Efnahagsmál - 

15. Ágúst 2019

Kjöraðstæður til innviðauppbyggingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjöraðstæður til innviðauppbyggingar

Í síðustu niðursveiflu gripu stjórnvöld m.a. til þess að fresta opinberum framkvæmdum. Tíu árum síðar hleypur uppsöfnuð fjárfestingarþörf hins opinbera á hundruðum milljarða króna. Nú þegar hægir á vexti hagkerfisins á ný er mikilvægt að þessi leikur verði ekki endurtekinn enda getur ónæg fjárfesting í innviðum haft margvíslegar og neikvæðar afleiðingar í för með sér.

Í síðustu niðursveiflu gripu stjórnvöld m.a. til þess að fresta opinberum framkvæmdum. Tíu árum síðar hleypur uppsöfnuð fjárfestingarþörf hins opinbera á hundruðum milljarða króna. Nú þegar hægir á vexti hagkerfisins á ný er mikilvægt að þessi leikur verði ekki endurtekinn enda getur ónæg fjárfesting í innviðum haft margvíslegar og neikvæðar afleiðingar í för með sér.

Jafnvel þó stjórnvöld hyggist verja auknum fjármunum til samgöngumála á næstu árum duga þeir skammt til að mæta áætlaðri þörf. Að mati SA eru áform stjórnvalda um að leggja fram frumvarp þar sem gert verður ráð fyrir því að heimilt verði að bjóða tilteknar framkvæmdir út sem samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila (e. Public-Private Partnership, PPP), jákvætt og mikilvægt skref í rétta átt. Reynsla Íslands af byggingu Hvalfjarðarganga og reynsla annarra þjóða af sambærilegum verkefnum sýnir að kostir samvinnuverkefna eru ótvíræðir. Ófjármagnaðar en nauðsynlegar fjárfestingar í samgönguinnviðum nema um 160 milljörðum króna. Samvinnuleiðin getur brúað þetta bil. Rétti tíminn til þess að auka við fjárfestingar er núna.

Samvinnuverkefni hafa ákveðna kosti fram yfir annars konar, hefðbundnari, fjármögnun innviðaframkvæmda. Fyrst og fremst stuðla samvinnuverkefni að áhættudreifingu, en ljóst er að áhættan af innviða uppbyggingu og rekstri þeirra getur verið töluverð. Þegar opinberar framkvæmdir fara fram úr áætlun hvað varðar rekstur eða framkvæmd bera skattgreiðendur þann kostnað, sé hönnun, framkvæmd og rekstur verkefnis hins vegar alfarið komið fyrir í höndum einkaaðila er áhættan af verkefninu einnig í hans höndum. Þannig skapar samvinnuleiðin aukna áhættudreifingu fyrir ríkissjóð.

Í öðru lagi veitir samvinnuleiðin ríkinu aðgang að sérfræðiþekkingu og fjármagni einkageirans sem gerir því kleift að virkja skilvirkni einkageirans til þess að skila bættri þjónustu til almennings og stuðla að hagkvæmri uppbygginu innviða. Samvinnuverkefni, ef vel hönnuð, tryggja t.a.m. að viðhaldi sé sinnt jafnóðum í stað þess að tímabil vanrækslu fylgi uppbygginu sem að endingu kallar á kostnaðarsamt viðhald. Þá hefur einkaaðili meiri hvata en hið opinbera til að klára verkefni innan áætlaðs tíma og með sem minnstum tilkostnaði. Hvoru tveggja, betri áætlunargerð og betra viðhald, skilar bættri þjónustu – almenningi til hagsbóta.

Ónægar fjárfestingar í innviðum leiða af sér mikinn kostnað fyrir þjóðfélagið í heild. Ekki aðeins kemur það niður á framleiðni og samkeppnishæfni atvinnugreina, heldur getur einnig valdið aukinni slysahættu og leitt af sér annars konar heilsufarsvandamál, svo sem vegna meiri mengunar en ella. Sterkir innviðir sem þjóna þörfum atvinnulífsins og heimila stuðla aftur á móti að aukinni samkeppnishæfni, efla framleiðni og styrkja stoðir hagvaxtar til framtíðar.

Sjá nánar:

Til umhugsunar: Kjöraðstæður til innviðauppbyggingar (PDF)


Til umhugsunar eru reglulegar greinar á vef SA um fjölbreytt samfélagsmál

Samtök atvinnulífsins