Kjaraviðræður lognast út af vegna hárra vaxta

 "Þessi stýrivaxtaákvörðun þýðir væntanlega að það lognast út af allar kjaraviðræður, því við erum ekki að fara að hækka laun á þessum forsendum, með stýrivexti svona háa," segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við mbl.is. Stýrivextir hefðu þurft að lækka niður í eins stafs tölu til þess að það væri nokkurt vit í því að halda viðræðum áfram. Tilkynnt var um lækkun stýrivaxta um eitt prósentustig í 12% í morgun. Vilhjálmur segir ljóst að kjarasamningar verði ekki framlengdir og opnist því 1. júlí. Horfur á vinnumarkaði virðist ekki skipta Seðlabankann neinu máli.

Í umfjöllun mbl.is segir:

Hann [Vilhjálmur] segir ákvörðun Seðlabankans um vexti í fyrsta lagi ranga og í öðru lagi ekki gefa færi á að halda áfram viðræðum. Við þessa stöðu sé ljóst að kjarasamningar verði ekki framlengdir og opnist þá 1. júlí, enda virðist það ekki skipta Seðlabankann neinu máli til eða frá hvernig vinnumarkaðurinn þróist. "Viðleitni vinnumarkaðarins til vinna með stjórnvöldum um að ná samtöðu um stöðugleika meðal þjóðarinnar virðist ekki hafa verið neinn þáttur í þessari ákvörðun. Seðlabankinn er bara með þessu að lýsa því yfir að aðkoma vinnumarkaðarins sé ekkert sem máli skiptir. "

Vilhjálmur segir, að þeir fundir, sem boðaðir hafa verið um áframhald launaviðræða, verði haldnir en hann býst við því að lengra haldi umræðurnar ekki. "Við höfum að þessu leyti ekki mikið annað að gera núna en að fara heim og undirbúa hátíðarhöldin 17. júní, það gerist ekki neitt."

Hann segir ekki geta skilið það öðru vísi en að Seðlabankin vilji ekki vera þáttur í stefnumörkun eða taka þátt í viðræðum um framvindu efnahagsmála.  "Eins og þetta lítur út fyrir mér þá sýnist mér það vera svo að Seðlabankann skortir sjálfstraust til þess að koma að alvöru viðræðum um þennan stöðugleikasáttmála. Hann virðist líta sjálfstæði sitt öðrum augum en æskilegt er að mínu mati, sjálfstæði bankans þýðir ekki að hann sé einangraður frá samfélaginu."

Einnig var rætt við Vilhjálm Egilsson og Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, í hádegisfréttum RÚV. Það er mat þeirra að ákvörðun um 12% stýrivexti kippi stoðunum undan svokölluðum stöðugleikasáttmála sem aðilar vinnumarkaðarins hafa undanfarið unnið að því að koma á í samvinnu við hið opinbera.

Sjá nánar:

Frétt mbl.is

Hlusta á frétt RÚV