Efnahagsmál - 

21. mars 2013

Krefjandi verkefni framundan

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Krefjandi verkefni framundan

Rætt er við Þorstein Víglundsson, nýjan framkvæmdastjóra SA, í Morgunblaðinu í dag. Hann segir komandi kjaraviðræður mjög mikilvægar. Krefjandi verkefni séu framundan. "Viðræður um gerð kjarasamninga munu skipta mjög miklu um þróunina næstu árin, hvort við náum vopnum okkar á ný og stöðugleika í efnahagslífinu. Þetta er ein af þremur meginstoðum sem ná þarf betri tökum á." segir hann. Ennfremur verði að ná betri tökum á samspili ríkisfjármála og peningamálastjórnunar sem styðji betur hvort við annað en verið hefur og ná niður verðbólgu

Rætt er við Þorstein Víglundsson, nýjan framkvæmdastjóra SA, í Morgunblaðinu í dag. Hann segir komandi kjaraviðræður mjög mikilvægar. Krefjandi verkefni séu framundan. "Viðræður um gerð kjarasamninga munu skipta mjög miklu um þróunina næstu árin, hvort við náum vopnum okkar á ný og stöðugleika í efnahagslífinu. Þetta er ein af þremur meginstoðum sem ná þarf betri tökum á." segir hann. Ennfremur verði að ná betri tökum á samspili ríkisfjármála og peningamálastjórnunar sem styðji betur hvort við annað en verið hefur og ná niður verðbólgu

Í umfjöllun Morgunblaðsins 21. mars segir ennfremur:

"Ef litið er til baka yfir undanfarin 12-14 ár þá hefur verið hér allt of mikil verðbólga. Launahækkanir, hvort sem þær hafa verið kjarasamningsbundnar eða stafað af launaskriði, hafa verið talsvert umfram það sem hagkerfið hefur haft burði til að greiða. Það hefur átt sinn þátt í þeirri verðbólgu sem við erum að glíma við. Ég tel að skilningurinn sé þó alltaf að aukast á því allt í kringum borðið að þessir þrír þættir verða að spila saman í átaki okkar við að ná tökum á hagstjórninni á nýjan leik," segir Þorsteinn.

Fjölmörg tækifæri
Hann segir að langvarandi doði hafi einkennt efnahagslífið og því sé mjög mikilvægt að örva fjárfestingu og hagvöxt.

"Við eigum ýmis tækifæri. Það eru t.d. fjölmörg tækifæri í kringum sjávarútveginn, orkuiðnaðinn og tækni- og hugbúnaðariðnaðinn. Allar þessar atvinnugreinar mæta mjög miklum áskorunum í efnahagsumhverfinu eins og það er í dag.

Við búum við gjaldeyrishöft sem standa mörgum atvinnugreinum fyrir þrifum og helsti vandi þeirra er sá hvað kostnaðurinn vegna gjaldeyrishaftanna er ósýnilegur. Við sjáum hann ekki frá degi til dags en hann birtist í því sem aldrei verður og það getur verið æði mikill vöxtur sem við missum af því hann á sér ekki stað á Íslandi heldur erlendis."

Þorsteinn segir einnig mjög brýnt að leyst verði úr málefnum sjávarútvegsins og náð verði víðtækari sátt um rekstrarumhverfi hans, þannig að sjávarútvegurinn geti búið við stöðugleika til framtíðar.

"Það er alveg ljóst að það hefur verið höggvið mjög nærri greininni. Þær tölur sem við sjáum í dag til dæmis varðandi áhrif veiðigjalds á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja eru sláandi, sérstaklega þegar kemur að smærri og millistóru fyrirtækjunum. Það gefur augaleið að þetta getur ekki gengið og við verðum að ná sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein," segir Þorsteinn.

Í orkuiðnaðinum liggja einnig fjölmörg tækifæri að sögn hans. "Vonandi náum við betri sátt um hvernig við nýtum auðlindirnar og notfærum okkur þau tækifæri sem þar liggja," bætir hann við.

Verkefnin eru mörg sem blasa við nýjum framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Samskipti aðila vinnumarkaðarins við stjórnvöld hafa verið stormasöm að undanförnu en áhersla verið lögð á að auka þau á ný eftir komandi þingkosningar í aðdraganda kjarasamninganna.

"Það er mikilvægt um leið og liggur ljóst fyrir hvernig stjórn landsins verður á næsta kjörtímabili að menn setjist strax niður og ráði ráðum sínum. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að þarna sé gott samstarf á milli. Menn hafa vissulega verið brenndir af reynslu undangenginna ára en það breytir því ekki að það er skylda Samtaka atvinnulífsins á hverjum tíma að reyna að eiga gott samstarf við stjórnvöld," segir Þorsteinn Víglundsson að lokum.

Samtök atvinnulífsins