Efnahagsmál - 

08. júlí 2010

Komum atvinnulífinu af stað

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Komum atvinnulífinu af stað

Næsta lota kjarasamninga fer á fullan skrið að loknum sumarfríum. Þá hefst lokaundirbúningurinn að stefnumörkun aðila vinnumarkaðarins og gerð viðræðuáætlana. Flestir helstu samningar renna út í lok nóvember. Innan SA hafa næstu samningar verið til umræðu um nokkurn tíma enda má segja að samskipti aðila vinnumarkarins séu nánast samfelld og óformlegar viðræður um stöðu mála og framtíðarhorfur alltaf í gangi.

Næsta lota kjarasamninga fer á fullan skrið að loknum sumarfríum. Þá hefst lokaundirbúningurinn að stefnumörkun aðila vinnumarkaðarins og gerð viðræðuáætlana. Flestir helstu samningar renna út í lok nóvember. Innan SA hafa næstu samningar verið til umræðu um nokkurn tíma enda má segja að samskipti aðila vinnumarkarins séu nánast samfelld og óformlegar viðræður um stöðu mála og framtíðarhorfur alltaf í gangi.

Við gerð núgildandi kjarasamninga í febrúar 2008 var þess vænst að við lok samningstímans væri unnt að gera langtímasamning um hóflegar launahækkanir og skapa umgjörð um stöðugleika í verðlagi og starfsskilyrðum atvinnulífsins. Hrunið og eftirleikur þess hafa eðlilega gjörbreytt öllum forsendum en engu að síður þarf að marka stefnu til næstu ára og skapa nýja framtíðarsýn sem breið samstaða getur náðst um.

Innlegg SA í þessa vinnu hefur verið að mótast og mun þróast enn frekar á næstu mánuðum. Á þessu ári hafa verið gefin út stefnumarkandi rit um atvinnumál og ríkisfjármál og von er á sérstöku útspili um skattamál atvinnulífsins í byrjun október. Þá hefur mikið verið fjallað um lífeyrismál.

Útgangspunkturinn í vinnu SA hefur verið að gefast ekki upp við að ná skynsamlegum markmiðum og glata ekki sjónum á því að ná atvinnulífinu aftur á skrið, skapa ný störf og sækja fram á grundvelli stöðugleika og hagstæðra starfsskilyrða. Þetta er líka vænlegasta leið Íslendinga til að endurheimta lífskjörin á næstu árum.

Í þessu felst að enn þarf að reyna að ná langtímasamningi t.d. til þriggja ára með hóflegum hækkunum sem eru ekki úr takti við það sem gerist í okkar nágrannalöndum enda hljótum við að stefna á sambærilegar verðbólgutölur. Skynsamlegast er að líta á allan samningstímann í einu og spyrja sig hvaða hækkanir eigum við að semja um yfir þriggja ára tímabil. Ennfremur þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki til staðar þannig að hægt sé að fara hraðar eða hægar í hækkanir eftir aðstæðum en engu að síður verði allir hópar í svipaðri stöðu í lok þriggja ára samningstíma.

Með nálgun af þessum toga er unnt að hugsa sér lausn sem gæti gengið bæði fyrir almenna vinnumarkaðinn jafnt sem hinn opinbera. Tillögur um frystingu launa opinberra starfsmanna eru skiljanlegar við núverandi aðstæður en hins vegar má heldur ekki safna upp vanda sem magnast upp og skapar erfiðari stöðu á vinnumarkaðnum þegar frá líður.

Meginspurningin þarf að vera: Hvað þarf að gerast þannig að leið af þessum toga verði ásættanleg fyrir allan vinnumarkaðinn? SA hafa einmitt verið að fjalla um þau mál og flest þeirra hafa verið til umfjöllunar í samfélaginu á undanförnum mánuðum og misserum. Stöðugleikasáttmálinn sem gerður var fyrir rúmu ári átti að varða leiðina en örlög hans urðu því miður önnur en vænst var.

Svipleg örlög stöðugleikasáttmálans breyta því ekki að gera verður nýja atrennu að því að ná atvinnulífinu á alvöru skrið, skapa störf og eyða atvinnuleysinu. Ríkisstjórnin kemur óhjákvæmilega að því en í samskiptum við ríkisstjórn og önnur stjórnvöld þarf í ljósi reynslunnar að ganga mun tryggilegar frá málum en áður var nauðsynlegt. Nú þarf að miða við að lagabreytingar sem ríkisstjórn vill beita sér fyrir í samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins verði samþykktar áður en gengið er frá kjarasamningum og sambærilegt gildi um stjórnvaldsákvarðanir.

Í síðari hluta september munu SA kynna útfærslur á þeim hugmyndum sem unnið er að eftir nauðsynlega umræðu innan samtakanna. Verkalýðshreyfingin er að móta hugmyndir sínar og það skýrist væntanlega í september og október hvernig hún vill standa að málum. Það skiptir máli að ná sem bestri samstöðu meðal aðila vinnumarkaðarins og þar eru aðilar hins opinbera vinnumarkaðar ekki undanskildir.

Þegar upp er staðið er það allra hagur að árangur náist við að ná atvinnulífinu af stað. Því verður að halda áfram að reyna að skapa skilyrði fyrir því að það takist. Vandamálin leysast ekki af sjálfu sér og því fyrr sem næst að ná alvöru hreyfingu á atvinnumálin þess líklegra er að árangur skili sér fyrir alla.  

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA: Af vettvangi í júlí 2010

Samtök atvinnulífsins