Vinnumarkaður - 

15. október 2020

Kórónukreppan hefur meiri áhrif á atvinnustig en fyrri kreppur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kórónukreppan hefur meiri áhrif á atvinnustig en fyrri kreppur

„Ekki er líklegt að laun á Íslandi fari í gegnum sambærilegt aðlögunarferli og eftir fjármálaáfallið 2008, þegar fall gengis krónunnar lækkaði laun á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og undirbjó jarðveginn fyrir mikla atvinnusköpun í ferðaiðnaði.

„Ekki er líklegt að laun á Íslandi fari í gegnum sambærilegt aðlögunarferli og eftir fjármálaáfallið 2008, þegar fall gengis krónunnar lækkaði laun á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og undirbjó jarðveginn fyrir mikla atvinnusköpun í ferðaiðnaði.

Orðnar og væntanlegar launahækkanir samkvæmt Lífskjarasamningnum og stefna Seðlabanka Íslands um að halda gengi krónunnar stöðugu mun að öllum líkindum tryggja að raungengi á mælikvarða launa haldist enn fyrir ofan meðaltal síðustu 15 ára.” Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins í dag, þar sem ný skýrsla kjaratölfræðinefndar er til umfjöllunar, en þar er núverandi kreppa borin saman við síðustu tvær.

Fyrri kreppur á Íslandi hafa yfirleitt skollið á kjölfar langrar efnahagsuppsveiflu. Uppsveiflurnar hafa stuðlað að auknum kaupmætti launa og styrkingu á raungengi krónunnar. Raungengið hefur jafnan verið í hápunkti í upphafi kreppnanna og í kjölfarið fallið verulega. Lækkun raungengis hefur stuðlað að bættri samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja og annarra fyrirtækja sem keppa við innflutning. Lækkun raungengis hefur þannig dregið úr fækkun starfa í þessum greinum og síðan stuðlað að aukinni atvinnusköpun vegna góðrar samkeppnisstöðu.

Í öllum kreppum skipta viðbrögð stjórnvalda sköpum við að ná tökum á efnahagsframvindunni, en þau hafa verið mjög mismunandi í síðustu kreppum.

Líkt og áður segir er kórónakreppan borin saman við síðustu tvær kreppur í skýrslu kjaratölfræðinefndar. Á stöðnunartímabilinu 1988 til 1995 var gengi krónunnar í upphafi tímabilsins fellt verulega en í framhaldinu var megináhersla lögð á stöðugt gengi og verðlag, ólíkt því sem áður var. Jafnframt var ráðist í fjölbreyttar skipulagsbreytingar til að styðja við hagvöxt og atvinnusköpun. Í bankahruninu 2008-2012 var gripið til víðtækra efnahagsaðgerða, m.a. í tengslum við samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og gengishrun krónunnar gjörbreytti samkeppnisstöðu atvinnulífsins.

Á meðfylgjandi mynd kemur fram að á stöðnunartímabilinu varð raungengi á mælikvarða launa lægst 17% undir meðaltali síðustu þriggja áratuga og var undir meðaltali í fimm ár. Í hruninu varð raungengið lægst 40% undir meðaltali og var undir því í sex ár. Nú er raungengið 13% yfir meðaltali og ekki útlit fyrir lækkun þess á næstunni í ljósi launahækkana um næstu áramót og markmiða Seðlabankans.

Þótt gengi krónunnar hafi veikst töluvert, eða um 14% frá áramótum, er veiking þess mun minni en í fyrri kreppum. Þá er ekki útlit fyrir viðamiklar kerfisbreytingar, eins og á tíunda áratugnum, sem geti stuðlað að viðsnúningi. Þessi kreppa mun því að öllum líkindum koma harðar niður á atvinnustigi en áður hefur þekkst og valda miklu atvinnuleysi.

Raungengi á mælikvarða launa er skilgreint sem hlutfallsleg þróun launakostnaðar frá tilteknu grunnári og birt sem vísitala. Hlutfallslegur launakostnaður er launakostnaður á framleidda einingu á Íslandi í hlutfalli við launakostnað á framleidda einingu erlendis, reiknað í sömu mynt.

Í umfjöllun Fréttablaðsins frá í dag er einnig rætt við Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, forstöðumann efnahagssviðs SA. Þar segir hún að ef og þegar umsamdar launahækkanir komi til framkvæmda á næsta ári muni raungengið halda áfram að hækka og þar með muni draga áfram úr samkeppnishæfni hagkerfisins, sérstaklega ef Seðlabankinn heldur áfram að selja gjaldeyri til að koma í veg fyrir veikingu krónunnar. „Ef laun á Íslandi hækka umfram laun erlendis, þrýstingur myndast á gengi krónunnar til veikingar og ef Seðlabankinn leggst gegn þeim þrýstingi, er á vissan hátt verið að takmarka leiðréttingu verðlags í gegnum gengisfarveginn. Sá ventill myndi því ekki virka á sama hátt og hann hefur gert í fortíðinni. Þá eru líkur á að veikari samkeppnisstaða þjóðarbúsins myndi leiða til aukins atvinnuleysis,“ segir hún.

Umfjöllun Fréttablaðsins frá í dag má lesa í heild sinni hér.

 

Samtök atvinnulífsins