1 MIN
Kvennafrí 24. október 2025
Næsta föstudag verða 50 ár liðin frá fyrsta kvennafrídeginum. Af því tilefni hafa fjölmörg félagasamtök boðað til útifunda eftir hádegi föstudaginn 24. október næstkomandi.
Samtök atvinnulífsins styðja baráttu gegn mismunun og ofbeldi og fagna þeim árangri sem náðst hefur á síðustu 50 árum. Atvinnulífið ber ótvíræðan hag af því að allt starfsfólk fái notið eigin verðleika og hafi jöfn tækifæri til launa, starfa og starfsþróunar óháð kyni eða kynferði.
SA leggja enn fremur áherslu á að starfsfólk sem hyggst taka þátt 24. október, óski með góðum fyrirvara eftir samtali við sinn atvinnurekanda um hvort hægt sé að koma við fjarvistum þennan dag og þá með hvaða hætti. Engin skylda hvílir á atvinnurekendum að greiða laun í fjarvistum sem þessum.
Félagsmenn Samtaka atvinnulífsins eru hvattir til að hafa samband við vinnumarkaðssvið SA ef frekari spurningar vakna.