Efnahagsmál - 

15. Oktober 2003

Krefjandi valkostir Dana

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Krefjandi valkostir Dana

Meðal dönsku þjóðarinnar fer hlutfall eldra fólks ört vaxandi. Jafnframt hefur eftirlaunaaldur verið að færast neðar og mjög margir hefja nú snemmtöku eftirlauna um sextugt. Þessi þróun setur hins vegar tvöfaldan þrýsting á ríkisfjármálin. Þannig fer fólki á vinnumarkaði fækkandi og því færri sem greiða skatta, á sama tíma og útgjaldaþrýstingur vegna eftirlauna og frá heilbrigðiskerfi fer vaxandi með hækkandi hlutfalli eldra fólks.

Meðal dönsku þjóðarinnar fer hlutfall eldra fólks ört vaxandi. Jafnframt hefur eftirlaunaaldur verið að færast neðar og mjög margir hefja nú snemmtöku eftirlauna um sextugt. Þessi þróun setur hins vegar tvöfaldan þrýsting á ríkisfjármálin. Þannig fer fólki á vinnumarkaði fækkandi og því færri sem greiða skatta, á sama tíma og útgjaldaþrýstingur vegna eftirlauna og frá heilbrigðiskerfi fer vaxandi með hækkandi hlutfalli eldra fólks.

Hærri skatta eða lægri útgjöld
Að mati DA, dönsku samtaka atvinnulífsins, standa Danir frammi fyrir að velja á milli allt að 5% hækkunar skatta eða niðurskurðar opinberra útgjalda sem sem nemur um 300 milljörðum íslenskra króna á ári, sem er tæpur helmingur opinberra framlaga til heilbrigðiskerfisins þar í landi. Þessar tölur koma fram í árlegri vinnumarkaðsskýrslu samtakanna og miðast við framreikninga á núverandi þróun til ársins 2040 og nauðsynlegum viðbrögðum. Ekki er þó víst að skattahækkunin myndi duga, þar sem hærri skattar draga úr hvata til vinnu.

Önnur úrræði
DA nefnir hins vegar önnur og betri úrræði til sögunnar, til að bregðast við þessari þróun. Þau eru:

  • að hækka eftirlaunaaldurinn,

  • að stuðla að auknum fólksflutningum til Danmerkur frá t.d. væntanlegum aðildarríkjum ESB,

  • stuðla að hraðari aðlögun útlendinga að dönskum vinnumarkaði,

  • að nemendur ljúki námi fyrr á lífsleiðinni, en Danir útskrifast t.d. sífellt eldri úr háskólanámi.

Að mati DA geta þessi fjögur úrræði til samans dregið úr eða komið í staðinn fyrir fyrrnefnda þörf á skattahækkunum eða stórfelldum niðurskurði opinberra útgjalda.

Standa frammi fyrir valinu
DA benda hins vegar á að Danir standi nú þegar frammi fyrir að taka afstöðu til þessarar þróunar, með hverju árinu sem því er frestað verður vandinn illviðráðanlegri. Sjá vinnumarkaðsskýrslu DA árið 2003 á vef samtakanna (pdf-skjal).

 

Samtök atvinnulífsins