Samkeppnishæfni - 

01. febrúar 2018

Könnun Litla Íslands fyrir Smáþing 2018

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Könnun Litla Íslands fyrir Smáþing 2018

Rúmlega 40% lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi hyggjast fjölga starfsfólki á næstu 3-5 árum. Langflest eða rúmlega helmingur hyggjast fjölga um 2-4 starfsmenn en fjórðungur um 5-9 starfsmenn. Þetta sýnir ný könnun Litla Íslands sem var unnin fyrir Smáþing sem nú stendur yfir á Hilton Reykjavík Nordica.

Rúmlega 40% lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi hyggjast fjölga starfsfólki á næstu 3-5 árum. Langflest eða rúmlega helmingur hyggjast fjölga um 2-4 starfsmenn en fjórðungur um 5-9 starfsmenn. Þetta sýnir ný könnun Litla Íslands sem var unnin fyrir Smáþing sem nú stendur yfir á Hilton Reykjavík Nordica.

Tæplega helmingur lítilla og meðalstórra fyrirtækja (48%) hyggjast ekki gera breytingar á starfmannafjölda næstu árin en rúmlega eitt af hverjum tíu (10%) hyggjast fækka starfsfólki. Þriðjungur hyggst fækka um 2-4 starfsmenn, fjórðungur um 5-9 og 22% hyggjast fækka um einn starfsmann. Bjartsýni um fjölgun starfa er meiri hjá minni fyrirtækjum en þeim stærri og stærri fyrirtæki hyggjast frekar fækka starffólki en þau minni.

Eru horfur á fjölgun eða fækkun starfsmanna í þínu fyrirtæki á næstu árum?

Stóra lausnin er smá
Það er mikið í húfi að hlúa vel að starfsumhverfi lítilla fyrirtækja. Störfum mun fjölga um 4.500 á næstu árum ef svör stjórnenda fyrirtækja með færri en 10 starfsmenn endurspegla áform sambærilegra fyrirtækja í atvinnulífinu öllu. Þessi fjölgun starfa mun auka launagreiðslur 25 milljarða.

Það er því til mikils að vinna fyrir allt samfélagið, ekki síst hið opinbera þar sem skatttekjur aukast um 15 milljarða á ári vegna þessarar tekjuaukningar. Það má því segja að besta viðskiptáætlunin sem býðst Íslendingum í dag sé að bæta starfsumhverfi fyrirtækjanna svo þau geti vaxið og dafnað.

 4.500 ný störf þýða ...

  • Launagreiðslur hækka um 25 milljarða
  • Tekjur hins opinbera af tekjuskatti og útvari hækka um 10 milljarða m.v. ca. 40% skatt
  • Tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi hækka um 1,8. milljarða
  • Tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti hækka um 3 milljarða vegna aukinnar neyslu

Starfsumhverfið
Skiptar skoðanir eru meðal stjórnenda lítilla og meðalstórra fyrirtækja um hvort starfsumhverfið hafi batnað eða versnað á undanförnum árum. Rúmlega þriðjungur segir starfsumhverfið hafa batnað talsvert eða mikið (35%), rúmlega þriðjungur segir starfsumhverfið hvorki hafa batnað né versnað (34%) en tæpur þriðjungur segir starfsumhverfið hafa versnað talsvert eða mikið (31%). Það eru einkum lítil og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi eða ferðaþjónustu sem segja að starfsumhverfið hafi versnað.

Hefur starfsumhverfi fyrirtækisins batnað eða versnað á síðustu árum?

Hindranir í veginum
Það er ýmislegt sem getur komið í veg fyrir að ofangreind áform fyrirtækja um fjölgun starfa geti orðið að veruleika. Flestir nefna háa skatta og háan launakostnað sem helstu ástæðu þess að fyrirtæki þeirra geti ekki vaxið og dafnað. Þar á eftir kemur reglubyrði, leyfisveitingar og eftirlit opinberra aðila og skortur á hæfu starfsfólki. Háir vextir og skortur á aðgengi að fjármagni er einnig stjórnendum lítilla og meðalstórra fyrirtækja hugleikinn ásamt skorti á stöðugleika í efnahagslífinu.

Markaðssetning á netinu
Markaðsmál verða til umfjöllunar á Smáþinginu og nýjar leiðir til að markaðssetja vörur og þjónustu á netinu og með samfélagsmiðlum. Spurt var hversu stór hluti af markaðsfé lítilla og meðalstórra fyrirtækja fari í markaðsnetinu og á samfélagsmiðlum.

Fjórðungur fyrirtækjanna ver ekki neinu til birtinga á netinu, hvorki á hefðbundnum vefsíðum eða samfélagsmiðlum. 27% fyrirtækjanna verja um 5% af markaðsfénu í net og samfélagsmiðla og allur gangur er á því hvert hlutfallið er. Rúmlega 5% fyrirtækjanna verja nær öllu sínu markaðsfé á samfélagsmiðlum eða vef (90-100%).

Hversu mikill hluti (%) af markaðsfé í þínu fyrirtæki fer í markaðssetningu á netinu og á samfélagsmiðlum?

Einnig var spurt hvaða samfélagsmiðla lítil og meðalstór fyrirtæki kjósi að nota við markaðssetningu sína og trónir Facebook þar á toppnum (42%) en Instagram (17%) YouTube (9%), Snapchat (6%) og Twitter (5%) eru eftirbátar samfélagsmiðlarisans. Boðið var upp á að nefna aðra möguleika og nefndu þó nokkrir ýmsar bókunarsíður, einkum í ferðaþjónustu.

Hvaða samfélagmiðil kýst þú að nota við þína markaðssetningu?

Litla Ísland er vettvangur þar sem lítil fyrirtæki vinna að stórum hagsmunamálum óháð atvinnugreinum. Bakhjarlar Litla Íslands eru SAF, SVÞ, SI, SFF og SA. Litla Ísland var stofnað á Smáþingi á Hilton Reykjavík Nordica 10. október 2013.

Litla Ísland er á vefnum og Facebook – sjáumst.

Um var að ræða netkönnun sem framkvæmd var af Outcome könnunum  19.-27. janúar og bárust 352 svör. Lítil fyrirtæki eru með 1-49 starfsmenn, og meðalstór fyrirtæki með 50-249 starfsmenn.

 

 

Samtök atvinnulífsins