Fréttir - 

13. mars 2017

Kjöraðstæður fyrir lækkun vaxta

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjöraðstæður fyrir lækkun vaxta

Öll fjármagnshöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði verða afnumin með nýjum reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í gær, sunnudaginn 12. mars. „Þetta eru mjög jákvæðar fréttir, og í samræmi við það sem Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir undanfarin misseri,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA í samtali við Morgunblaðið í dag.

Öll fjármagnshöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði verða afnumin með nýjum reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í gær, sunnudaginn 12. mars. „Þetta eru mjög jákvæðar fréttir, og í samræmi við það sem Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir undanfarin misseri,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA í samtali við Morgunblaðið í dag.

„Afnám hafta skapar kjöraðstæður fyrir lækkun vaxta, og þýðir um leið að engar hindranir eru lengur í vegi innlendra fjárfesta - sér í lagi lífeyrissjóðanna - að færa sig í auknum mæli úr innlendum eignum í eignir í erlendum gjaldmiðlum. Við lægra vaxtastig getum við síðan stigið skrefið til fulls með afnámi innflæðishafta á næstunni.“

Í umfjöllun Morgunblaðsins segir enn fremur:

Halldór líkir áhrifum afnáms hafta á atvinnulífið við að leysa fugl úr búri.  „Á meðan fuglinn er í búrinu er hann vissulega fleygur, en þegar búrið er opnað getur hann flogið hvert sem hann lystir.“

Halldór bendir á að erlend eignastaða lífeyrissjóðanna sé nú um fjórðungur af heildareignum. „Það telst ekki vera nógu gott jafnvægi milli innlendra og erlendra eigna og ég tel æskilegt að lífeyrissjóðirnir ráðist í verulegar fjárfestingar erlendis á næstunni með það fyrir augum að hækka hlutfallið verulega. Í því felst betri áhættudreifing sem er hagur allra Íslendinga.“

Styrking krónunnar síðustu mánuði og misseri hefur bitnað illa á útflutningsgreinunum, sem Halldór segir skapa grunninn að velsæld í landinu. „Vaxtalækkun Seðlabankans ætti að stöðva frekari styrkingu krónunnar og jafnvel geta veikt hana eitthvað en jafnframt hvetja til fullnýtingar þeirra tækifæra sem skapast við fullt afnám hafta. Rými til vaxtalækkunar er sannarlega til staðar enda er raunvaxtamunur Íslands við útlönd um 3-4 prósentustig. Stöðugt vaxtalækkunarferli Seðlabankans gagnast bæði almenningi og fyrirtækjum í landinu – sem hafa beðið lengi eftir lækkun vaxta.“

Halldór segir að afnám hafta ætti líka að auðvelda lántökur Íslendinga erlendis og hvetja til erlendrar fjárfestingar á Íslandi sem væri þjóðhagslega hagkvæmt. „Hvað lántökur og fjárfestingar snertir er hvers kyns regluverk sem er útlendingum framandi, gjaldeyrishöft þar á meðal, talið til vansa. Allar sérlausnir eru þyrnir í augum erlendra aðila, enda geri ég fastlega ráð fyrir að afnám fjármagnshafta muni leiða til hækkunar lánshæfismats íslenska ríkisins sem síðan mun leiða til betri vaxtakjara íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum vettvangi. Það er risastór áfangi.“

Tengt efni:

Ítarefni á vef Seðlabanka Íslands:

Samtök atvinnulífsins