Samkeppnishæfni - 

03. apríl 2003

Kvartað undan íþyngjandi reglubyrði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kvartað undan íþyngjandi reglubyrði

Um 40% fyrirtækja kvarta undan opinberri reglubyrði og segja hana íþyngjandi í sínum rekstri, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Samtök atvinnulífsins gerðu í janúar sl. Einkum eru það fyrirtæki í ferðaþjónustu, útgerð og fiskvinnslu sem kvarta sáran. Í könnuninni voru forsvarsmenn fyrirtækja jafnframt beðnir að nefna dæmi um það sem þeir upplifa sem íþyngjandi reglubyrði, sem mjög margir þeirra gerðu.

Um 40% fyrirtækja kvarta undan opinberri reglubyrði og segja hana íþyngjandi í sínum rekstri, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Samtök atvinnulífsins gerðu í janúar sl. Einkum eru það fyrirtæki í ferðaþjónustu, útgerð og fiskvinnslu sem kvarta sáran. Í könnuninni voru forsvarsmenn fyrirtækja jafnframt beðnir að nefna dæmi um það sem þeir upplifa sem íþyngjandi reglubyrði, sem mjög margir þeirra gerðu.

"Eftirlitsiðnaðurinn"
Það sem flest fyrirtæki kvarta undan er það sem í daglegu tali kallast "eftirlitsiðnaðurinn", þ.e. ýmis konar opinbert eftirlit með rekstri, skýrslur sem fylla þarf út vegna þess, tíminn sem fer í það, kostnaður því samfara o.s.frv. Oft á tíðum flókin leið við öflun starfsleyfa er mjög mörgum fyrirtækjum ofarlega í huga, en þar er að hluta til aftur á ferðinni svokallaður eftirlitsiðnaður, þ.e. önnur mæling á umfangi hans.

Innheimtuþjónusta fyrir ríkisvaldið
Innheimtuþjónusta fyrirtækja fyrir ríkisvaldið er annað mjög algengt umkvörtunarefni, sem snýr m.a. að umsýslukostnaði við útreikning virðisaukaskatts og að ýmsum opinberum gjöldum sem fyrirtæki eru látin innheimta fyrir ríkissjóð og skattayfirvöld. Einstakar stofnanir eru einnig nefndar til sögunnar og kvartað undan reglusetningu þeim tengdri og kemur Fiskistofa þar oftast við sögu. Almennt kvarta útgerðarfyrirtæki mikið undan sífelldum breytingum á reglum sem varða þeira rekstur. 

Flókin leið erlends starfsfólks
Loks er algengt að fyrirtæki kvarti undan flóknu ferli við að fá til starfa fólk frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins og við endurnýjun starfsleyfa þeirra, undan umsýslu vegna viðbótarlífeyrissparnaðar, þröngum reglum samkeppnislaga og fleiru.

Greiðslur fyrir lítið?
Í könnun SA var líka talsvert kvartað undan því að heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna leggðu mismikla vinnu í lögboðið eftirlit hjá fyrirtækjum innan sömu starfsgreinar gegn sama gjaldi. Hugtakið "sjálftaka" kom oftar en einu sinni fram í því sambandi, sem og hugtakið "mafíuskattur", sem best sé að greiða þótt lítil eða engin þjónusta virðist fylgja. Eitt fyrirtæki svaraði þannig:

Við þurfum að borga eftirlitsgjöld sem engu skila á móti. Greiðum til að mynda eftirlitsgjald vegna mengandi atvinnustarfsemi en á móti kemur ekkert eftirlit, engin þjónusta, ekki neitt.

Samtökum atvinnulífsins er kunnugt um fjölda dæma þess að fyrirtæki greiði verulegar fjárhæðir vegna eftirlits sem ýmist er lítið eða ekkert í raun. Fyrirtæki geta verið mjög treg til að gera athugasemdir við slíka hluti enda getur hlotist af því mikið tjón ef fréttist að fyrirtæki eigi í útistöðum við heilbrigðiseftirlit, ekki síst þegar um er að ræða fyrirtæki í matvælaframleiðslu. Þetta geta hins vegar ekki talist viðunandi vinnubrögð.

Skýrsla fyrir aðalfund SA 29. apríl
Nánar er fjallað um niðurstöður könnunarinnar í skýrslunni Bætum lífskjörin!, sem kynnt verður á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins þriðjudaginn 29. apríl nk. Í skýrslunni er fjallað um leiðir til lífskjarabóta með kerfisumbótum. Reglubyrði og opinber eftirlitsstarfsemi eru þar til nánari umfjöllunar, sem og vinnumarkaðsmál, matvælaverð, heilbrigðiskerfið o.fl.

Könnunin var gerð í janúar 2003 og var hún send til 1350 fyrirtækja. Svör bárust frá um 650 þeirra, eða um 48%.

Samtök atvinnulífsins