Könnun á horfum í atvinnulífi ber vott um þenslu

Samtök atvinnulífsins ákváðu á síðasta ári að taka upp samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Áður gerðu SA reglubundnar kannanir á fjárfestingaráformum fyrirtækja o.fl., en fjármálaráðuneyti og Seðlabankinn voru með sérstaka könnun. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum IMG Gallup og verður hún gerð ársfjórðungslega. Tekið skal fram að ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Niðurstöður liggja nú fyrir úr könnun sem gerð var í febrúar. Í úrtaki voru 410 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun), en í endanlegu úrtaki voru 388 fyrirtæki. Svarhlutfall var 68,3%. Svör fyrirtækja eru vegin eftir launagreiðslum. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda.

Niðurstöður í heild

Svör stjórnenda bera vitni um þá miklu þenslu sem ríkir í efnahagslífinu um þessar mundir. Mikil og vaxandi innlend eftirspurn eftir vöru og þjónustu veldur því að stjórnendur meta stöðu fyrirtækjanna góða og almenn tilhneiging er til þess að hagnaður og framlegð fyrirtækja fari vaxandi. Fram kemur að mikill skortur er á starfsfólki og víða eru áform um fjölgun þess. Fjárfestingarstig helst hátt. Að jafnaði telja stjórnendur að verðbólgan verði yfir þolmörkum Seðlabankans, launaskrið verði töluvert, gengi krónunnar muni síga og vextir Seðlabankans hækki verulega á árinu.

Svör stjórnenda í sjávarútvegi skera sig nokkuð úr þar sem mat á stöðu og framtíðahorfum markast mjög af því hve hágengi krónunnar hefur kreppt að afkomu greinarinnar. Aðrar atvinnugreinar sem hágengið hefur bitnað hvað harðast á eru ekki eins skýrt afmarkaðar og sjávarútvegurinn, t.d. ferðaþjónusta og iðnaður í alþjóðlegri samkeppni. Svör stjórnenda í þessum greinum blandast saman við svör stjórnenda í fyrirtækjum þar sem innlend eftirspurnaraukning hefur haft meiri og jákvæðari áhrif en neikvæð áhrif hágengisins.

Niðurstöður um einstök atriði

Aðstæður í efnahagslífinu.

Meðal helstu niðurstaðna könnunarinnar að þessu sinni, sem miðast við stöðu og framtíðarhorfur í febrúar 2006, er að þrír fjórðu svarenda telja núverandi aðstæður í efnahagslífinu góðar, um 11% slæmar og 14% segja hvorki né. Er þetta ívið jákvæðari niðurstaða en var í hliðstæðri könnun í október. Mat stjórnenda í sjávarútvegi sker sig hins vegar úr, þar sem 47% telja núverandi aðstæður góðar, 34% telja þær slæmar og 19% segja hvorki né.

Aðstæður eftir 6 mánuði. Þegar litið er sex mánuði fram í tímann telja 60% fyrirtækjanna að aðstæður í efnahagslífinu verði óbreyttar, um 17% telja að þær verði betri og 23% verri. Kemur ekki fram mikill munur á horfum eftir atvinnugreinum.

Aðstæður eftir 12 mánuði. Minni bjartsýni gætir um horfur um aðstæður í efnahagslífinu eftir 12 mánuði. Þá telja um 36% að þær verði verri, um 19% betri en 45% óbreyttar. Í þessu tilviki kemur fram nokkur munur eftir atvinnugreinum. Gætir mestrar bjartsýni í sjávarútvegi, þar sem um 43% telja horfur þá nokkuð eða miklu betri, en 29% verri. Í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu sem og í ýmissi sérhæfðri þjónustu telur hátt í helmingur svarenda horfur verri, en aðeins 15-25% að þær séu betri.

Skortur á starfsfólki.

Tæplega helmingur svarenda eða um 48% telja að skortur sé á starfsfólki en um 52% að nægt framboð sé. Staðan er svipuð á höfuðborgarsvæði og á landsbyggðinni. Skortur er á starfsfólki í öllum atvinnugreinum, mestur þó í byggingarstarfsemi og sérhæfðri þjónustu en minni í iðnaði og verslun.

Starfsmannafjöldi næstu 6 mánuði.

Bjartar horfur koma fram um starfsmannafjölda næstu sex mánuði. Telja um 47% að þeim muni fjölga á næstu 6 mánuðum, 8% vænta fækkunar en 45% búast við óbreyttum starfsmannafjölda. Sjávarútvegur sker sig nokkuð úr að þessu leyti, þar sem mikill meirihluti fyrirtækja (74%) væntir þess að starfsmannafjöldi verði óbreyttur, og ámóta stór hluti væntir þess að þeim fjölgi (14%) og að þeim fækki (11%).

Hagnaður.

Í heild gætir bjartsýni um afkomu á þessu ári. Telja 43% fyrirtækjanna að hagnaður verði meiri en í fyrra, 20% vænta verri afkomu en 36% búast við óbreyttum hagnaði. Horfur um hagnað eru lakastar í sjávarútvegi þar sem 38% telja þær verri, önnur 38% telja þó að hagnaður í ár verði meiri, en 24% gera ekki ráð fyrir breytingu.

EBITDA-framlegð síðustu 6 mánuði.

Í könnuninni var einnig spurt um breytingar á EBITDA-framlegð (þ.e. hagnaði fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir) undanfarna 6 mánuði og líklegar breytingar næstu 6 mánuði. Í heild er niðurstaðan jákvæð og telja 43% fyrirtækjanna að framlegð hafi aukist, 16% að hún hafi dregist saman, en staðan var óbreytt hjá 31% þátttakenda. Verulegur munur kemur þó fram eftir atvinnugreinum. Í fjármála- og tryggingastarfsemi telja allir þátttakendur að framlegð hafi aukist, ýmist mikið (25%) eða nokkuð (75%). Niðurstaðan er sömuleiðis mjög jákvæð í byggingarstarfsemi og samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu, þar sem aðeins er um það að ræða að framlegð hafi aukist eða hún standi í stað en enginn samdráttur. Öðru máli gegnir um sjávarútveg. Þar telja 55% þátttakenda að framlegð hafi minnkað á síðustu 6 mánuðum, 23% telja hana óbreytta en aukning hefur orðið hjá öðrum 23%. Í iðnaði, verslun og þjónustu er niðurstaðan svipuð og hjá atvinnulífinu í heild.

EBITDA-framlegð næstu 6 mánuði.

Tæpur helmingur svarenda telur að framlegð muni aukast á næstu 6 mánuðum, 36% að hún standi í stað og 15% að hún minnki. Þegar þessar væntingar um framlegð og hagnað eru bornar saman kemur í ljós að bjartsýni er meiri varðandi framlegðina, þannig að stjórnendur búast almennt ekki við að fjármagnsliðir styrki afkomuna á árinu.

Velta.

Meirihluti svarenda eða um 66% vænta þess að velta verði meiri á þessu ári en í fyrra, um 7% vænta samdráttar en um 27% gera ráð fyrir óbreyttri veltu. Horfur um veltu eru lakastar í sjávarútvegi þar sem 17% svarenda búast við samdrætti í veltu á þessu ári og 29% að hún verði óbreytt.

Laun.

Meirihluti svarenda (59,5%) telur að meðallaun á starfsmann muni hækka á næstu 6 mánuðum. Þar sem ekki eru um kjarasamningsbundnar hækkanir á tímabilinu að ræða felur þetta í sér hækkanir umfram samninga, þ.e. launaskrið. Nokkur munur er þó á horfum um þróun launa eftir svæðum og atvinnugreinum. Á landsbyggðinni er síður vænst hækkunar á meðallaunum en á höfuðborgarsvæðinu. Þá er mun síður vænst launahækkunar í sjávarútvegi en í öðrum atvinnugreinum. Í sjávarútvegi gera raunar 12% svarenda ráð fyrir launalækkun.

Væntingar fyrirtækja í könnuninni um þróun meðallauna frá upphafi til loka þessa árs gefa til kynna rösklega 4% meðalhækkun, en breytingin er einnig nokkuð misjöfn eftir svæðum og atvinnugreinum.

Fjárfestingar.

Niðurstöður gefa til kynna að litlar breytingar verði á fjárfestingu á árinu 2006. Um 26% þeirra sem svöruðu telja að þær verði meiri en árið 2005, sama hlutfall gerir ráð fyrir minni fjárfestingum. Um helmingur (48%) væntir þess að fjárfesting verði óbreytt frá því í fyrra. Horfur um fjárfestingu eru sístar í sjávarútvegi, þar sem 46% svarenda vænta samdráttar, 40% að þær verði óbreyttar en aðeins 14% gera ráð fyrir aukningu.

Spá um verðbólgu, stýrivexti og gengi.

Fyrirtæki í könnuninni spá að meðaltali 4,2% hækkun vísitölu neysluverðs næstu 12 mánuði og 7,2% á næstu 2 árum. Þá spá þau því að stýrivextir Seðlabankans verði 12,7% eftir 12 mánuði. Um 82% þátttakenda spá því að gengi krónunnar muni veikjast á næstu 12 mánuðum, 4% að það muni styrkjast en 14% að það haldist óbreytt.

Sjá könnun IMG Gallup.