Konur sækjast síður eftir stjórnunarstörfum
Konur eru almennt jafn góðir eða ívið betri stjórnendur en karlar en sækjast hins vegar mun síður eftir stjórnunarstörfum. Þær eru samviskusamari og liprari í samskiptum en bundnari af fjölskyldu og heimili. Þær hafa minni tengsl utan fyrirtækis, eiga erfiðar með að taka gagnrýni og eru lengur að taka ákvarðanir en karlmenn. Loks virðast konur endast ívið betur í starfi og vera ívið metnaðarfyllri. Þetta eru helstu niðurstöður könnunar SA meðal aðildarfyrirtækja sinna á ólíkum kostum og göllum kvenna og karla sem stjórnenda. Spurningarnar voru samdar í samráði við Jafnréttisráð. Aðspurð hvort þau hafi hug á að fjölga konum í stjórnunarstöðum segja ívið fleiri fyrirtæki já en nei, en langflest svara því til að þau velji hæfasta einstaklinginn hverju sinni.
Oft er talað um ólíka kosti og galla kynjanna sem stjórnenda, meðan sumir segja engan mun þeirra í milli. Samtök atvinnulífsins könnuðu á dögunum afstöðu forstöðumanna (og -kvenna) aðildarfyrirtækja sinna til kvenna sem stjórnenda, og þá um leið til karla í samanburðinum. Spurningarnar voru samdar í samráði við Jafnréttisráð.
Konur sækjast síður eftir
stjórnunarstörfum
Aðspurðir hvort konur sæktust síður eftir stjórnunarstörfum sögðu
34% svarenda svo vera, 22% sögðu konur sækjast jafnmikið og karlar
eftir stjórnunarstörfum en 5% að þær sæktust meira eftir
stjórnunarstörfum. 38% svarenda sögðu spurninguna ekki eiga við. Ef
undan eru skilin svör þeirra fyrirtækja sem sögðu spurninguna ekki
eiga við um sig, þá svara 56% því til að konur sækist síður eftir
stjórnunarstörfum, 35% að þær sækist jafnmikið eftir þeim og karlar
og 8% að konur sækist meira en karlar eftir stjórnunarstörfum.
Meiri munur í stærstu fyrirtækjunum
Þá er athyglisvert að ef svörin eru skoðuð í samhengi við
stærð fyrirtækja þá fer hlutfall þeirra sem segja konur síður
sækjast eftir stjórnunarstöðum hækkandi með aukinni stærð
fyrirtækjanna. Hæst er hlutfallið meðal stærstu fyrirtækjanna, með
fleiri en 200 starfsmenn, en 40 svör bárust frá fyrirtækjum að
þeirri stærð. Eitt þeirra segir spurninguna ekki eiga við, eða
2,5%, en 72,5% fyrirtækjanna segja konur síður sækjast eftir
stjórnunarstörfum en karlar. 25% segja þær sækjast jafnmikið eftir
stjórnunarstörfum en ekkert stærstu fyrirtækjanna 40 segir konur
sækjast meira en karlar eftir stjórnunarstöðum.
Ívið betri reynsla af kvenstjórnendum
Samkvæmt könnuninni er reynslan af konum í stjórnunarstörfum ívið
betri en af körlum. Aðspurðir hvernig konur hefðu reynst sem
stjórnendur svöruðu flestir að þær hefðu reynst jafnvel og karlar,
eða 51%. 11% sögðu þær hafa reynst betur en karla en 5% verr. 31%
svarenda höfðu enga reynslu af kvenstjórnanda.
Ráða hæfasta einstaklinginn hverju sinni
Þá voru svarendur spurðir hvort þeir hefðu hug á að fjölga
konum í stjórnunarstöðum í sínu fyrirtæki. Ívið fleiri svöruðu
spurningunni játandi en neitandi, eða 14% og 11%, en langflestir
svarenda sögðust velja hæfasta einstaklinginn hverju sinni, eða
47%. 27% sögðu spurninguna ekki eiga við.
Konur samviskusamari, bundnari af
heimili…
Loks var beðið um svör við ýmsum spurningum um möguleg vandamál sem
oftar virtust koma upp hjá konum en körlum og að sama skapi hvort
hvort konur hefðu eitthvað fram yfir karla, þar sem spurt var um
sömu atriði. Við túlkun á þessum svörum ber að hafa í huga að ekki
var spurt opinna spurninga og því ekki víst að þau endurspegli í
öllum tilfellum það sem svarendur hefðu helst viljað koma á
framfæri. Einungis var hægt að velja tiltekna svarmöguleika, en sem
fyrr segir voru spurningarnar og svarmöguleikarnir samdir í samráði
við Jafnréttisráð. Þess ber ennfremur að geta að nær allir þeirra
sem enga reynslu sögðust hafa af kvenstjórnanda (31%) slepptu
þessum spurningum.
Niðurstöðurnar eru um margt fróðlegar þótt fátt komi ef til vill á óvart. Þannig eru konur samviskusamari og liprari í samskiptum en bundnari af fjölskyldu og heimili. Þær hafa minni tengsl utan fyrirtækis, eiga erfiðar með að taka gagnrýni og eru lengur að taka ákvarðanir en karlmenn. Loks virðast konur endast ívið betur í starfi og vera ívið metnaðarfyllri stjórnendur en karlmenn.
(Smellið á töfluna)
Könnunin var gerð í mars. Spurningar voru sendar til 1330 aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins. Svör bárust frá tæplega 600, eða rúmlega 44% aðspurðra.