni

Samtök atvinnulífsins