Efnahagsmál - 

07. Desember 2006

Krónan verðlögð út af markaðnum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Krónan verðlögð út af markaðnum

Hinir háu vextir af fjárskuldbindingum í íslensku krónunni leiða hugann að því hvort verið sé að verðleggja krónuna út af markaðnum. Markaðshlutdeild krónunnar í íslenska bankakerfinu er um 20% en í íslenska lánakerfinu í heild er hlutdeildin aðeins 13%. Á undanförnum árum hafa ýmsar nýjungar á fjármagnsmarkaðnum gert hann virkari og meðal annars valdið því að lántakendur hafa betri möguleika en áður að taka lán í öðrum gjaldmiðlum en krónunni. Þessi þróun hlýtur að halda áfram og háir vextir á krónunni minnka því markaðshlutdeild hennar og þýðingu fyrir hagstjórn.

Hinir háu vextir af fjárskuldbindingum í íslensku krónunni leiða hugann að því hvort verið sé að verðleggja krónuna út af markaðnum. Markaðshlutdeild krónunnar í íslenska bankakerfinu er um 20% en í íslenska lánakerfinu í heild er hlutdeildin aðeins 13%. Á undanförnum árum hafa ýmsar nýjungar á fjármagnsmarkaðnum gert hann virkari og meðal annars valdið því að lántakendur hafa betri möguleika en áður að taka lán í öðrum gjaldmiðlum en krónunni. Þessi þróun hlýtur að halda áfram og háir vextir á krónunni minnka því markaðshlutdeild hennar og þýðingu fyrir hagstjórn.

Almennt má segja að hægt sé að tala um verð á hverjum gjaldmiðli í þrenns konar skilningi. Í fyrsta lagi verð hans í viðskiptum með vörur og þjónustu, í öðru lagi verð gjaldmiðilsins gagnvart öðrum gjaldmiðlum og í þriðja lagi má tala um verð m.t.t. vaxta þegar fjárskuldbindingar eru gerðar til skemmri eða lengri tíma.

Baráttan gegn verðbólgu snýst um að halda stöðugleika í verði gjaldmiðilsins gagnvart vörum og þjónustu og Seðlabankinn hefur 2,5% verðbólgu sem markmið sitt. Til þess að ná þessu markmiði notar bankinn tæki sitt sem eru stýrivextir og ráða verði gjaldmiðilsins sem tækis í lánsviðskiptum. Verð gjaldmiðilsins gagnvart öðrum gjaldmiðlum, þ.e. gengið er látið fljóta eftir niðurstöðu markaðarins en hins vegar hafa vextirnir mikil áhrif á gengið. Öll þessi fræði hafa mikið verið til umræðu um efnahagsmál og hagstjórn að undanförnu og ástæðulaust að endurtaka þau hér. Verðtryggða krónan virkar svipað og erlendur gjaldmiðill að því leyti að verðtryggðir langtímavextir fara fyrst og fremst eftir framboði og eftirspurn eftir verðtryggðum fjárskuldbindingum og hafa almennt lítið sem ekkert hreyfst þrátt fyrir miklar breytingar á vöxtum í krónum.

Spurning um virkni stjórnar peningamála

Það sem hér er til umfjöllunar er hins vegar spurningin um virkni stjórnar peningamála þegar fjármagnsmarkaðurinn verður sífellt opnari og fyrirtæki og almenningur hafa möguleika til þess að velja sér gjaldmiðil fyrir fjárskuldbindingar. Segja má að eftir því sem markaðurinn er virkari eigi vaxtabreytingar að hafa sneggri og víðtækari áhrif á tilflutning milli gjaldmiðla, sem m.a. kemur fram í því að almennt má reikna með því að við vaxtahækkanir Seðlabankans aukist áhugi á því að fjárfesta í krónum en áhugi á því að skulda í krónum minnki og gengi krónunnar hækki því við slíka aðgerð. Þessu höfum við fylgst með á þeim tíma sem núverandi fyrirkomulag á stjórn peningamála hefur verið við lýði.

Gengislækkun krónu þrátt fyrir metvexti

En við höfum líka tekið eftir því að gengi krónunnar hefur fallið á þeim tíma sem vextirnir hafa verið háir, það gerðist bæði í mars sl. og svo hefur gengi krónunnar farið heldur lækkandi aftur nú upp á síðkastið þrátt fyrir metvexti. Í vor var almennt talið að gengið hefði lækkað vegna þeirrar neikvæðu umræðu sem varð um íslensk efnahagsmál á erlendum vettvangi en nú hafa ekki verið neinar sérstakar skýringar í gangi. Þó er ekki ólíklegt að skýringanna sé að leita til þess að það sé ekki eins mikil eftirspurn og áður frá byggingaraðilum íbúðarhúsnæðis sem hafa fjármagnað sig á framkvæmdatímanum í krónum og á mjög háum vöxtum.

Heimilin skulda í krónum

Það eru fyrst og fremst heimilin í landinu og tilteknir mjög afmarkaðir hlutar atvinnulífsins sem eru nettó skuldarar í krónum. Viðvarandi háir vextir leiða til þess að bæði heimilin og fyrirtækin leita varanlegra lausna til þess að flytja lán sín yfir í erlenda gjaldmiðla. Nú standa heimilunum til boða bílalán í erlendum gjaldmiðlum og aftur eru farnar að sjást auglýsingar um húsnæðislán í erlendum gjaldmiðlum. Næstu skref í þróuninni verða væntanlega að bjóða upp á ennþá meira aðlaðandi kosti í húsnæðislánum í erlendum gjaldmiðlum og leiðir til þess að fjármagna yfirdrátt með erlendum lánum.

Krónan gegni brátt sáralitlu hlutverki við fjárskuldbindingar

Þannig má reikna með því háir vextir hafi í för með sér að markaðshlutdeild krónunnar minnki enn frekar á næstu árum og að smám saman gegni hún sáralitlu hlutverki fyrir fjárskuldbindingar í hagkerfinu. Eitt af hlutverkum gjaldmiðla er að vera tæki til þess að geyma peninga og það er ekki einungis verðbólga sem rýrir hæfni gjaldmiðilsins til þess að gegna því hlutverki. Viðvarandi háir vextir gera það líka þegar fjármagnsmarkaðurinn er jafn opinn og virkur og er hér á landi.  Hávaxtastefna Seðlabanka Íslands virðist þess vegna smám saman vera að verðleggja íslensku krónuna út af markaðnum.

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins